29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4347 í B-deild Alþingistíðinda. (4070)

240. mál, löggjöf um atvinnulýðræði

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég tel að ekki sé ástæða til að setja lög um atvinnulýðræði sem svo er kallað, a.m.k. ekki fyrr en aðilar vinnumarkaðarins hafa rætt og náð saman um niðurstöðu. Ég vil taka það skýrt fram, að þær hugmyndir, sem birtast í yfirlýsingu Alþb. á sveitarstjórnarráðstefnu, eru hugmyndir allt annars eðlis en hafa verið til umræðu um þessi mál. Það eru hugmyndir sem eiga skylt við þær sem uppi eru í Svíþjóð og eru komnar frá Viggo Kampmann í Danmörku fyrir nokkrum árum og kallast Ö.D. efnahagslegt lýðræði, og um það held ég að sé ekki verið að ræða í þessu sambandi. Þar er um að ræða aðild verkalýðsfélaganna en ekki starfsmanna á vinnustað.

Ég ætla að rifja það upp, að Alþýðusambandið hefur ekki um nokkurt bil, að undanskildum fundunum 1980, sinnt þessu máli með sams konar áhuga og var uppi innan þeirra samtaka fyrir um það bil áratug eða svo, enda eru mjög skiptar skoðanir innan Alþýðusambandsins um málið. Má benda á að Björn Bjarnason, sem var formaður Iðju, hefur lýst sig algerlega á móti slíkum hugmyndum og kallað atvinnulýðræði dúsu upp í verkalýðsleiðtoga, sem ætla að hætta kjarabaráttu en skipa sér við hlið atvinnurekenda. Besta leiðin til að auka áhrif almennings, þar með talið starfsmanna í atvinnurekstri, er auðvitað að gefa kost á hlutabréfakaupum, stofna almenningshlutafélög og selja sum opinber fyrirtæki starfsmönnum, eins og tillögur hafa verið uppi um. En ein af forsendunum til þess, að það geti gengið, er skattbreytingar, sérstaklega á sviði tekjuskatts, sem taka tillit til arðgreiðslna, því að að sjálfsögðu eiga eigendur í slíkum fyrirtækjum að fá arð af sinni eign rétt eins og sparifjáreigendur fá vexti af sínu innláni. Slík eignaraðild byggist auðvitað á því, að einstaklingurinn eigi í fyrirtækjunum og hætti einhverju, en ekki að verkalýðsfélagið sem slíkt geti tekið fyrirtækið yfir. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt, að það sé fullt samráð stjórnenda og starfsmanna í fyrirtækjum, t.d. með samráðsnefndum alls konar, og eitt af þeim fyrirbærum er að finna í lögum um vinnueftirlit, sem hæstv. ráðh. ýtti hér á sínum tíma með miklu offorsi í gegnum Alþingi. Það er á tilraunastigi og verður væntanlega hægt að meta reynslu af slíku fyrr en varir.

Það, sem fyrst og fremst veldur því, að hér á landi er ekki eins mikil þörf fyrir þessa hugmynd og víða annars staðar, er að sjálfsögðu smæð fyrirtækjanna. Atvinnulýðræði erlendis nær ekki til fyrirtækja undir ákveðinni stærð, t.d. 20–50 starfsmanna, og er jafnvel gerður munur á eftir stærð. Hér á landi eru fyrirtæki yfirleitt miklu minni, nema ýmis fyrirtæki t.d. í samvinnurekstri.

Niðurstaða mín er sú, að ekki sé ástæða til að setja lög við svo búið þótt umræður séu gagnlegar. Það er hins vegar kyndugt að hlusta á hótanir hæstv. ráðh. í lok málflutnings hans um það, að nú eigi að taka til hendi vegna svars Vinnuveitendasambands Íslands, þegar hann hefur setið sem félmrh. um nokkurra ára bil án þess að hafa hreyft legg né lið í þessu máli.