29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4374 í B-deild Alþingistíðinda. (4104)

Almennar stjórnmálaumræður

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Gott kvöld, góðir hlustendur. Það, sem gerist ef Sjálfstfl. vinnur borgina aftur, er það, að Gunnar Thoroddsen boðar til alþingiskosninga mánuði síðar, sagði Guðrún frá Lundi. Íhugunarefni er hvað liggur til grundvattar þvílíkum orðum þess þm. Alþb. sem auðveldast hefur verið að tileinka sér sovéskan hugsunarhátt, og er þá kamelljónið Ólafur Ragnar Grímsson ekki undanskilið. Í hnotskurn lýsa ummælin því, að sú óskhyggja hafi blundað með þeim Alþb.-mönnum, þegar þeir settust í ríkisstjórn með Gunnari Thoroddsen, að Sjálfstfl. yrði brotinn á bak aftur í eitt skipti fyrir öll, brjóstvörn borgarlegs þjóðskipulags hér á landi. Síðasti landsfundur Sjálfstfl. var harður. Menn tóku djúpt í árinni, en hjá öllum var sá undirtónn, að sjálfstæðismenn yrðu að og mundu ná saman á ný. Það gerðist síðan í rökréttu framhaldi að full eining náðist meðal sjálfstæðismanna hér í Reykjavík um framboð til borgarstjórnarkosninga, sömuleiðis á Akureyri og hvarvetna annars staðar. Þessi eining hefur smitað út í þjóðfélagið og undirtektir almennings eru slíkar, að sérhver forustumaður Sjálfstfl. hlýtur að finna til þeirrar ábyrgðar fyrst og fremst, að á næstu mánuðum og misserum verði unnið að því að ná flokknum aftur saman. Það var þessi hugsun sem lá til grundvallar hjá Friðjóni Þórðarsyni á fundinum í Borgarnesi þegar hann gaf yfirlýsinguna um að ríkisstj. hlyti að víkja ef einingu Sjálfstfl. yrði hætt til frambúðar. Það er þessi hugsun sem lýsir sér í afstöðu Eggerts Haukdals á Alþingi í ýmsum þýðingarmiklum atkvgr. upp á síðkastið. Og fleiri dæmi mætti rekja sem öll vísa til þess, að sú verði gifta flokks og þjóðar að Sjálfstfl. rísi upp sterkari en nokkru sinni fyrr, enda ríður á eins og ástandi þjóðmála er háttað. Með hliðsjón af þessu varð ræða hæstv. forsrh, mér vonbrigði, svo mjúkmáll sem hann þó var í aðra röndina. Honum er sárt um metnað sinn. Í lengstu lög hlýt ég þó að halda í þá von, að hugur hans til Sjálfstfl. sé sá sami og áður.

Hin svarta ræða seðlabankastjóra sannfærði þá, sem áður voru í vafa, um að lengur verður ekki haldið áfram á sömu braut. Aðvörunarorð hans voru einörð og skýr. Það hallar undan fæti. Einungis með því að jafna aðstöðu atvinnuveganna og nýta til hins ítrasta þau tækifæri til framleiðsluaukningar, sem fyrir hendi eru, er von um bata.

Ólafur Jónsson á Skjaldarstöðum kom einu sinni snemma vors að Öxnhóli á hálfhoraðri brúnni meri. Þegar hann var stiginn af baki gekk Sigurður að merinni, skoðaði hana í krók og kring og mælti: „Ójá, karlinn, þú hefur fengið þér í nokkrar súpur af henni þessari í vetur.“ Hraðfrystiiðnaðurinn hefur verið burðarásinn sem velferð okkar hefur hvílt á. Ef sú gamla uppgjörsaðferð er notuð, sem menn þekkja vel og eru fljótir að átta sig á, kemur í ljós að frystingin var rekin með 5–6% tapi bæði árin 1980 og 1981. Ójá, við höfum fengið okkur í nokkrar súpur af henni, frystingunni, þessi síðustu misserin, og afleiðingin lætur ekki á sér standa. Fjárfesting í hraðfrystiiðnaði hefur engin verið og framþróun þar af leiðandi ekki heldur. Nú gæti þetta kannske gengið ef við værum einir í heiminum, en það er síður en svo. Við eigum í harðri samkeppni við Kanadamenn á Bandaríkjamarkaði og hefðum þess vegna þurft að bæta rekstrarstöðu frystingarinnar til muna svo að hún gæti haldið þeim mörkuðum sem hún hefur unnið á liðnum árum.

Nú standa sakir þannig, að fiskverkendur hafa brugðið á það ráð að auka saltfisks- og skreiðarverkun til að sjá fyrirtækjum sínum borgið. Aukningin í báðum þessum greinum er 30% á þessu ári og var þó ærin fyrir, enda vita allir að teflt er á tæpasta vað um saltfisksmarkaðinn að við yfirfyllum hann ekki. Þeir, sem veðjuðu á skreiðina, standa nú þegar frammi fyrir því að Nígería hefur lokast með þeim afleiðingum m.a. að Seðlabankinn veitir ekki lengur afurðalán út á skreið. Auðvitað er þessi staða sjálfskaparvíti, afleiðing af því, að þannig var haldið á stjórn gjaldeyrismála á s.l. ári að frystingin fékk ekki innlendar kostnaðarhækkanir uppi bornar með sölu afurða sinna. Gengisfellingin í janúar og hratt gengissig síðan hefur að vísu valdið því, að frystingin út af fyrir sig stendur nær núllpunktinum en áður og er þá öllu til skila haldið. Þannig er ekkert afgangs til þess að endurgreiða eða standa undir þeim hallærislánum sem veitt hafa verið til að koma í veg fyrir stöðvun fyrirtækjanna. Ég ætla að umsóknir um frekari hallærislán séu nær 40 talsins, sem sýnir ljóslega að þau frystihús, sem átt hafa í mestu fjárhagserfiðleikunum, eygja enga glætu fram undan.

Þetta misvægi, sem verið hefur á milli gjaldeyrisþróunar og innlendra kostnaðarhækkana, hefur ekki síður bitnað á iðnaðinum en sjávarútveginum. Þannig dróst útflutningur iðnaðarvara saman um 3.5% á s.l. ári og vegur þyngst ullar-, prjóna- og skinnavara, en vöxtur þessara greina hefur undanfarin ár verið að stöðvast og keyrir þó um þverbak á þessu ári þannig að ýmis fyrirtæki hafa hætt eða fækkað starfsmönnum sínum síðan í haust. Sömu sögu er að segja af samkeppnisiðnaðinum sem hefur átt undir högg að sækja fyrir innfluttum varningi af því að verð á myntum okkar helstu viðskiptaþjóða, eins og Breta og raunar Evrópuþjóða, hefur ekki hækkað jafnmikið og framleiðslukostnaðurinn innanlands. Þetta kemur glöggt fram í þeim mikla viðskiptahalla sem varð á s.l. ári samfara mikilli erlendri skuldasöfnun, sem einungis þýðir það að við höfum lifað um efni fram.

Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja. Fullri atvinnu verður ekki haldið uppi nema fyrirtækin, sem fyrir eru, hafi bolmagn til að færa út kvíarnar og ráðast í ný verkefni af sjálfsaflafé sínu. Menn gera ekki nema brosa að því, þótt iðnrh. þreyti kapp um það við Úlfar Þormóðsson hvort honum takist að skrifa fleiri doðranta um nýiðnaðarhugmyndir sínar eða Úlfari um frímúrararegluna. En loftkastalaverksmiðjur iðnrh. geta aldrei komið í staðinn fyrir þau fjölmörgu atvinnufyrirtæki sem fyrir eru í landinu, og honum væri hollt að minnast þess og ýmsum öðrum, sem taka sér orðið byggðastefnu í munn, að erfiðleikarnir í frystiiðnaðinum bitna fyrst á landsbyggðinni, þar sem möndull mannlífsins snýst um frystihús og togara.

Í dagblaðinu Vísi í gær gat að líta þessi orð: „Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að við verðum að fá efnahagsstefnu sem tryggir aukinn hagvöxt í stað þess að allt kerfið mali þannig að verðhækkunum sé sífellt velt út í þjóðfélagið.“ Margur mundi giska á að þessi ummæli væru höfð eftir framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins. En það var síður en svo. Það er forseti Alþýðusambands Íslands, Ásmundur Stefánsson, sem hér talar, sá hinn sami og rétti upp höndina með vígorðinu „Kosningar eru kjarabarátta“ á verkalýðsfundi Alþb. nú í vikunni. Og það er ekki að undra þótt hann hrökkvi í kút. Nýútgefin álitsgerð Þjóðhagsstofnunar dregur fram þá staðreynd, að 1% grunnkaupshækkun við núverandi skilyrði hefnir sín með því, að kaupmátturinn beinlínis rýrni í stað þess að vaxa. Síðasta áratuginn hefur það verið þumalfingursregla að launþegarnir héldu eftir einni krónu af hverjum 10 sem grunnkaupið hækkaði um. Nú hefur þetta snúist við. Fyrir hverja krónu, sem launin hækka, þarf að borga 1.50. Það er lærdómsríkt að þetta gerist á sama tíma og völd Alþb. hafa verið meiri en nokkru sinni fyrr. Það er þess vegna ekki að undra þótt verkalýðsleiðtogum Alþb. sé órótt um þessar mundir og leggi allt kapp á að ekki verði gengið frá nýjum samningum fyrr en að bæjarstjórnarkosningum loknum.

Kosningar eru kjarabarátta, segja þeir, og sýnist því ekki úr vegi að brjóta málið til mergjar og bregða mælistiku á frammistöðu þeirra tvímenninga Ragnars Arnalds og Þrastar Ólafssonar sem hafa haft samningagerð ríkisins með höndum. Þá kemur í ljós að á s.l. ári rýrnaði kaupmáttur taxta opinberra starfsmanna um 3%, og ekki hressist Eyjólfur á því sem nú er að líða. Þeir á Þjóðviljanum reyna að drepa málinu á dreif með því að hefja hatursfull skrif um Þorstein Pálsson, vegna þess að það kom í hans hlut að skýra í fjölmiðlum frá ályktunum atvinnurekenda af skýrslu Þjóðhagsstofnunar, í trausti þess að hægt sé að koma óorði á þann sem segir ill tíðindi. En þeir munu ekki hafa erindi sem erfiði og er hætt við að flestir láti fúkyrði þeirra sem vind um eyrun þjóta. Kjaraskerðingin nú er bein afleiðing af stjórnarstefnunni. Vígorðið „kosningar eru kjarabarátta“ er því umfram allt áminning til landsmanna um að greiða atkv. gegn Alþb. — áminning um að greiða atkv. þeim öflum í þessu landi sem hafa skilning á því, að hagsmunir heildarinnar eru um leið hagsmunir hvers einstaklings. Einungis með því að stækka kökuna, það sem er til skipta, er hægt að bæta kjörin. Svo einfalt er það. — Ég þakka þeim sem hlýddu.