29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4354 í B-deild Alþingistíðinda. (4077)

376. mál, varnir gegn sjúkdómum á plöntum

Fyrirspyrjandi (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin og ég fagna því, að þegar er unnið að því að semja reglugerð til að vinna eftir í anda þeirra laga sem sett voru hér á síðasta ári. En ég vil leggja á það áherslu, að þó svo að varnir gegn gin- og klaufaveiki heyri undir önnur lög en þessi, sem hér er rætt um og sett voru á síðasta ári, er í sambandi við plöntuinnflutning og einkum í sambandi við innflutning á mold alltaf hætta í því fólgin, að sjúkdómar eins og gin- og klaufaveiki geti borist til landsins. Og þó svo að sú mold, sem flutt er til landsins, að mér er sagt í verulegum stíl, eigi að vera dauðhreinsuð þarf að liggja ljóst fyrir á hverjum tíma að hún sé það. Einnig þarf að gæta þess sérstaklega í sambandi við pottaplöntur og aðrar slíkar, sem líka fylgir með mold að einhverju marki, að þar sé veruleg aðgát höfð. Það er greinilegt eftir þeirri útbreiðslu sem hefur verið á Fjóni á gin- og klaufaveikinni að dæma, að ekki er hægt að fullyrða um með hverjum hætti veikin hefur breiðst þar út, og eins og ég sagði áðan er útlit fyrir að það hafi gerst með veðri og vindum. Það ætti að skerpa áhuga okkar fyrir því að vera verulega vel á verði. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gæti þess, að við samningu reglugerðarinnar verði reynt að fylgjast sem best með þessu.

Ég þakka fyrir svörin.