29.04.1982
Sameinað þing: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4364 í B-deild Alþingistíðinda. (4097)

124. mál, sjálfsforræði sveitarfélaga

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þeim framsöguræðum, sem fluttar voru fyrir nál. um þessa till., klofnaði nefndin um afstöðu sína til till. Fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl. í nefndinni lögðu til að till. yrði samþykkt með nokkrum breytingum, en fulltrúar Framsfl. og Alþb. leggja til að till. verði vísað til ríkisstj.

Till., sem hér liggur fyrir, fellur mjög saman við þá stefnumörkun sem Sjálfstfl. hefur markað á landsfundum sínum varðandi sveitarstjórnarmál. Ég vil minna á í þessu sambandi að einn af þm. Sjálfstfl., sem sat hér á þingi á s.l. vetri sem varaþm., hv. þm. Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, flutti þáltill. sem fjallaði um að sveitarfélögin fengju óskoraðan rétt til að ákveða gjaldskrá fyrir veitta þjónustu.

Þessi till. fjallar um þrjú meginatriði. Hún fjallar um að gera skattkerfið einfaldara að því leyti, að þeir meginskattstofnar, sem við notum, skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga, skattlagning á tekjur einstaklinga og á eignir einstaklinga og fyrirtækja verði á vegum sveitarfélaga, en tekju- og eignarskattur ríkisins falli niður, hins vegar verði skattar af veltu á vegum ríkissjóðs. Þetta mundi gera allt skattkerfið mun einfaldara í sniðum. Ég er í engum vafa um, ef hægt væri að útfæra þessa stefnu í þaula, að það mundi spara mjög mikið varðandi þá miklu vinnu sem nú fer í skatteftirlit og athuganir á skattframtölum manna. Það er að vísu hliðaratriði í þessu sambandi.

Meginatriðið er að bæði ríki og sveitarfélög séu ekki að skattleggja sama skattstofninn. Við skulum hafa í huga, að þó að margar nefndir hafi verið að vinna árum saman að því, hvernig haga skuli verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hvernig eigi að skipta tekjustofnum á milli ríkis og sveitarfélaga, erum við á stöðugri teið út í fenið í þessu efni. Það eru stöðugt að koma fram tillögur um nýja og nýja skatta hér á hv. Alþingi sem flækja þetta mál enn meira. Við erum t.d. nýbúnir að afgreiða sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem er í raun og veru ekkert annað en afbrigði af fasteignaskatti, og sá skattur er svo hár að hann slagar orðið hátt upp í þær tekjur sem sveitarfélögin hafa af fasteignasköttum. Þannig er sama hvert litið er. Við göngum lengra og lengra út í fenið með hverri nýrri ákvörðun sem hv. Alþingi tekur í skattamálum. Þess vegna er mjög mikilvægt að okkar mati, að Alþingi marki stefnu eins og hér er fjallað um.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að verkefnum sé skipt á milli ríkis og sveitarfélaga. Þegar tekjustofnarnir hafi verið markaðir sé jöfnuður fenginn með því að skipta verkefnum á milli. Ég er sannfærður um að þótt sveitarfélögin séu mjög mismunandi í stakk búin til að taka við auknum verkefnum, vegna þess hversu þau eru misstór og hafa misháar tekjur þar af leiðandi, þá mundu sveitarfélögin, ef tekin yrði ákvörðun um að afhenda þeim ákveðin verkefni, leita samvinnu sín á milli um að leysa þau verkefni, eins og reynslan hefur verið hingað til. Þess vegna held ég að það sé kominn tími til að reyna að skera á þennan hnút, og einmitt slík stefnumörkun af hálfu Alþingis mundi hjálpa til við að það yrði gert.

Þriðja meginatriði þessarar till. er að veita sveitarfélögunum óskoraðan rétt til að ákveða gjaldskrár fyrir veitta þjónustu án afskipta ríkisvaldsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja eða um það þurfi að hafa mörg orð hér á hv. Alþingi, að afskipti ríkisvaldsins af gjaldskrám sveitarfélaga hafa leitt til þess, að sveitarfélögin reka nú fyrirtæki sem mörg hver eru algerlega gjaldþrota, fyrirtæki sem ættu að geta staðið undir sér sjálf, en nú þarf að greiða með þeim af skatttekjum sveitarfélaganna. Ég nefni t.d. strætisvagna, bæði hér í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum þar sem slík þjónusta er veitt. Ýmiss konar önnur þjónustustarfsemi er rekin langt undir því verði sem eðlilegt getur talist. Þar vil ég nefna sundstaði, barnaheimili og fleira. Ríkisvaldið tekur að sér að ákveða hver gjaldskráin eigi að vera og þar með hversu stór hluti af skatttekjum borgaranna fari til að standa undir þessari þjónustu. Og það sem verra er: Þar sem um er að ræða lögbundnar viðmiðanir, eins og t.d. í lögum um barnaheimili, hvað notendur eigi að greiða og hvað sveitarfélögin eigi að greiða, hefur ríkisvaldið farið þannig fram í þessum málum að það hirðir ekkert um að fara eftir þeim lögum sem hv. Alþingi hefur sett í þessum efnum. Ég tala nú ekki um veitufyrirtækin, hvernig þau eru leikin. Það er sárgrætilegt til þess að hugsa, að jafngott fyrirtæki og Hitaveita Reykjavíkur skuli nú vera svo hart leikið að ég fullyrði að á næsta vetri, ef kemur kuldakast sem stendur meira en 3–4 vikur, þarf í fyrsta lagi að kynda með olíu allar tiltækar varastöðvar, sem hér eru til í Reykjavík, og í öðru lagi eru líkur á að það verði skortur á heitu vatni. Það er alvarlega farið að tala um það innan borgarstjórnar Reykjavíkur og í almannavarnanefnd Reykjavíkur að setja upp neyðaráætlun um hvernig eigi að bregðast við ef stór hluti af bænum, þ.e. hæstu húsin, verði heitavatnslaus. Ástæðan er sú, að ríkisvaldið hefur nú árum saman hegðað sér þannig gagnvart þessu fyrirtæki að það fær ekki að verðleggja þjónustu sína á eðlilegan hátt. Sama gildir um Rafmagnsveitu Reykjavíkur og fleiri slík fyrirtæki. Það er þess vegna að mati okkar, sem stöndum að þessu nál. og mælum með því að hv. Alþingi samþykki þessa till., mjög tímabært að slík meginstefna sé mörkuð eins og lagt er til í þessari þáltill.