09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. gat um áðan er verið að framlengja hér skatt. Það er verið að framlengja einn af vinstristjórnarsköttunum, sem lagðir voru á af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar sem tók við völdum í sept 1978. Þá var talið að það þyrfti að leggja á nokkra skatta til að ná fram þeirri stefnu í efnahagsmálum sem sú ríkisstj. setti sér. Síðan hefur hins vegar verið fallið frá nýbyggingarskatti.

Þær umr., sem fram hafa farið þegar endurnýjun á þessum skatti hefur átt sér stað, gáfu tilefni til að halda að ekki yrði um framlengingu að ræða að þessu sinni. Ég ætla að á Alþingi sé ekki meiri hl. fyrir þessum skatti, a. m. k. eftir þeim umr. sem hér hafa farið fram. Það er ljóst mál að sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu hafa greitt atkv. gegn þessum skatti. Það er ljóst mál að þeir sjálfstæðismenn, sem í ríkisstj. sitja, hafa lýst yfir að þeir væru á móti vinstristjórnarsköttunum. Síðan hafa farið fram hér umr. þar sem forustumenn Framsfl. hafa lýst yfir að þeir væru andvígir þessum skatti, og þeir gerðu ráð fyrir því í sambandi við endurnýjum á s. l. ári, að ekki kæmi til að þessi skattur yrði endurnýjaður. Ég vil leyfa mér að vísa til umr. sem fóru fram hér á Alþingi í fyrra, en þá sagði hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson, hinn 23. okt. í Sþ., eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í því sambandi“ — þetta er um endurskoðun á skattalögum — „leggjum við framsóknarmenn áherslu á niðurfellingu nýbyggingargjalds, eins og ráð er fyrir gert og fullt samkomulag um. Við teljum einnig skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði vafasaman nú þar sem dregið hefur úr þenslu á því sviði“ — það var að vísu þeirra mat — „og upphaflegum markmiðum með honum því náð. Við teljum nauðsynlegt að endurskoða álagningu eignarskatts, einkum einstaklinga.“ — Og hann heldur áfram: „Um þetta hefur allt verið rætt á ríkisstj. og menn þar sammála um slíka endurskoðun, enda er hún komin í gang, og vænti ég þess, að árangur sjáist fljótlega.“

Þessi árangur sást að vísu ekki í fyrra, þ. e. niðurfelling á þessum skatti, og hann virðist ekki sjást nú þegar ríkisstj. flytur þetta frv. enn á ný.

En hæstv. sjútvrh. var ekki sá eini sem ræddi um þetta mál á vegum Framsfl., heldur einnig hæstv. viðskrh. Tómas Árnason, þar sem hann sagði: „Við umr. um skattamál hér á hv. Alþingi á s. l. vetri lét ég þau orð falla að ég fylgdi því að framlengja skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á þessu ári, en væri þeirrar skoðunar, að þetta mál þyrfti að taka til endurskoðunar á yfirstandandi þingi. Slík skattlagning kemur þungt niður á bæði samvinnuverslun og annarri verslun, sérstaklega þó í strjálbýlinu, og þar hefur verslunin barist í bökkum á undanförnum árum.“

Það er varla hægt að segja að hagur þessa atvinnuvegar hafi batnað frá því að hæstv. viðskrh. mælti þessi orð. En það, sem gerði gæfumuninn í þessum málum á s. l. þingi og sýnist enn ætla að ráða úrslitum er skoðun þeirra hv. Alþb.-ráðh. og Alþb.-manna, enda kom fram í fyrra í ræðu hæstv. fél.- og trmrh. hver skoðun hans væri á málinu. Hún var sú, að þessi skattur skyldi á lagður, síst af öllu væri hann tilbúinn að létta byrðum af atvinnuvegunum í landinu.

Við stöndum frammi fyrir því, að slíkan skatt eigi að leggja á skrifstofu- og verslunarhúsnæði eftir að búið er að hækka eignarskatta hjá félögum. Þetta er varla til að bæta um fyrir þessum atvinnuvegi eins og á stendur hjá honum. Nú vill svo til að það er enginn af þeim hæstv. ráðh., sem sæti eiga í deildinni, viðstaddur. Hins vegar sé ég hæstv. viðskrh. er hér á ferðinni. Má varpa fram til hans spurningu um hvort Framsfl. eða framsóknarmenn hafi skipt um skoðun í þessu máli eða hvort þeir séu reiðubúnir að taka höndum saman við sjálfstæðismenn í hv. fjh.- og viðskn.? (Viðskrh.: Ég vísa til ræðu minnar frá því í fyrra.) Og stendur ráðh. við hana? (Viðskrh.: Það er eftir að vita.) Já, það er eftir að vita. Það hvarflaði að mér að ráðh. mundi vísa til ræðunnar, en þegar hann væri svo spurður að því, hvort hann stæði við hana, kæmi: Það er eftir að vita. Það hefur komið fyrir þennan ágæta ráðh. að þegar hann hefur þurft að standa við sitt hafi varamaðurinn komið inn á þing svo að ekki reyndi á hann sjálfan í þeim málum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég vildi þó vekja athygli á þessu. Ég vonast til þess að með vísan til þess, sem ráðh. sagði á sínum tíma, verði framsóknarmenn í hv. fjh.- og viðskn. reiðubúnir að standa með okkur sjálfstæðismönnum þar í því að leggja til að þetta frv. verði fellt.