29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4385 í B-deild Alþingistíðinda. (4107)

Almennar stjórnmálaumræður

Jóhanna Sigurðardóttir:

Góðir áheyrendur. Verkalýðsleiðtogi og tryggur Alþb.-maður um árabil hafði eftirfarandi að segja í blaðagrein á s.l. ári: „Alþfl. reyndi í samvinnu við Framsfl. að móta framkvæmanlega efnahagsstefnu. Til óbætanlegs tjóns fyrir launþega fékkst Alþb. ekki til samstarfs.“ Og hann bætir við: „Þetta er því furðulegra vegna þess að í núverandi stjórnarsamstarfi hefur flokkurinn gert að stefnu sinni leiftursókn sjálfstæðismanna gegn lífskjörum.“

En eiga Alþb. og ríkisstj. þennan áfellisdóm skilið? Er það virkilega svo, að það, sem Alþb. kallaði leiftursókn sjálfstæðismanna gegn lífskjörum, hafi snúist í leiftursókn Alþb. gegn lífskjörum? Gæti það verið þegar allt kemur til alls, að í framkvæmd sé ekki ýkjamikill munur á stefnu íhalds og komma? Er það virkilega svo, að þessi ríkisstj. með Framsókn innanborðs telji verðbólguna upp og lífskjörin niður? Tóm budda margra fjölskyldna löngu fyrir útborgunardag gæti verið vísbending um það. Útgjöld heimilanna fyrir brýnustu nauðþurftum fara hlutfallslega síhækkandi og framfærendur heimila þurfa að grípa þá yfirvinnu sem gefst til að framfleyta heimilunum. Þegar foreldrar koma síðan örþreyttir heim eftir langan vinnudag bíða börnin með sínar þarfir og þá er oft lítill þróttur eftir til að sinna börnum og fjölskyldulífi. Afleiðing alls þessa verður oft upplausn margra fjölskyldna og heimila sem getur þegar upp er staðið ekki einasta kostað lífshamingju margra einstaklinga, heldur haft í för með sér oft og tíðum félagslegar afleiðingar sem þjóðfélagið í heild verður að standa straum af.

Þetta er ekki falleg mynd, sem hér er upp dregin, en því miður held ég að margir muni við hana kannast. Hún er sterk vísbending um ranga stjórnarstefnu.

Annað má einnig benda á, og það er svartnættisskýrsla seðlabankastjóra. Víða í þeirri skýrslu má finna að margt af því hefur ræst sem Alþfl. spáði í sinni stjórnarsetu að gerast mundi ef ekki yrði farið að tillögum Alþfl. um gerbreytta efnahagsstefnu. Lái Alþýðuflokknum það hver sem vill, að hann hafi ekki viljað vera þátttakandi í stjórnarstefnu sem byggist á að fljóta meðan ekki sekkur, stefnu sem dregur niður lífskjörin í þessu landi. Það er athyglisvert, að eitt megineinkennið á efnahagsstefnu Framsfl. í því samstarfi var að vilja, en ekki þora. Ekkert hefur breyst í núverandi samstarfi. Mottóið er að vilja, en ekki þora.

Þegar litið er yfir svartnættisskýrsluna er að finna í henni einn ljósan punkt sem ríkisstj. státar af við hentugt tækifæri, en það er að veruleg innlánsaukning hafi átt sér stað, sem eigi sér þá skýringu að raunvextir af innlánum hafi aldrei verið hagstæðari en síðan 1972, en þess njóta sparifjáreigendur nú. Við hentug tækifæri stendur ekki á ríkisstj. að státa af þessu, en þegar verið er að tala um greiðslubyrði lántakenda, t.d. húsbyggjenda, snúa ráðh. við blaði og segja: Þetta er krötum að kenna. Þetta er raunvaxtastefna kratanna. — Spurningin,sem húsbyggjendur og aðrir lántakendur hljóta þá að leggja fyrir ríkisstj., er þessi: Ef raunvaxtastefnan er svo röng sem þið viljið vera láta, hvers vegna í ósköpunum afnemið þið hana ekki þegar þið hafið völdin? — Nei, hér er auðvitað hagrætt sannleikanum. Sannleikurinn er sá, að núv. ríkisstj. er að framkvæma eigin raunvaxtastefnu gagnvart húsbyggjendum, en ekki þá stefnu sem Alþfl. berst fyrir.

Stefna Alþfl., sem fram kom í frv. Magnúsar H. Magnússonar, var að hækka lánshlutfallið og lengja lánstímann. Því var klúðrað af núv. ríkisstj. á fyrstu mánuðunum á valdaferli hennar með húsnæðismálaráðherrann Svavar Gestsson í broddi fylkingar, enda var hann fáorður um húsnæðismálin áðan. Á sama tíma var einnig kippt fjárhagsgrundvellinum undan almenna húsnæðislánakerfinu. Aðvaranir Alþfl. voru að engu hafðar þegar Alþfl. reyndi að sýna fram á þann vanda sem húsnæðiskerfinu var stefnt í. Alþfl. hefur frá samþykkt húsnæðismálalöggjafarinnar verið ljóst hvert stefndi þó stjórnarsinnar séu fyrst nú á þessum dögum að vakna upp við vondan draum. Hálmstrá þeirra nú er að taka lán hjá launþegum til að skila til baka broti af því sem tekið var af föstum tekjustofnum húsnæðiskerfisins, en heildarskerðing á þessu ári er 164 millj. kr., en það er um helmingur af föstum tekjustofni Húsnæðisstofnunarinnar. Síðan eru þessir peningar teknir m.a. til að bæta stöðu ríkissjóðs við Seðlabankann. Á sama tíma er Húsnæðisstofnunin í stórfelldum vanskilum við þann sama banka, og nú vantar 100 millj. kr. til að Húsnæðisstofnun geti staðið í lágmarksskilum við lántakendur vegna þess að ekki var farið að tillögum Alþfl. Einnig blasir við takmörkun eða stöðvun félagslegra íbúðabygginga og seinkun húsnæðislána, en hver þriggja mánaða seinkun í afgreiðslu þýðir 12–15% lækkun lána.

Frá því að Alþfl. sá hvert stefndi í húsnæðislánum vorið 1980 hefur hann gert ítrekaðar tilraunir til þess að bjarga húsnæðismálunum og til að létta greiðslubyrði húsbyggjenda. Flutti Alþfl. m.a. frv. um viðbótarlán úr bankakerfinu til húsbyggjenda, sem ekki er óeðlilegt þegar litið er til þess, að 3/4 hlutar af sparifé í bönkum eru innlegg einstaklinga, en þeir fá einungis 1/4 af lánunum. Alþfl. sýndi í umr. á Alþingi fram á hvernig röng stefna ríkisstj. í húsnæðismálum kemur fram í greiðslubyrði húsbyggjenda. Dæmi, sem tekið var, sýndi að greiðslubyrði húsbyggjenda fyrir litla tveggja herbergja íbúð var 64 þús. kr. eða 40% af árstekjum verkamanns miðað við verðlag í desember s.l. Frv. Alþfl, um viðbótarlán í bankakerfinu þýddi í þessu sama dæmi 23 þús. kr. greiðslubyrði eða 13–14% af árstekjum verkamanns. Mismunurinn var hvorki meira né minna en 41 þús. kr. á ári á greiðslubyrðinni. Þetta er mismunurinn á raunvaxtastefnu Alþfl. og raunvaxtastefnu núv. ríkisstj. í framkvæmd. Að auki má benda á að það, sem kemur einnig illa við húsbyggjendur, er að kaupgjaldsvísitalan hefur ekki haldist í hendur við lánskjaravísitölu og því þurfa húsbyggjendur stöðugt að greiða hærra hlutfatt af launatekjum sínum í lántökur. Ég spyr: Hafa húsbyggjendur orðið varir við leiðréttingu á þessu misræmi af hálfu stjórnvalda?

Í svörtu skýrslunni kemur fram að erlend lántaka er komin að hættumörkum. Svo er nú komið að hvert barn, sem fæðist, fær í vöggugjöf 50 þús. kr. skuldabyrði frá stjórnvöldum. Launþegar hafa þurft að fórna kaupmætti launa sinna í árangurslitla verðbólgubaráttu núv. ríkisstj. og líða henni síðan stórfelldar erlendar lántökur, sem eiga eftir með sama áframhaldi að setja okkur á stall með Pólverjum og Nýfundnalandi, og það versta er að stór hluti þessara skulda hefur verið tekinn í óráðssíuhít ríkisstj. Ég spyr: Er það skynsamleg fjárfesting að taka lán til að greiða hallarekstur ríkisstofnana? Ég spyr: Er það skynsamleg fjárfesting að greiða með útfluttum landbúnaðarafurðum á veisluborð útlendinga 200 millj. kr. á þessu ári, að hluta til með erlendum lántökum, og samkv. nýjustu upplýsingum vantar enn stórfellt fjármagn í þá hít? Það er kominn tími til að Framsfl. átti sig á því, að þetta heitir að telja verðbólguna upp, en ekki niður.

Ég vil líka spyrja þá sem þessar skuldir eiga að greiða í hærri sköttum og lakari lífskjörum: Er það skynsamleg fjárfestingarstefna að fjárfesting til atvinnuveganna var mest á s.l. ári í fiskiskipaflotanum sem engum arði skilar, sem þýðir ekki bara lélegri rekstrargrundvöll útgerðar og minni tekjur sjómanna, heldur hefur það keðjuverkandi áhrif á allt efnahags- og atvinnulíf og þar með kjör allra launþega í þessu landi? Alþfl. varaði samgrh. rækilega við á haustdögum á s.l. ári vegna spár fiskifræðinga um hrun loðnustofnsins. Samgrh. hélt, að fiskifræðingar væru að plata sig, og lét skeika að sköpuðu. Þetta andvaraleysi þýðir að Framsfl. telur verðbólguna upp, en lífskjör sjómanna og annarra launþega í þessu landi niður.

Efnahagsstefna Alþfl. er löngu orðin kunn, svo oft hefur hún verið kynnt á undanförnum árum og ítrekaðar tillögur Alþfl. til að koma á skynsamlegri hagstjórn. Í fjölmörgum málum, m.a. 37 lagafrv. sem nú liggja fyrir Alþingi, kemur fram stefna Alþfl. Ég minni á frv. Alþfl. um umbætur í sjávarútvegsmálum, svo sem hagkvæmni í starfi og endurnýjun skipastólsins, frv. um flugmálaáætlun, frv. um aukið aðhald og eftirlit með ríkisfjármálum, úttekt á svartri atvinnustarfsemi og að þingnefndir hafi rannsóknarvald. Ótalinn er fjöldi mála, svo sem ýmis félagsleg réttindamál í húsnæðismálum, almannatryggingamálum, skattamálum og tillögur um atvinnulýðræði.

Af félagslegum málum ríkisstj. fagnar Alþfl. því, að í frv. um málefni aldraðra voru teknar inn till. Alþfl. um heimilisþjónustu aldraðra til að gera öldruðum kleift ef þeir svo óska, að dveljast sem lengst í heimahúsum.

Hvað varðar frv. um málefni fatlaðra, sem nú liggur fyrir Alþingi, er nauðsynlegt að veruleg leiðrétting náist fram á fjármögnunarþætti frv. svo að vænta megi þess, að við ákvæði og markmið þess frv. sé hægt að standa.

Góðir hlustendur. Nú þegar hátíðisdagur verkalýðshreyfingarinnar er að renna upp blæs ekki byrlega fyrir launafólki. Því voru gerð góð skil í íhaldspressunni í gær, að kröfur ASÍ séu ávísun á atvinnuleysi og 100% verðbólgu á næstu tveimur árum. Ég spyr: Er ekki kominn tími til að hætta að kenna launafólki um allt það sem miður fer vegna rangrar efnahagsstefnu stjórnvalda? Vitaskuld er hægt að taka undir að verði ekki breytt um efnahagsstefnu hjá stjórnvöldum stefni í atvinnuleysi og 100% verðbólgu. En ég mótmæli því hér og nú að tekjur láglaunafólks í þessu landi, sem gert er að tifa af launatöxtum upp á 6–8 þús. kr. á mánuði og vinna myrkranna á milli í eftirvinnu til að eiga fyrir brýnustu nauðþurftum, séu að stefna þjóðfélaginu í kaldakol. Það er broslegt að heyra atvinnurekendur halda því fram, að ekki sé hægt að leiðrétta laun þessa fólks, þegar upplýst er í kjarakönnun að atvinnurekendur skipta stórum hluta þess, sem til skiptanna er, undir borðið með yfirborgunum og fríðindum til þeirra sem betur eru settir, en láglaunafólkið situr eftir.

Verkalýðshreyfingin verður að sameinast um og hvergi að gefa eftir að kjör þessa fólks verði bætt, og verkalýðshreyfingin verður að taka undir tafarlausa framkvæmd á till. Alþfl., sem samþykkt hefur verið, um að upplýsa með skipulögðum könnunum raunverulegar launatekjur og tekjuskiptingu í þessu þjóðfélagi. Stjórnvöld verða í sínum ákvörðunum einnig að stuðla að afkomutryggingu þessa fólks, t.d. gegnum skatta- og almannatryggingakerfið, en við það hafa till. Alþfl. í efnahagsmálum verið miðaðar.

Eftir því verður tekið, hvað stjórnvöld leggja af mörkum til að leysa þann hnút sem kjaramálin eru að sigla í. Ég spyr: Væri t.d. hæstv. fjmrh. vegna komandi kjarasamninga opinberra starfsmanna tilbúinn að semja við opinbera starfsmenn á láglaunatöxtunum á sömu nótum og hann samdi við lækna, þ.e. með óbeinum sporslum og fríðindum sem hann taldi innan þeirra verðbólgumarkmiða sem ríkisstj. setti sér? Er hann tilbúinn, hæstv. fjmrh., að veita láglaunafólkinu hjá BSRB greiðslu fyrir ómælda yfirvinnu, ökutækjastyrk, sérstaka þóknun fyrir að leiðbeina nýju fólki í starfi og fylgjast með nýjungum í sinni starfsgrein? Er fjmrh. tilbúinn að semja við opinbera starfsmenn á sama grundvelli og við lækna? Eða er Ragnar Arnalds fjmrh: við sama heygarðshornið og atvinnurekendur að semja bara um slík fríðindi og sporslur við þá betur settu í þjóðfélaginu? Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.