28.04.1982
Neðri deild: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4334 í B-deild Alþingistíðinda. (4063)

288. mál, Framleiðsluráð landbúnðaarins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það eru, held ég, efnislega réttar athugasemdir bæði hjá hæstv. landbrh. og nú síðast hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að í því frv. þeirra Sjálfstfl.-manna, hv. þm., sem hér er til umr. og nú er flutt með lítils háttar breytingu, er nokkur áherslumunur á annars vegar því, sem lýst er í grg., og hins vegar hinu, sem segir í greinum frv: Ég er ekki alveg frá því, að það sé eins og hv. þm. Friðrik Sophusson hafi samið grg., en hv. þm. Steinþór Gestsson hafi samið lagagreinarnar. Ég veit ekkí hvaða hlutverk hv. þm. Albert Guðmundsson hefur þá haft í þeim efnum. Þetta eru auðvitað alveg réttar ábendingar. En það er rétt: Hugmyndir hníga í þessa átt. Skýring á þessu kann að vera sú, að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða, eins og heyra mátti á síðustu ræðu, og menn munu sennilega freista þess að sjá hvað þeir komist langt í þessum efnum.

Ég held að það sé líka rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að hvað varðar það frv., sem sex þm. Alþfl. hafa flutt, raunar nú á öðru þinginu í röð, eru þau aðalatriði, sem nefnd voru, skarpari eða róttækari, einkum í 5. gr. þess frv., eins og hann tók réttilega fram. Að öðru leyti er óþarfi að vera að bera þessi frv. saman efnislega. Það er líka rétt, að þetta mál verður varla afgreitt í landbn. á þessu þingi, en það ætti að verða þegar í upphafi næsta þings. Þá ættu menn að geta lagt þessi frv. tvö saman. Ég skil raunar ekki af hverju það var ekki unnið í landbn. í vetur á grundvelli þess frv. sem þó lá fyrir, í stað þess að vera að flytja nú nýtt frv. rétt fyrir þinglok, því að bæði þessi mál ganga auðvitað í sömu átt. Það er áherslumunur á hvernig framkvæmdin skuli vera. Við hefðum viljað ganga heldur lengra. Við segjum raunar í greinunum það sem sjálfstæðismennirnir segja í grg.

Hins vegar langar mig að segja nokkur orð, því að hv. 2. þm. Norðurl. e. flutti hin hefðbundnu rök á móti þessu. Hann sagði, að vísu ekki um frv. þeirra sjálfstæðismanna, en um frv. okkar, að þar væri lagt til að brjóta niður sölusamtök. Þetta er rangt. Það er auðvitað ekki lagt til. Hjá okkur er það sagt beinum orðum og óbeinum í því frv. sem hér er til umr., að ríkisstj. veiti leyfi og raunar viðskrn. til innflutnings á kartöflum og nýju grænmeti. Þetta er í 5. gr. „Leyfið skal því aðeins veitt að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn og innflutningsaðili uppfylli kröfur um heilbrigði og hollustuhætti, sbr. 32 gr.“ Þetta snertir auðvitað ekki hagsmuni söluaðila á einn eða neinn hátt til skaða fyrir þá að öðru leyti en því, að einokun er af þeim tekin. Eftir sem áður starfa auðvitað sölusamtökin með nákvæmlega sama hætti og þau hafa gert til þessa. Það fær einfaldlega ekki staðist, að halda því fram, að með þessu sé verið að brjóta niður sölusamtökin.

Enn fremur var hér í vetur talað um, og það var nefnt aftur hér, það sem í okkar frv. segir um verðjöfnunargjald á kartöflum. Það er alveg rétt, að þó að það snerti þetta mál ekki nema óbeint, en það snertir auðvitað Grænmetisverslun landbúnaðarins, leggjum við til að ákvæði í 40. gr. núverandi framleiðsluráðslaga, þar sem veitt er heimild til verðjöfnunargjalds, sé afnumið, enda má færa fyrir því fullgild rök, að þetta verðjöfnunarkerfi sé fyrir löngu farið að vinna gegn sjálfu sér og hafi í raun og veru þann tilgang einn að halda vöruverði uppi, slævi vitund manna fyrir því, að það sé nálægð á milli framleiðslustaðar og neyslustaðar, það skipti mann á ákveðnum stað á landinu engu máli hvort hann sækir vörurnar nær eða fjær því að mismunurinn sé borgaður af neytendum annars staðar. Fyrir þessu má færa fullgild rök. En það skal tekið fram, að þetta er eiginlega hliðarmál við þau mái sem hér eru til umræðu.

En aðalatriði þessa máls er einfaldlega að hér er um hollan varning að ræða, þ.e. þær vörutegundir sem þessi frv. bæði í raun taka til, og aðalatriðið á líka að vera það, að alls staðar erlendis á okkur nálægum menningarsvæðum hefur orðið bylting í neyslu þessa varnings. Sú neyslubylting hefur ekki náð hingað til lands nema að hluta. Það er auðvitað kjarni þessa máls, og það má leiða að því gild rök, að ástæður fyrir því eru að sú hömlun, sem á sér stað á grundvelli Grænmetisverslunar landbúnaðarins, sú margþáttaða hömlun í þessum viðskiptum, hefur komið í veg fyrir eðlilega neyslu þessa varnings hér á landi. Því er í báðum þessum frv., en með nokkuð ólíkum hætti, lagt til að menn fari að þreifa eftir því, að vísu undir eftirliti rn. — viðskrn, hjá okkur, landbrn. hjá þeim — að freista þess að auka vöruúrvalið með þó mörgum takmörkunum varðandi hollustu og heilbrigði til að reyna að auka þessa neyslu. Það hygg ég að allir geti verið sammála um að eiga að vera kappsmál.

Herra forseti. Hér hafa í vetur verið flutt tvö frv. um þetta efni. Ég segi það alveg eins og er, að mér er ekki ljóst af hverju þessi vinna var ekki unnin á grundvelli þess frv. sem búið er að liggja í landbn. í allnokkra mánuði, en einhverjar ástæður hljóta að vera fyrir því. Ég vænti þess, að í septembermánuði, áður en þing kemur næst saman, ef guð lofar, ættu menn að geta sest niður og jafnvel fleiri en hér eiga hlut að máli og reynt að freista þess að búa til heillegt frv. þar sem menn fikra sig inn á þessa braut, en það eru menn sammála um að gera, og jafnvel svo að samið yrði frv. sem ætti meirihlutafylgi á næsta þingi.