28.04.1982
Neðri deild: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4331 í B-deild Alþingistíðinda. (4061)

288. mál, Framleiðsluráð landbúnðaarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta virðist flutt í þeim tilgangi að liðka um ákvæði sem gilda um sölumeðferð garðávaxta og gróðurhúsaframleiðslu. Tilgangi frv. er lýst í grg. með þeim orðum, að hann sé fyrst og fremst sá að stuðla að aukinni neyslu og jafnara framboði matjurta og á gróðurhúsaframleiðslu allt árið um kring um leið og markaðsaðilar eru örvaðir með meira frjálsræði til að þjóna neytendum sem best á þessu sviði. Þessi tilgangur frv. er mjög góðra gjalda verður og er æskilegt ef unnt væri með lagaákvæðum og reglugerðarákvæðum um sölumeðferð þessara vara að greiða fyrir því, að neysla þessarar hollu og ódýru vöru aukist og að unnt sé að þjóna markaðnum sem best. Öll innlend framleiðsla hlýtur að hafa þann megintilgang að laga sig að hæfi markaðarins, einkanlega þess markaðar sem er í landinu sjálfu, og framleiða sem allra besta vöru til þess að neyslan geti haldist og helst aukist. Þessi tilgangur frv. er því mjög góðra gjalda verður. Hitt er svo aftur meira vafamál, hvernig þeim tilgangi verði náð.

Ég vek athygli á því, að það er kannske ekki alveg fullt samræmi með skýringum eða athugasemdum frv. við einstakar greinar og frvgr. sjálfum. Í aths. virðist frvgr. túlkaðar nokkuð sterkar en texti greinanna gefur tilefni til. Þannig segir t.a.m. í aths. við 1. gr., að með greininni sé heildsöludreifing á garðávöxtum svo og matjurtum framleiddum í gróðurhúsum gefin frjáls. Í greininni sjálfri segir:

„Landbrn. hefur á hendi yfirstjórn innlendrar matjurtaframleiðslu og setur reglur um mat og gæðaflokkun matjurta. Það getur falið Framleiðsluráði landbúnaðarins að annast sölumál framleiðslu innlendra matjurta.“

Þannig kemur það fram, að ríkisstj. eða landbrn. getur falið tilteknum aðila að annast sölumeðferð þessara vara.

Í aths. við 2. gr. frv. segir, að með þessari breytingu falli niður einkaréttur ríkisstj. til innflutnings á kartöflum og grænmeti, en í frvgr. segir:

Ríkisstj. er heimilt að takmarka eða banna innflutning á garðávöxtum og matjurtum, sem ræktaðar eru í gróðurhúsum hérlendis, þann tíma sem innlend framleiðsla er fáanleg í landinu. Á öðrum tíma er innflutningur heimill að fengnu leyfi sem ríkisstj. gefur út.“

Það kemur sem sagt fram í frvgr. sjálfum, að gert er ráð fyrir að ríkisstj., þ.e. landbrn., hafi í hendi sér að takmarka og banna innflutning þann tíma sem framleiðsla á þessari vöru er talin nægileg í landinu og birgðir nægilegar, en á öðrum tímum að gefa leyfi til innflutnings, og það leyfi getur landbrn. samkv. frv. veitt hverjum sem er. Það er því ekkert sem segir beint í þessum frvgr. að það sé mjög gagngert horfið frá því skipulagi sem nú ríkir í þessu máli. Hins vegar gefur frv. tilefni til þess, að unnt sé að liðka það skipulag með verulegum hætti ef það sýnist vera hagkvæmt. Ég tel, að þessi ákvæði frv. séu þess efnis, að þau sé allrar athygli verð, og ég tel eðlilegt að þau hljóti nánari athugun til að fá úr því skorið, eftir því sem unnt er, hvort unnt sé með fyrirkomulagsbreytingum á verslun með þessa mikilvægu vöru að ná því, sem segir að sé aðaltilgangur frv., að stuðla að aukinni neyslu og jafnara framboði á þessum mikilvægu vörum og að það gerist án þess að framleiðendur taki óeðlilega áhættu.

Ég tel ástæðu til að vekja á því athygli, að einkasölu Grænmetisverslunarinnar á dreifingu kartaflna t.a.m. í landinu hafa fylgt kvaðir, og jafnframt, að ýmis vandkvæði eru samfara sölumeðferð kartaflna og annarra matjurta. Það hefur t.a.m. verið haldið nokkuð niðri álagningu á þessa vöru. Nú er álagning á kartöflur í heildsölu frekar lág eða 9.25%. Þessari einkasölu hefur fylgt sú kvöð að annast dreifingu á kartöflum á öllu landinu, þannig að þar sem umsetning eða framleiðsla er lítil og óhagkvæmt er að versla með kartöflur sé Grænmetisverslun landbúnaðarins skylt að sjá um að þessi vara sé á boðstólum. Grænmetisverslun landbúnaðarins hefur annast jöfnun á flutningskostnaði kartaflna út á landsbyggðina og reynt að stuðla að sem hagkvæmustum flutningum á þessari vöru á milli landshluta. Þessar kvaðir et vert að hafa í huga um leið og öll þessi mál eru tekin til athugunar. Það má ekki gera of lítið úr því, að hér er um viss vandkvæði að ræða sem nauðsynlegt er að taka fullt tillit til.

Þá er það einnig öllum ljóst, að kartöflur ekki síst og raunar mat jurtir yfirleitt eru viðkvæmar vörur sem þurfa að geymast í góðum geymslum og vera í geymslu sem er hið skemmsta frá neytandanum þannig að ekki líði óhóflega langur tími frá því að varan er tekin úr geymslu og þangað til hún er komin á borð neytandans því þá er segin saga að gæði vörunnar rýrna mjög. Að ýmsu þarf því að hyggja í meðferð á þessari vöru á þeirri vegferð sem hún þarf að fara eftir frá framleiðanda yfir á borð neytandans.

Það er eðlilegt að landbrn. fari með yfirstjórn innlendrar matjurtaframleiðslu, en það er auðvitað ekki mögulegt fyrir landbrn. að annast daglega stjórnun að því er varðar framleiðslu og sölu þessara vara.

Þessi mál öll hafa verið og eru í nokkurri athugun. Þannig hefur raunar, eins og kom fram í máli hv. frsm., starfað nefnd að því að semja reglugerð um flokkun og mat garðávaxta og hefur sú nefnd skilað áliti. Ég býst við að sú reglugerð verði gefin út hið allra fyrsta. Ég tel að í þeirri reglugerð séu ákvæði sem ættu að gefa tilefni til þess, að það gæti tekist friður t.a.m. um stærðarmörk á kartöflum að því er flokkun snertir, en það er aðeins eitt atriði af mörgum er mjög koma til umræðu þegar ákvarðanir eru teknar um flokkun og mat á kartöflum. Ég vildi láta þessar athugasemdir og hugleiðingar mínar koma fram við 1. umr. þessa frv. Ég tel ekki líkur til að það verði afgreitt á þessu þingi. En þau mál, sem það fjallar um, eru vandmeðfarin, og ef það er rétt, að neysla á kartöflum t.a.m. dragist verulega saman í landinu, er það eitt út af fyrir sig alvarlegt mál og þá er hætt við að það a.m.k. ýti undir grunsemdir um að eitthvað sé vangert í meðferð þessara mála, að vöruvöndun sé ekki næg, að gæðamat sé ekki í nægilega góðu lagi eða að önnur atriði komi til sem spilli því, að neysla haldist í því horfi sem eðlilegt er á jafnþýðingamikilli og góðri vöru. Sé þetta svo gefur það auðvitað þeim mun meiri ástæður til að athuga þessi mál frá grunni, en sú endurskoðun á fyrirkomulagi þessara mála mun tæplega leiða til þess, að um einhverja gerbyltingu verði að ræða. Ég met það svo, miðað við efni þessa þskj., að það sé ekki tilgangurinn, heldur sé tilgangurinn að freista þess að benda á leiðir til að liðka þetta fyrirkomulag nokkuð. Þær leiðir tel ég eðlilegt að séu kannaðar nánar.