09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér er um mál að ræða sem snertir ekki aðeins Vestfirði, heldur einnig Vesturland. Við þm. Vesturl. höfum ekki viljað koma með þetta mál inn í sali Alþingis, heldur höfum við reynt að vinna að því í samráði við þá aðila sem um málið fjalla, fyrst og fremst tæknimenn Pósts og síma. Höfum við verið í stöðugu sambandi við þá að undanförnu vegna þessa máls.

Þetta ástand er búið að vera lengi viðloðandi bæði á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Eins og hér hefur komið fram verða Vestfirðingar að fá sitt sjónvarpsefni í gegnum Stykkishólm. Þess vegna hefur verið mjög aðkallandi að fá nýjan sjónvarpssendi við Stykkishólm. Nú var verið að setja hann upp og við vonum sannarlega að það leysi að hluta þetta mikla vandamál. Þó er það ekki að öllu leyti, og ég vil beina því til hæstv. menntmrh., að einnig er mjög áríðandi að nýr sendir verði settur á Vallnaholt, því sá sendir, sem þar er, má heita ónýtur. Síðast í gærkvöld varð ég var við það í minni heimabyggð, að alls konar truflanir komu á sjónvarpsskermana. Það er óskemmtilegt fyrir sjónvarpsnotendur að geta ekki horft á sjónvarp án þess að verða sífellt fyrir slíkum truflunum.

Ég legg á það mikla áherslu, að fylgst verði með þessum málum, vegna þess að þó kannske sé búið að leysa þetta núna í augnablikinu, þá er þetta meira mál. Ég hef það eftir tæknimönnum Pósts og síma, að hér þarf meira til. Sá rafmagnsspennir, sem er við Stykkishólm og stjórnar þessu í raun og veru öllu saman, er allt of lítill. Hann er yfirhlaðinn. Þess vegna slær hann út oftar en menn reikna með, vegna álags á rafmagninu á öllu svæðinu. Þetta er sífellt vandamál bæði að því er varðar tæknibúnað Pósts og síma og einnig vegna þess að aðalrafmagnsspennirinn á svæðinu er of lítill.

Ég taldi rétt að minna á þetta hér um leið og ég læt í ljós von um að úrbætur fáist.