29.04.1982
Sameinað þing: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (4079)

293. mál, vatnaflutningar af vatnasvæði Skjálfandafljóts

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég svara hér þeim fsp, sem hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Norðurl. e., hefur fram borið. Var leitað eftir svörum hjá Landsvirkjun, sem fyrir umræddum aðgerðum hefur staðið sem fsp. beinist að, og barst svar frá Landsvirkjun, dags. 26. apríl, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Í Vonarskarði, sem liggur á vatnaskilum Skjálfandafljóts og Köldukvíslar, er jafnslétta þar sem vatnaskipti eru óglögg og áraskipti að því, hvort vatnið fellur suður eða norður af. Vegna yfirvofandi erfiðleika í orkuöflun var á sumrinu 1980 ráðist í það að skera vatnaskil í Vonarskarði á þann hátt að ýtt var upp sandgarði sem veitir því vatni til suðurs nú sem áður rann ýmist í suður og norður eftir því, hvernig undir lagðist í leysingum. Var þetta gert til þess að auka rennsli til vatnsforðabúrsins í Þórisvatni. Hér er að öllu jöfnu um mjög lítið vatn að ræða (0.5 rúmmetra á sekúndu), en í leysingum munar nokkuð um þetta. Þá getur vatnsmagnið numið allt að 5 rúmmetrum á sekúndu. Ekki eru fyrirhugaðar frekari aðgerðir að sinni, en hugsanlegt er að það kunni að reynast hagkvæmt að leiða jökulkvíslar Skjálfandafljóts til suðurs, bæði fyrir heimamenn við fljótið og fyrir orkubúskap landsmanna. Um þetta er þó ekkert vitað enn þá, en Landsvirkjun hefur í athugun hvort ástæða sé til að gera frekari könnun á þessu.

2. Engir sérstakir samningar hafa verið gerðir um þær aðgerðir í Vonarskarði sem áður greinir, en haft hefur verið fullt samráð við Náttúruverndarráð. Minna má á varðandi þetta, að samkv. núverandi lögum um Landsvirkjun er fyrirtækinu heimilt „að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjana sinna í Tungnaá og milli þeirra og Búrfellsvirkjunar, sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þessara virkjana á hverjum tíma. Nær heimildin m.a. til stíflugerðar í Þórisós og Köldukvísl og að veita Köldukvísl um skurð í Þórisvatn og þaðan um skurð í Tungnaá.“

3. óhætt er að fullyrða að það, sem gert hefur verið í Vonarskarði, hefur engin marktæk áhrif á hugsanlega virkjun í Skjálfandafljóti. Ef hins vegar yrði farið í að veita jökulkvíslum Skjálfandafljóts til suðurs mundi það geta haft áhrif á virkjunaráætlanir í fljótinu. Ekki er þó unnt á þessu stigi að fullyrða neitt um það, hvort þau áhrif verði jákvæð eða neikvæð.

4. Ábyrgð á tjóni vegna hugsanlegra vatnaflutninga hlýtur almennt séð að hvíla á virkjunaraðilanum og þá samkv. hlutaðeigandi löggjöf, almennum skaðabótareglum og þeim samningum sem kunna að verða gerðir milli hagsmunaaðila.“

Við þetta svar Landsvirkjunar, en það voru hennar orð sem hér voru lesin, er þessu að bæta:

Um aðgerðir þessar var ekki haft samráð við iðnrn., en samkv. upplýsingum frá Náttúruverndarráði hafði Landsvirkjun samráð við ráðið um þessar aðgerðir og fór Þorleifur Einarsson jarðfræðingur á staðinn fyrir þess hönd. Samkv. upplýsingum frá honum er hér um hreinar bráðabirgðaráðstafanir að ræða, sem mjög fljótlegt er að færa í upprunalegt horf ef þurfa þykir. Taldi hann einnig að hér væri um mjög lítið vatnsmagn að ræða.

Því má svo bæta við, eins og þegar hefur komið fram, að um þetta var ekkert samráð haft af Landsvirkjunar hálfu við iðnrn. og ég hafði aðeins fregnir af því eftir á, má ég fullyrða, að þarna hefði verið gripið til veituaðgerða af því tagi sem svar Landsvirkjunar greinir frá. Síðan hef ég oft virt þennan skurð fyrir mér sem liggur beint undir flugleiðinni milli Reykjavíkur og Egilsstaða, og gefst sýn til hans þegar skyggni leyfir. Þarna er um að ræða mannvirki sem sést úr lofti og liggur á flatlendi austan Tungnafellsjökuls og eins og greint var frá að sé á vatnaskilum.

Ég vil aðeins að lokum láta það koma fram sem mitt viðhorf, að ég tel að um aðgerðir af þessu tagi þurfi að hafa samráð við hlutaðeigandi stjórnvöld. Það eigi að vera meginregla að við hlutaðeigandi stjórnvöld sé haft samráð, sérstaklega ef um eitthvað álitamál er að ræða, m.a. að breyta rennsli vatna á milli vatnaskila. En eins og fram kemur í svari Landsvirkjunar er þetta ekki stórt mál og þarna er sem sagt allmjög á mörkum, ef svo má segja, um vatnaskil. Ég get hins vegar ekkert um þá staðhæfingu fullyrt, að vötn renni þarna ýmist til suðurs eða norðurs, og veit ekki hvort einhverjar rannsóknir liggja þeirri staðhæfingu til grundvallar, — einhverjar rannsóknir sem ná lengra aftur í tímann, en hallamælingar geta sjálfsagt úr því skorið ef út í það væri farið. Ég held að það skipti mestu máli að þetta er ekki meira mannvirki en svo, sem þarna var gert, að ekki mun kosta mikið að færa allt til upprunalegs horfs, ef ástæða þætti til, og held því að þarna hafi ekki verið út af fyrir sig framkvæmt neitt sem ekki er auðvelt að bæta fyrir ef ekki er samkomulag um að leyfa þessum skurði að standa þar sem hann er kominn í landið.