09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár til þess að gera að umræðuefni, vekja athygli á og helst að fá svör við frá hæstv. menntmrh. hverju sæti það ófremdarástand sem ríkt hefur í sjónvarpsmálum á Vestfjörðum undanfarnar vikur. Það má segja að nokkuð margar undanfarnar vikur hafi varla nokkurt útsendingarkvöld liðið svo, að ekki væti meiri og minni truflanir á útsendingu sjónvarps á Vestfjörðum. Kannske er það einhver besta og skilmerkilegasta lýsing á ástandinu, sem höfð var eftir einum eldri borgara á Vestfjörðum, að fimmtudagskvöldin væru einu kvöldin sem sjónvarpið væri eðlilegt.

Nú er það auðvitað svo, að bilanir geta átt sér stað og oftast ekkert við því að segja. En það fer ekki hjá því, að þegar útsending er undirorpin samfelldum truflunum og bilunum svo langan tíma sem hér um ræðir, þá hlýtur eitthvað meira en lítið að vera að í kerfinu.

Við Vestfirðingar erum að vísu ýmsu vanir að því er varðar útsendingar sjónvarps — og raunar útsendingar útvarps líka, en okkur finnst nú vera farið að keyra um þverbak þegar slíkt ófremdarástand hefur varað í 4 ef ekki 5 vikur. Yfir þessu hefur verið talsvert mikið kvartað á Vestfjörðum, en mér vitanlega hafa litlar sem engar lagfæringar fengist. Síðast í gærkvöld varð meiri og minni truflun á útsendingu sjónvarps. Og svipað má segja um útvarpið, að oft fellur t. d. FM-bylgjan út langtímum saman, er hreinlega úti meira og minna. Einhver skýring hlýtur að vera á slíku ástandi.

Þetta hvort tveggja er það sem ég vildi hér hreyfa og fá svör menntmrh. við. Mig langar til að spyrja hann að því, hver sé ástæðan fyrir svo langvarandi bilunum í útsendingu sjónvarps og útvarps og hvort búast megi við að þetta ástand vari áfram — eða mega Vestfirðingar eiga von á að breyting verði til hins betra og þá hvenær? Og í lokin langar mig til að bera það undir hæstv. ráðh., hvort ekki væri ástæða til, þegar svo langvarandi bilun á sér stað á fjölmiðli, að fella hreinlega niður afnotagjöld þann tíma sem slíkt ástand varir. Mér persónulega finnst það sanngirniskrafa af hálfu þeirra notenda, sem hér eiga hlut að máli, að tekið sé tillit til þess þegar um svona langan tíma er að ræða.