28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4313 í B-deild Alþingistíðinda. (4030)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í beinu framhaldi af því, sem hv. þm., sem hér talaði síðast, sagði, vil ég upplýsa að það kom fram hjá hæstv. iðnrh. á fundi vestur í Hnífsdal að kostnaðurinn við að tryggja, að munur á milli orkugjafa til húshitunar yrði aldrei meiri en 1 á móti 2.5 til 1 á móti 3, léki á bilinu 80–120 millj. kr. Ég held ég fari rétt með það. Heildartekjur af orkujöfnunargjaldi, sem hv. þm. einnig minnist á að er lagt á landslýð allan til þess að jafna orkuverð, eru á árinu 190 millj. kr. Þar af er aðeins ráðstafað 30 millj. kr. til orkujöfnunar. Eftir standa því 160 millj. kr. af þessum tekjustofni sem ekki er ráðstafað til þeirra þarfa sem fjárins er aflað til. Þetta þýðir það, að orkujöfnunargjaldið eitt getur gert meira en að standa undir þeim jöfnuði sem hv. þm. talaði um, eins þó að sá jöfnuður og þær aðgerðir væru látnar ná jafnt til einstaklinga og íbúðarhúsnæðis þeirra og til atvinnurekstrarhúsnæðis.

Ég vil aðeins í framhaldi af þessu benda mönnum á það, að fyrir nokkrum árum, þegar nýtt skipulag Ísafjarðarkaupstaðar var á döfinni, var leitað ýmissa upplýsinga hjá fólki sem þar bjó. Í fyrsta lagi: Af hverju hafið þið búsetu hér? Í öðru lagi: Hvers vegna flytjið þið í burtu? Um þetta voru þeir spurðir sem brott höfðu flutt. Ástæður fyrir því, að fólk fluttist til Ísafjarðarkaupstaðar þá, voru fyrst og fremst miklir tekjumöguleikar. Ástæður fyrir því, að fólk fluttist brott, voru einkum tvær: Í fyrsta lagi slæmur aðbúnaður, fyrst og fremst í heilsugæslumálum, og í öðru lagi einangrun. Síðan þessi könnun var gerð hefur þriðja neikvæða atriðið bæst við, þ.e. hinn gríðarlegi mismunur á upphitunarkostnaði. Nú upp á síðkastið hafa hins vegar tekjumöguleikar á þessum stöðum verið að dragast saman, svo að nú er hafinn allör brottflutningur fólks af þéttbýlissvæðunum vestur á fjörðum. Fasteignaverð þar, t.d. í Ísafjarðarkaupstað, sem hefur verið nokkuð hátt vegna mikilla atvinnutekna, er nú á hraðri niðurleið. Það er að bresta þarna á mikill fólksflótti vegna þeirra aðstæðna sem ég hef þegar lýst. Meginhlutinn af íbúum þessara staða er í svokallaðri frumframleiðslu. Talið er að fyrir hvern einn, sem stundar frumframleiðslu, t.d. í fiskveiðum, skapist atvinna fyrir fjóra til fimm aðra. Þorri af þessum fjórum til fimm er búsettur hér á Reykjavíkursvæðinu og hefur atvinnu sína beinlínis af því að það er fólk búsett úri á landi sem stundar þar framleiðslustörf. Því er það mikið atriði, ekki bara fyrir þessi byggðarlög heldur einnig fyrir þá sem vinna þjónustustörf hér í Reykjavík, að haldið sé uppi byggð og atvinnulífi á þeim svæðum úti á landi sem standa með þessum hætti undir ýmsum þjónustugreinum hér. Og eitt mikilvægasta atriðið í því sambandi er að tryggja þann lífskjarajöfnuð þar sem jöfnun hitakostnaðar er nú orðið stærsta atriðið.

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður og er nú rétt að ljúka máli mínu. En ég vil aðeins benda á það, að orkujöfnunargjald, sem er 1.5% í viðbótarsöluskatti, var lagt á til þess að stuðla að þessari jöfnun. Um síðustu áramót, þegar fjárlög voru afgreidd frá Alþingi, lögðum við þm. Alþfl. fram till. um að orkujöfnunargjaldið yrði allt nýtt til þess að jafna orkukostnað í landinu. Og við lögðum jafnframt með þeirri till fram till. um sparnað í ríkisrekstri og niðurskurð útgjalda, sem samtals námu miklu hærri fjárhæðum en þeim sem hér er um að tefla, þannig að till. okkar um að ráðstafa orkujöfnunargjaldinu til orkujöfnunar var fyllilega raunhæf. Sú till. var felld. Sama máli gegndi um till. frá sjálfstæðismönnum þess efnis, að fyrst felld væri till. um að ráðstafa orkujöfnunargjaldinu öllu til orku jöfnunar verði a.m.k. helmingi gjaldsins ráðstafað til þeirra þarfa sem teknanna var aflað til. Einnig sú till. var felld. Þá hafa þm. Alþfl. í þessari hv. deild lagt fram tvö lagafrv. um úrbætur í þessum orkumálum. Hv. þm. Magnús H. Magnússon er 1. flm. að öðru þeirra. Þar er lagt til að þessi munur verði jafnaður með misháum persónuafslætti og barnabótum í skatti. Ég held ég muni það rétt að þetta sé 109. mál þessarar deildar. Hitt frv. flyt ég ásamt fleiri þm. úr Alþfl. og tveimur þm. úr Sjálfstfl., þeim hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og hæstv. forseta þessarar deildar. Það frv. gerir ráð fyrir að þessi jöfnuður eigi sér einnig stað í gegnum skattakerfið, með þeim hætti að einstaklingum verði heimilaður sami réttur og atvinnufyrirtækjum, þ.e. að einstaklingarnir fái að draga orkukostnað vegna íbúðarhúsnæðis síns frá skatti. Þetta mál minnir mig að sé 120. eða 125. mál þessarar deildar.

Það eru liðnar margar vikur frá því að umr. fór fram um bæði þessi mál í þessari deild og þeim var vísað til fjh.- og viðskn. Ég hef marglýst eftir því og óskað þess við nm. í þeirri nefnd, að þeir tækju þessi mál, annaðhvort eða bæði, til einhverrar afgreiðslu. Þær óskir mínar og beiðnir hafa engar undirtektir hlotið. Í Ed. hefur þriðja hugmyndin um lausn þessara mála verið lögð fram. Þar hefur hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson ásamt fleiri þm., m.a. úr Alþfl., lagt fram frv. um enn eina aðferð til að jafna þennan mikla mismun. Það vantar því ekki að tillögur hafi verið lagðar fram hér á Alþingi um ýmsar leiðir. Það vantar ekki heldur að Alþingi hafi útvegað tekjustofn sem gerir meira en að standa undir tekjuöflunarþörfinni til þess að jafna húshitunarkostnaðinn. Það eina, sem á hefur staðið, er að þm. stjórnarliðsins, sem eru í meiri hl. í báðum deildum þingsins, hafa staðið gegn því, að nokkur af þessum tillögum fengist hér afgreidd.