29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4361 í B-deild Alþingistíðinda. (4093)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði þannig að það var helst að skilja á honum, að hv. 1. flm. þessarar till. hefði ekkert vit á sveitarstjórnarmálum. Ég held að enginn dragi í efa þekkingu hans á þessum málaflokki sem bæði fyrrv. bæjarstjóra í sveitarfélagi og auk þess fulltrúa í bæjarstjórn. Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það væru menn með þekkingu sem væru að fjalla um þessi mál á þessu stigi.

Ég vil segja það í sambandi við afgreiðslu minni hl. allshn. á þessu máli, að þar er sá dæmigerði flótti Alþingis frá því að móta einhverja stefnu um sjálfsforræði sveitarfélaga sem er að verða einhver veigamesti og nauðsynlegasti þátturinn í því að sveitarfélögin fái eitthvert ákvörðunarvald. Ég harma í rauninni að þessi till. skuli ekki hafa fengið meiri umr. hér á hinu háa Alþingi, því að hér eru gerðar mjög ákveðnar tillögur um sjálfsforræði sveitarfélaganna, sem m.a. eiga að felast í því, að ríkisstj. flytji lagafrv. um breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, um tekju- og eignarskatt og fleira af þeim toga spunnið.

Það hefur verið mikið deilumál og það hefur verið mikið rætt, hvernig verkaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga skuli vera, en þessi till. er flutt, er mér óhætt að segja, í beinu framhaldi af áliti Sambands ísl. sveitarfélaga á því, hvað gera skuli í þessum málaflokki. Það sýnir, hvað þessu máli miðar lítið áleiðis, að rætt er um að nefndir hafi starfað á undanförnum árum. Hér hefur verið tekið fram að svo og svo margar nefndir hafi starfað í tíð a.m.k. tveggja síðustu ríkisstjórna. En hver er árangur þessa starfs? Hann er nákvæmlega enginn.

Ég harma að minni hl. allshn. skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að vísa þessari till. frá. Það er afleit forsenda fyrir því að knýja á um að ríkisvaldið taki þetta mál föstum tökum. Það hefur alls ekki verið tekið nægilega föstum tökum. Samband ísl. sveitarfélaga hefur haldið margar ráðstefnur, fjórðungssamtökin hafa haldið margar ráðstefnur um þennan málaflokk, en árangurinn af þeim hefur nákvæmlega enginn verið. Krafan um sjálfsforræði sveitarfélaga hefur verið virt fullkomlega að vettugi. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að það væri þó mun skárri afgreiðsla á þessari till. ef brtt. meiri hl. allshn. næði fram að ganga en að vísa frá jafngagnmerkri tillögu og einnig ákveðnustu tillögu sem komið hefur fram á þingi um skiptinguna á því valdi, sem hér um ræðir, og um sjálfsforræði sveitarfélaganna almennt. Líklega stendur sveitarfélögunum ekkert meira fyrir þrifum en það vald sem Alþingi og ríkisstj. hafa til að fara með mál þeirra. Þess vegna hefði ég talið það öllu skörulegra og manndómslegra að afgreiða þessa till. á þessu þingi en að vísa henni frá, eins og minni hl. n. gerir að tillögu sinni.