29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4344 í B-deild Alþingistíðinda. (4069)

240. mál, löggjöf um atvinnulýðræði

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst vegna orða hv. fyrirspyrjanda um afstöðu Alþb. í þessum málum taka það skýrt fram, sem virðist hafa farið fram hjá honum, en kom þó fram í máli hans, að Alþb. hefur jafnan verið hlynnt því og mjög áhugasamt um að stuðlað væri að atvinnulýðræði og sterkari meðákvörðunarrétti starfsmanna í stjórnum fyrirtækja hér á landi. Þetta kemur t.d. fram í því, að Alþb. eða Ragnar Arnalds flutti á sínum tíma tillögur um atvinnulýðræði á Alþingi hvað eftir annað. Þetta kom einnig fram í því, að meðan Magnús Kjartansson var iðnrh. og heilbrmrh. voru gerðar ýmsar ráðstafanir í hans ráðuneytum til að stuðla að því að starfsfólk fengi aðild að stjórnum fyrirtækja, m.a. sjúkrahúsanna í landinu. Þetta hefur komið fram á ýmsum fleiri sviðum þannig að í raun og veru er alveg ljóst hver afstaða Alþb. er í þessu máli. Það vil ég að liggi hér fyrir.

Hins vegar hafa verið skiptar skoðanir um það á milli stjórnmálaflokkanna í landinu og aðila vinnumarkaðarins, hvort það væru flokkarnir sem slíkir og stjórnvöld sem ættu að beita sér fyrir reglum um atvinnulýðræði, eða hvort menn ættu að sem ja um þetta á milli aðila vinnumarkaðarins. Um það hefur verið djúpstæður ágreiningur, þar sem atvinnurekendasamtökin hafa alltaf haldið því fram, að hér ætti að vera um að ræða samningsatriði, og hafa ekki fengist til þess að taka alvarlegan þátt í starfi þeirra opinberu nefnda sem hafa verið settar á laggirnar til þess að gera tillögur um atvinnulýðræði.

30. ágúst 1973 skipaði þáv. félmrh. nefnd til þess að semja frv. til l. um atvinnulýðræði, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um áðan. Formaður nefndarinnar var skipaður ráðuneytisstjóri í félmrn. og ásamt honum þrír menn samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands, tveir samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands og einn samkv. tilnefningu Vinnumálasambands samvinnufélaganna.

30. ágúst 1976 eða nákvæmlega þremur árum síðar skrifaði félmrh. fyrrgreindum samtökum aðila vinnumarkaðarins bréf og benti á að nefndin hefði haldið tvo fundi, þ.e. 31. ágúst og 10. sept. 1973, og að greinilega hafi komið fram hjá meiri hluta fulltrúa aðila vinnumarkaðarins á þessum tveim fundum í nefndinni að þeir töldu heppilegra „að þoka atvinnulýðræði áfram í áföngum í sambandi við gerð kaup- og kjarasamninga launþega og vinnuveitenda en að setja ákveðna löggjöf þar um.“ Þessi orð eru orðrétt upp úr bréfi rn. frá 30. ágúst 1976.

Í þessu bréfi benti rn. enn fremur á að nefndarmenn hefðu orðið sammála um að tilgangslaust væri að halda áfram tilraunum til að semja frv. til l. um atvinnulýðræði að óbreyttri afstöðu meiri hluta nefndarmanna til málsins, og voru því ekki haldnir fleiri fundir í nefndinni. Enn fremur var í bréfi rn. vakin athygli á að þar sem þrjú ár væru liðin frá því að nefndin hætti raunverulega störfum, án þess að nokkur tilmæli hefðu borist formanni nefndarinnar frá nefndarmönnum um að hún tæki aftur til starfa, þá liti rn. svo á að ekki væri lengur unnt að fresta því að taka ákvörðun um hvort rétt væri að leggja nefndina formlega niður.

Hinn 16. mars 1977 var haldinn fundur í nefndinni og framangreint bréf var tekið þar fyrir. Fulltrúar atvinnurekenda í nefndinni gáfu á þessu fundi þau svör sem þeir höfðu áður gefið skriflega, þ.e. að þeir sæju ekki ástæðu til að nefndin starfaði áfram, en tóku þó fram að samtök þeirra væru ekki þar með „að loka á umræður um málefnið“, svo að ég vitni orðrétt í þeirra bréf. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands endurtóku fyrri svör sín þess efnis, að þeir teldu rétt að nefndin tæki upp störf að nýju, en óskuðu jafnframt eftir fresti til samráðs við miðstjórn Alþýðusambands Íslands áður en næsti fundur yrði haldinn. Þetta var sem sagt 16. mars 1977. Þegar liðið var hartnær 11/2 ár frá því að þriðji fundur var haldinn í nefnd þessari og formanni hennar höfðu engar óskir borist um áframhaldandi störf nefndarinnar taldi félmrh. nefndina óstarfhæfa og því ekki um annað að ræða en fella niður umboð hennar. Jafnframt tók rn. skýrt fram í bréfum sínum að það væri reiðubúið til að skipa nefnd að nýju til að sinna umræddu verkefni strax og samtök aðila vinnumarkaðarins óskuðu þess og teldu það tímabært.

Nú fyrir nokkrum vikum kannaði ég það hjá aðilum vinnumarkaðarins, hvort viðhorf þeirra hefðu breyst í þessu efni, hvort þeir væru tilbúnir nú til að hefja viðræður við rn. í sambandi við löggjöf eða aðrar reglur um atvinnulýðræði. Í bréfi, sem ég skrifaði þessum aðilum núna í vetur, var svo að orði komist:

„17. ágúst 1978 var Alþýðusambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands tilkynnt að félmrn. hefði ákveðið að fella niður umboð nefndar sem skipuð var 30. ágúst 1973 til að semja frv. til l. um atvinnulýðræði. Hafði nefndinni lítt miðað í starfi sínu. Í bréfi rn. 17. ágúst 1978 var tilkynnt að rn. væri reiðubúið til að skipa nefnd að nýju til að sinna umræddu verkefni strax og samtök aðila vinnumarkaðarins kynnu að óska þess eða teldu slíkt tímabært. Félmrh. vill nú gera könnun á viðhorfi þessara samtaka til þess að samin verði tillaga að frv. um atvinnulýðræði. Óskar rn. svars samtaka yðar hið fyrsta við þessari málaleitan, þannig að fljótlega verði unnt að taka ákvarðanir um hvernig að þessari vinnu verði best staðið.“

Þetta bréf var sent Alþýðusambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands. Svör hafa síðan verið að berast frá þessum samtökum og ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa þau svör.

Frá Alþýðusambandi Íslands barst svar í aprílmánuði. Þar segir:

„Á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 1. apríl s.l. var fjallað um fsp. félmrn. um viðhorf ASÍ til þess, hvort semja skuli frv. til laga um atvinnulýðræði og hvernig best verði að því verki staðið. Miðstjórnin taldi að æskilegt væri að hefja sem fyrst undirbúning að samningu slíks frv. og væri hún reiðubúin til að tilnefna menn til að vinna að þeim undirbúningi.

Virðingarfyllst.

F. h. Alþýðusambands Íslands.

Kristín Mäntylä.“

Hér kemur fram jákvætt viðhorf Alþýðusambands Íslands, sem ekki er að undra raunar í framhaldi af ályktun á þingi Alþýðusambands Íslands haustið 1980 þar sem fjallað var um atvinnulýðræðismál.

Vinnumálasamband samvinnufélaganna svaraði bréfinu hins vegar á þessa leið:

„Við höfum móttekið bréf yðar þar sem óskað er eftir umsögn Vinnumálasambands samvinnufélaganna um það, að samin verði tillaga eða frumvarp um atvinnulýðræði. Af þessu tilefni viljum við taka fram, að Vinnumálasambandið óskar ekki eftir að slíkt frv. verði samið nú. Innan samvinnuhreyfingarinnar hefur töluvert verið fjallað um atvinnulýðræði á síðustu árum og eiga m.a. tveir fulltrúar starfsmanna sæti í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga með málfrelsi og tillögurétti. Hliðstæð þróun hefur orðið í fleiri samvinnufyrirtækjum og teljum við æskilegt að hún haldi áfram með samkomulagi innan fyrirtækjanna fremur en að lagasetning komi til.

Virðingarfyllst.

F. h. Vinnumálasambands samvinnufélaganna.

Júlíus Kr. Valdimarsson.“

Vinnuveitendasamband Íslands svaraði bréfi félmrn. með bréfi, dags. 20. apríl. Þar segir:

„1. Af hálfu rn. kemur ekki fram hvaða efnislegar hugmyndir það hefur um atvinnulýðræði. Enn fremur segir ekkert um markmið eða beinan tilgang hugsanlegs nefndarstarfs. Þá er eigi heldur greint frá því, hvaða hugmyndir rn. hefur um opinbera íhlutun, um samskipti og samvinnu fyrirtækja og starfsmanna. Þar sem öll helstu grundvallaratriði málsins eru þannig óljós er að sjálfsögðu útilokað að taka efnislega afstöðu til hugsanlegs verkefnis nefndarinnar.

2. Það er almennt álit Vinnuveitendasambandsins, að samvinna og samskipti starfsmanna og stjórnenda fyrirtækja eigi að ráðast í frjálsum samningum aðila eftir aðstæðum og þörfum í hverju tilviki. Frjáls samningsréttur án opinberra afskipta, hvort sem er með löggjöf eða öðrum hætti, er grundvallaratriði í þessum efnum. Lagareglur eru of bindandi og hindra framþróun," segir Vinnuveitendasamband Íslands í bréfi sínu dags. 20. apríl 1982. Og þar segir enn fremur í 3. lið:

„Þá er og rétt að minna á að samkv. lögum nr. 46/1980, sbr. reglugerð nr. 77 frá 26. febr. 1982, um heilbrigðis- og öryggisstarfsemi innan fyrirtækja, skulu öryggisnefndir fyrirtækja m.a. taka til umfjöllunar áform um allar meiri háttar breytingar í rekstri fyrirtækja er áhrif geta haft á starfsumhverfi og starfsaðstæður á vinnustað. Enn er lítil reynsla fengin af þessum lögboðna samstarfsvettvangi þar sem starf öryggisnefnda er enn í mótun. Æskilegt er að aðilar fái að þróa þetta samstarf án frekari opinberrar íhlutunar.

4. Um þessar mundir eru að hefjast allsherjarsamningar milli launþega og vinnuveitenda. Þessir samningar verða óvenju vandasamir og viðkvæmir. Augljóst er að hvers konar íhlutun stjórnvalda í athafnir á frjálsu samningssviði aðila vinnumarkaðarins getur við slíkar aðstæður torveldað og tafið friðsamlega lausn samninga.

5. Með tilliti til framangreindra atriða mælir Vinnuveitendasamband Íslands eindregið gegn sérhverjum opinberum afskiptum af málinu.

Virðingarfyllst.

F.h. Vinnuveitendasambands Íslands.

Þorsteinn Pálsson.“

Niðurstaðan er sem sé sú sem við var að búast. Verkalýðssamtökin eru tilbúin til þess að undirbúa löggjöf um atvinnulýðræði. Félmrn. hefur fyrir sitt leyti lýst því yfir, að það sé reiðubúið til að stuðla að því, og ég endurtek þá afstöðu hér. En atvinnurekendasamtökin eru mjög treg til samstarfs í þessu efni. Það er alvarlegt íhugunarefni, og nú á næstunni mun félmrn. taka afstöðu til þess, hvernig næstu skref verða stigin í þessum málum, m.a. með tilliti til þess hvort unnt er að tengja þau eitthvað hugsanlegri niðurstöðu kjarasamninga þegar þar að kæmi.