28.04.1982
Neðri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4316 í B-deild Alþingistíðinda. (4032)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Nokkrum vikum eftir að núverandi ríkisstj. tók við völdum flutti hún frv. til laga um jöfnun og lækkun á hitunarkostnaði. Þau lög voru samþykkt á Alþingi í maímánuði 1980 og eru þess vegna tæplega tveggja ára gömul. Þegar lögin höfðu verið í gildi um nokkurn tíma, þ.e. um sumarið og fram á haustið 1980, urðu umræður um það hér á Alþingi, að ástæða væri til að endurskoða þau. Ég tók vel í það mál og taldi nauðsynlegt að endurskoða lögin fljótlega. Niðurstaðan varð svo sú, eins og kom fram í máli hæstv. forsrh., að það var sett niður nefnd sem ég skipaði í fyrrasumar, nefnd fulltrúa frá öllum stjórnaraðilum og öllum þingflokkum. Þessi nefnd hefur unnið að þessu máli síðan og nefndarálitið, sem ég er með hér í höndum, var mér afhent í morgun. Því mun verða dreift til hv. þm. sennilega í dag eða á morgun. (Gripið fram í: Það er komið.) Nú það er komið. Það er gott að heyra það.

Nú er það auðvitað svo að þetta mjög svo alvarlega mál er ekki í öllum tilvikum einfalt mál. Það þarf að undirbúa vandlega löggjöf í þessum efnum til að tryggja fullt réttlæti. Það er því ekki ástæða til að gera kröfu um að ríkisstj. hafi tilbúið frv. svo að segja sama daginn og nefnd allra þingflokka skilar nefndaráliti til ríkisstj., nefndaráliti sem er auðvitað til þess fallið að vera grundvöllur að frv. til breytinga á lögum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar eða nýjum lögum með öðru heiti.

Ég hef ekki átt kost á því að lesa nefndarálitið vandlega yfir enn þá, en ég lýsi ánægju yfir því, að nefndin hefur orðið sammála um meginstefnu. Það er auðvitað styrkur fyrir málið þegar það verður lagt fyrir Alþingi.

Það kemur fram í nefndarálitinu, að nefndin telur eðlilegt að innlendir orkugjafar verði nýttir til upphitunar í eins miklum mæli og svo fljótt sem nokkur kostur er. Eins og menn muna hækkaði olíustyrkurinn verulega í desembermánuði s.l., eða úr 200 kr. í 350 kr. Auk þess voru greiddar verulegar uppbætur á olíustyrk á síðasta ári og var það afturvirkt. Á fyrsta ársfjórðungi var styrkurinn hækkaður úr 200 upp í 215 kr., á öðrum ársfjórðungi í 275 kr., á þriðja ársfjórðungi í 280 kr. og á fjórða ársfjórðungi í 350 kr. og það er hann enn.

Eftir að hækkun á olíustyrknum í desember var ákveðin er hitunarkostnaður með olíu orðinn svo nærri rafhitun með orku frá Rafmagnsveitum ríkisins, Orkubúi Vestfjarða og hitaveitum þessara fyrirtækja, sem nota rafmagn og olíu sem orkugjafa, að vart verður öllu lengra gengið á því sviði miðað við óbreyttar gjaldskrár. Það má því segja að þessi mál séu komin á dálítið nýtt svið með hækkun olíustyrksins í vetur. Fulltrúar allra þingflokka eru sammála um að ekki verði lengra gengið í þessum efnum og þess vegna þurfi að koma til jöfnun einnig á innlendu orkuna sem notuð er til upphitunar.

Þá kemur fram í nál. að munurinn á kostnaði þeim, sem menn greiða fyrir upphitun húsnæðis, sé u.þ.b. fimmfaldur sé litið annars vegar á taxta Hitaveitu Reykjavíkur og hins vegar á taxta Rafmagnsveitna ríkisins miðað við 20. apríl 1982. Í ýmsum tilvikum er munurinn á kostnaði við upphitun húsnæðis enn meiri, segir orðrétt í nál.

Ég get tekið undir, enda hef ég raunar lýst því margsinnis yfir hér á Alþingi og í opinberum umræðum, að þetta sé mjög þýðingarmikið mál sem Alþingi verði áfram að láta til sín taka. Og ég hef lýst því yfir margsinnis, að ég vil ganga mjög langt í þessum efnum. Ríkisstj. mun taka þessa skýrslu, sem verður útbýtt til ríkisstj. í dag, til umræðu og ég geri mér vonir um að samkomulag takist um að gera þær breytingar á í þessum efnum sem mér sýnist að þingheimur sé nokkurn veginn sammála um.