29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (4078)

293. mál, vatnaflutningar af vatnasvæði Skjálfandafljóts

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Það er e.t.v. að bera í bakkafullan læk að fara að tala um ár og virkjanir og annað í þeim dúr, en ég ætla ekkert að minnast á Blöndu og Blönduvirkjun. Það, sem mig langar að ræða um, eru hugmyndir, sem uppi hafa verið um vatnaflutninga af vatnasvæði Skjálfandafljóts, og spyrja hæstv. iðnrh. nokkurra spurninga í því sambandi.

Það hafa verið að undanförnu nokkrar umræður um það í fjölmiðlum og blaðaskrif, að þegar hafi eitthvað af jökulkvíslum, sem áður runnu í Skjálfandafljót og til norðurs í Skjálfandaflóa, verið flutt á Þjórsársvæðið og notað þar í sambandi við vatnsmiðlun og virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar. Hér mun einkum vera um að ræða kvíslar af fljótinu sem eiga upptök sín í Vonarskarði, og er talið að þar muni eiga upptök sín tvær af þremur meginjökulkvíslum fljótsins, en ein þeirra er vestan Tungnafellsjökuls svo líklega eru það fyrst og fremst hinar tvær sem um er að ræða og komið hefur til greina að flytja eitthvað til. Á árinu 1979 mun eitthvað hafa verið átt við þetta, og segja mér reyndar fróðir menn að ekki muni það hafa borið árangur sem erfiði og lítið hafist upp úr því krafsi. En þær spurningar, sem ég leyfi mér að beina til hæstv. iðnrh., eru á þskj. 652 og hljóða svo:

„1. Eru fyrirhugaðir eða hafa átt sér stað vatnaflutningar af vatnasvæði Skjálfandafljóts vegna virkjunarframkvæmda Landsvirkjunar?

2. Hafa farið fram umræður eða verið gerðir samningar um þessa vatnaflutninga og hverjir eru þá samningsaðilar?

3. Hvaða áhrif hafa slíkar vatnaflutningar á hugsanlega virkjun Skjálfandafljóts?

4. Ef af vatnaflutningum sem þessum verður tjón eða skaði á landi eða mannvirkjum, svo sem vegna breytinga á árfarvegi eða framburði fljótsins, hver ber þá ábyrgðina?“

Í sambandi við 4. liðinn finnst mönnum kannske ólíklegt að tjón geti orðið af því að vatn minnki, það verði öllu fremur ef um er að ræða aukið vatnsmagn í fljótunum. Þó hafa verið settar fram þær hugmyndir, að vatnsbotn geti breytt sér ef vatnsmagn minnkar í fljótunum, þau ryðji sig ekki á sama hátt, vatnsbotninn í fljótinu hækki og sé hætt við að fljótið geti, þegar kemur norður undir sjó, flætt yfir láglendi og jafnvel skemmt þar tún, lönd og mannvirki.

Þessar fsp. eru settar fram til að fá fram upplýsingar um hvað hefur verið á döfinni í þessu sambandi, hvað er á döfinni og hvort rætt hefur verið við norðanmenn eða heimaaðila um þessi mál, hvaða viðræður hafa farið fram við hreppsnefndir eða aðra hagsmunaaðila, svo sem veiðifélög eða aðra sem til greina koma að eiga þarna hagsmuna að gæta.