28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4314 í B-deild Alþingistíðinda. (4031)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. segir eitthvað á þá leið, að ríkisstj. muni vinna að og gera tillögur um jöfnun á orkuverði til landsmanna, einkum og sér í lagi jöfnun á verði til húsahitunar. Ríkisstj. hefur nú setið á þriðja ár, komið er á seinni hluta þessa kjörtímabils, og alltaf hefur verið sagt að það sé verið að athuga málin. Í allan vetur hefur verið beðið eftir þessari margumtöluðu nefnd, að hún skilaði áliti. Þessi nefnd hefði getað verið búin að skila áliti fyrir löngu. En þannig er nú málum háttað að oftast nær eru sömu mennirnir í svo mörgum nefndum að það fer ekki að nægja sumum hverjum að hafa 24 tíma í sólarhringnum. Það þyrfti því að fara að lengja sólarhringinn fyrir a.m.k. 5–6 menn úr stjórnarliðinu ef þeir eiga að geta stundað með sæmilegum hætti allt það sem þeir taka að sér að starfa að.

Síðasti ræðumaður gat þess réttilega, að hér á Alþingi hafi verið lagðar fram tillögur um allmargar leiðir til úrlausnar í þessum efnum. Menn hafa því haft hér um ýmsa kosti að velja, hvaða leið væri heppilegust. Ég er þeirrar skoðunar að jöfnun hitakostnaðar sé heppilegasta leiðin, en þó gerðist ég meðflm. að frv., sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, til þess fyrst og fremst að benda á fleiri en eina leið. Höfuðatriði þessa máls er að þessi gífurlegi munur er að vera með þeim hætti að fólk víða úti á landi er hreinlega að sligast undir þessum mikla hitunarkostnaði. Margir hafa við orð — og sumir hafa þegar framfylgt því — að flytja til þeirra staða þar sem boðið er upp á mun betri lífskjör en þessi. Það má segja að þetta hafi getað gengið frekar á meðan atvinna var mikil víðast hvar um land, mikil eftir — og næturvinna og bónusvinna. Úr þessu hefur dregið, eins og allir vita, og þess vegna eru þessir erfiðleikar að verða svo gífurlega miklir að það er ekki hægt að bíða lengur eftir úrbótum.

Ég bendi á að nýlega lögðu þrír þm. fram í Ed. frv. til laga um jöfnun hitunarkostnaðar. Þessir þm. eru Þorv. Garðar Kristjánsson, Eiður Guðnason og Egill Jónsson. Þetta frv. hefur komið þar til umr. og er nú í nefnd. Helstu nýmæli þess eru að takmörk verði sett fyrir því, hvað mismunur á hitunarkostnaði landsmanna má vera mestur. Sett er regla sem kveður á um hvað niðurgreiðsla á orkugjöfum til húshitunar skuli vera mikil. Er þar tekið mið af hvoru tveggja í senn, verði olíu og gjaldskrám hitaveitna. Verð á dýrustu raforku til húshitunar er greitt niður, hvort heldur er til beinnar upphitunar eða sem orkugjafi hitaveitna. Hitunarkostnaður atvinnuhúsnæðis er greiddur niður jafnt sem hitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis. Fjármagni að andvirði orkujöfnunargjalds er ráðstafað til niðurgreiðslu á orkugjöfum til húshitunar. Orkusjóði er fengið til ráðstöfunar það fjármagn sem ætlað er til niðurgreiðslu á orkugjöfum til húshitunar. Mál er varða jöfnun hitunarkostnaðar eru flutt frá viðskrh. í verkahring iðnrh. Í raun og veru eiga þessi málefni að vera undir stjórn iðnrn. en ekki viðskrn., þó að það hafi á sínum tíma verið gert. En þá var hér um beinar niðurgreiðslur að ræða á upphitunarkostnaði með olíu. Síðan hefur margt breyst sem gerir það bæði sjálfsagt og eðlilegt að þessi breyting sé gerð.

Á þessum síðustu dögum þingsins er mjög sótt á um afgreiðslu á fjölmörgum málum sem kosta þjóðfélagið og skattborgarana stórkostleg ný útgjöld. Á sama tíma er svo legið á úrbótum sem ríkisstj. hefur þó í upphafi valdaferils síns lýst yfir að hún ætli að vinna að að leysa og jafna, eins og í þessu tilfelli. Og svörin eru alltaf þau sömu: Það er í athugun, þetta þarf að athuga mjög nákvæmlega, þetta er mjög athyglisverð hugmynd sem fram hefur komið. — Nú spyr ég stjórnarliðana, ekki ráðh. eingöngu heldur þá sem styðja við ráðherrastólana að þeir velti ekki á þingmenn, hvort þeir ætli að láta senda sig heim — bara í pósti, jafnvel þó að sé greitt undir þá — án þess að leysa þessi mál og láta svo bara segja að lokum: Þakka ykkur nú fyrir að hafa aðstoðað okkur við að velta ekki úr stólunum í vetur. Nú megið þið fara því nú ætlum við að stjórna í sumar. Svo komið þið aftur í haust. Þá þurfum við á ykkur að halda og þá höldum við bara áfram sama leiknum.

Það er ekki sjáanlegt að neitt eigi að gera. Og þá ætla ég að vera hollráður þeim þm., sem stutt hafa við ráðh. í stólunum, og benda þeim á að velja einhverja af þeim leiðum sem till. hafa verið fluttar um hér. Ég tel langnærtækustu og skynsamlegustu leiðina að samþykkja frv. um jöfnun hitunarkostnaðar. Og ég held að það verði ekki ríkisstj. til falls þó að þm. úr stjórnarliðinu taki nú á honum stóra sínum og segi: Við ætlum bara ekkert að hætta hér á næstu dögum nema þessi mál séu leyst með viðunandi hætti. Og það þarf að koma fram ef þessir þm. hafa einhverjar betri lausnir en þær sem þegar liggja fyrir þinginu, frv. um jöfnun hitunarkostnaðar eða skattafrv. sem 3. þm. Vestf. gat um eða frv. það sem Magnús H. Magnússon flutti og liggur líka í nefnd. Ef þessar leiðir eru fremur valdar, þá ætla ég ekki að halda dauðahaldi í þessa leið um jöfnun hitunarkostnaðar samkv. frv. þeirra Ed.-þm. sem ég gat um áðan. Ég er tilbúinn til samstarfs um lausn með einhverjum hætti, þá lausn sem menn geta helst sætt sig við.

Höfuðatriði málsins er að jafna þann gífurlega ójöfnuð sem er núna í þjóðfélaginu. Það, sem gerir t.d. þessi sárindi miklu meiri, er það, hve orkuverðið á Reykjavíkursvæðinu er ótrúlega lágt og langt undir kostnaðarverði. Hæstv. iðnrh. sagði nýlega á fundi í Hnífsdal hjá Orkubúi Vestfjarða, að hann væri talsmaður þess að hækka þetta orkuverð svo að þessi orka væri ekki seld á undirverði, sem er heilbrigt sjónarmið. En þetta hefur ýtt undir sárindin víða úti um landið. Þetta er ekki sagt til þess að heimta aukna skatta á fólk sem býr hér á höfuðborgarsvæðinu, því að við vitum að með því að selja orkuna undir kostnaðarverði er verið að geyma þessar hækkanir til næstu mánaða í mesta lagi. Og þá skella þessar hækkanir með miklu meiri þunga á fólkið hér á höfuðborgarsvæðinu.