28.04.1982
Neðri deild: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4327 í B-deild Alþingistíðinda. (4058)

297. mál, erfðafjárskattur

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það mál, sem ég flyt hér á þskj. 688, er einfalt í sniðum. Svo háttar til, að lög um erfðafjárskatt eru frá árinu 1978 og frá fjárhæðum í þeim lögum er svo gengið að þær hækka ekki í samræmi við verðbólgu. Það veldur því, þegar verðbólgan er 50% frá ári til árs, að þær úreldast snemma og erfðafjárskatturinn verður af þeim sökum mun hærri en löggjafinn hefur ætlast til þegar lögin voru sett. Þetta frv., sem ég flyt hér, hnígur að því að leiðrétta fjárhæðir til samræmis við það sem þær yrðu ef þær væru færðar fram í samræmi við verðbólguna.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að framvegis hækki fjárhæðir í frv. í samræmi við hækkun byggingarvísitölu og er þá miðað við hana eins og hún var hinn 1. janúar 1982. Ekki liggur fyrir hver erfðafjárskattur hefur nákvæmlega verið, en ætla má að það frv., sem hér um ræðir, kunni að draga úr tekjum ríkissjóðs vegna erfðafjárskatts sem nemur 20% eða svo. Það er ekki há fjárhæð og raunar ekki hærri fjárhæð en svo að samsvari þeim hluta erfðafjárskattsins, sem runnið hefur í ríkissjóð, og varla það, en á hinn bóginn, eins og hv. alþm. er kunnugt, eru lög um að erfðafjárskattur skuli renna í erfðafjársjóð.

Þá er það nýmæli í þessu frv., að gert er ráð fyrir að eftirlifandi maki skuli undanþegin erfðafjárskatti. Það er rökstutt á þann einfalda hátt, að það er næsta hæpið og kannske ósiðlegt að fráfall maka eigi að vera tilefni til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Auðvitað fylgir því svo mikil búröskun, bæði röskun á heimilishögum, tilfinningaleg röskun o.s.frv., að missa maka sinn, að um það þarf ekki að hafa mörg orð, en flutningsmönnum finnst eðlilegt að arfshluti eftirlifandi maka renni til hans án þess að hann sé tekjustofn fyrir ríkissjóð.

Ég vænti þess, að hv. alþm. geti fallist á þessa breyttu tilhögun, en til samræmis við hana er svo gert ráð fyrir að afsali erfingi eða gjafþegi sér arfi eða dánargjöf skuli sá, er þiggur gjöfina, greiða af henni í samræmi við það sem þeim hefði borið að greiða er afsalaði sér arfi. Þetta er nauðsynleg breyting. Þetta er nauðsynlegt ákvæði vegna þeirrar breytingar að eftirlifandi maki skuli undanþegið erfðafjárskatti.

Það nýmæli er enn fremur í þessu frv., að hér er gert ráð fyrir að við fyrirframgreiðslu arfs skuli jafnan greitt hið hæsta prósentustig sem við á: 10% ef um hina nánustu ættingja er að ræða, 25% og síðan 45%.

Loks er hér lagt til að erfðafé, sem hverfur til kirkna, opinberra sjóða, gjafasjóða, félaga, líknar- og menningarstofnana eða annars slíks skuli vera undanþegið erfðafjárskatti.

Þetta frv. er ekki stórt í sniðum. Hér er raunar um réttlætismál að tefla gagnvart því fólki sem missir sína nánustu. Ég geri raunar ekki ráð fyrir að tími vinnist til þess á þessu þingi að taka frv. til afgreiðslu, en taldi á hinn bóginn rétt að sýna það og vænti þess þá, að það geti fengið skjóta afgreiðslu á hausti komanda.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.