29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4388 í B-deild Alþingistíðinda. (4108)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við eldhúsdagsumræður er venja að gefa þjóðinni nokkurt yfirlit yfir þingstörfin. Það mun ég leitast við að gera, en fjalla þó jafnframt um nokkur önnur mikilvæg mál sem að hefur verið unnið á vegum stjórnvalda. Margt hefur tekist vel, en annað verr. Að sjálfsögðu er enginn ástæða til að draga fjöður yfir það.

Ég mun hins vegar ekki elta ólar við ósannindi og jafnvel rógburð þm. Karls Steinars, þessa alþýðu- og verkalýðsforingja sem hneykslast hér inni á því, að þjóðarframleiðslan skuti dragast saman um 1%, en boðar síðan 20% launahækkun þegar hann kemur út fyrir þingsali. Eru þetta þau sterku stjórnartök sem hann talar um? Ég mun ekki eltast við mann sem boðar hér fögrum orðum jöfnuð, en fylgir hins vegar flokki, eins og fram kom í sjónvarpsviðtali í gær, sem boðar markaðsbúskap, sem boðar peningamálastefnu sem gengur jafnvel lengra en leiftursókn Sjálfstæðisfl. eða íhaldsflokksins í Bretlandi.

Við framsóknarmenn höfum enn sem fyrr lagt höfuðáherslu á efnahagsmálin. Við teljum ekkert mikilvægara fyrir atvinnuöryggi og hagsæld íslensku þjóðarinnar en að koma efnahagsmálunum í viðunandi horf. Í því sambandi er mikilvægast að draga jafnt og þétt úr þeirri verðbólgu sem ógnar öllu heilbrigðu atvinnulífi og afkomu einstaklingsins. Í síðustu kosningum til Alþingis höfnuðum við framsóknarmenn leiftursókn sjálfstæðismanna og því atvinnuleysi sem slíkum aðgerðum hlaut að fylgja. Við teljum atvinnuleysi hið versta böl sem yfir þjóðina gæti gengið. Við lögðum til að dregið yrði úr verðbólgu með því að hafa hemil á hinum ýmsu þáttum í efnahagslífinu sem áhrif hafa á verðbólgustigið. Þessi leið hlaut nafnið „niðurtalning verðbólgu“. Hún hlaut þegar mikið fylgi með þjóðinni og var lögð til grundvallar myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Á þessa stefnu reyndi fyrst á s.l. ári. Þá setti ríkisstj. sér það markmið að ná með niðurtalningu verðbólgunni í u.þ.b. 40% á árinu 1981. Þetta tókst. Það viðurkenna allir sem á þessi mál vilja líta af einhverri sanngirni. Og af því að Jóhanna Sigurðardóttir o.fl. hafa verið að vísa í ræðu dr. Jóhannesar Nordals og talið hana lýsa mikilli svartsýni, þá má einnig vísa í eftirfarandi orð seðlabankastjórans í sömu ræðu. Hann sagði:

„Meginmarkmið þeirrar efnahagsstefnu, sem fylgt var á árinu og fram kom í efnahagsáætlun ríkisstj. í upphafi ársins, fólst hins vegar í því að koma fram verulegri lækkun verðbólgu jafnframt því sem full atvinna yrði tryggð. Þótt ný vandamál kæmu fram á öðrum sviðum efnahagsmála er ljóst að ótvíræður árangur náðist í þessu hvoru tveggja. Atvinnustig hélst hátt allt árið og verulega dró úr verðbólgu.“

Á framhald þessarar stefnu leggjum við framsóknarmenn höfuðáherslu. Um það er samkomulag innan ríkisstj., eins og fram kemur í efnahagsáætlun hennar frá s.l. áramótum. Þar er það markmið ákveðið að koma verðbólgu á þessu ári í um 35% og verðbólguhraðanum í 30% Í þeirri efnahagsáætlun eru hins vegar ekki ákveðnar aðrar aðgerðir en þær sem nefna mætti viðnám gegn verðbólgu og er ætlað að halda verðbólgunni í skefjum. Fleira er tvímælalaust nauðsynlegt ef ná á ofangreindum markmiðum. Ákvarðanir um slíkt bíða eftir niðurstöðum þeirra viðræðna sem nú fara fram á vegum ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins um vísitölukerfið og eftir samningum um kaup og kjör.

Því miður blæs ekki byrlega nú fyrir miklum kauphækkunum. Þjóðhagsstofnun telur að þjóðarframleiðsla muni dragast saman á þessu ári. Við minnkandi þjóðarframleiðslu ætti öllum að vera ljóst að grunnkaupshækkanir að einhverju marki eru útilokaðar. Tiltölulega hófsamir samningar við starfsmenn í ríkisverksmiðjum, sem nýlega eru frágengnir, benda til að á þessu sé skilningur.

Það er von okkar, að í þeim samningum, sem nú er að unnið, verði áhersla lögð á að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Við framsóknarmenn munum leggja á það höfuðáherslu, að við ofangreind markmið ríkisstj. um 35% verðbólgu á þessu ári verði staðið með öllum ráðum. Við munum jafnframt leggja á það áherslu eins og fyrr, að aðgerðir í efnahagsmálum skerði ekki kaupmátt lægri launa.

Þrátt fyrir þann ótvíræða árangur, sem náðst hefur í viðureigninni við verðbólguna, verður því ekki neitað, að ýmis hættumerki eru augljós. Staða ríkissjóðs er góð og er það að sjálfsögðu fagnaðarefni. Hins vegar er erlend lántaka mikil. Greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum má ekki verða hærri. Við höfum ekkert á móti því, að erlend lán séu tekin til arðbærra framkvæmda sem auka þjóðartekjurnar og standa þannig sjálfar undir slíkri lántöku. En því miður hafa ekki allar þær framkvæmdir, sem í hefur verið ráðist, reynst nægilega arðbærar. Til slíks þarf því að vanda betur en gert hefur verið.

Um það bil 5% aukning á einkaneyslu á s.l. ári ber vott um mikla eyðslu. Það sem af er þessu ári hefur einkaneyslan enn aukist. Þetta gefur að vísu til kynna góða afkomu almennings og mikil fjárráð, en það gefur einnig til kynna vantrú á áframhaldandi hjöðnun verðbólgu. Verðbólguhugsunarhátturinn virðist enn mjög ríkur. Öruggasta leiðin til þess að snúa við slíkri þróun er tvímælalaust að sýna í verki marktækan árangur í efnahags- og verðbólgumálum.

Nú er að ljúka vertíð vestan- og sunnanlands. Vertíðin hefur verið erfið vegna stöðugra ógæfta, en takast mun þó að standa nokkurn veginn við það markmið sem sett var um aflann. En ég vil gjarnan ráðleggja þeim mönnum, sem öfundast yfir tekjum sjómanna, að kynna sér þá aðstöðu sem sjómenn á vertíðinni hafa starfað við í vetur, og þeir munu finna að tekjurnar eru alls ekki miklar.

Annað árið í röð var stefnan í þorskveiðum fyrir árið í heild ákveðin og birt í desembermánuði árið áður. Um þá stefnu náðist enn ágæt samstaða við hagsmunaaðila. Nokkrar breytingar voru gerðar sem ég hygg að verði til góðs. Enn eru þó nauðsynlegar ýmsar endurbætur á þorskveiðum, sérstaklega til að bæta gæði aflans, vernda smáfisk og auka hagkvæmni. Hér vinnst ekki tími til að rekja ítarlega ástand og horfur í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Mun ég því láta nægja að minna á nokkur atriði sem að er sérstaklega unnið.

Gæði aflans og framleiðslunnar hafa verið mikið til umræðu. Á fyrsta flokks framleiðslu verður að leggja höfuðáherslu. Það er okkar besta vopn í harðnandi samkeppni við niðurgreidda framleiðslu annarra þjóða. Því miður er víða pottur brotinn. Framleiðslueftirlitið hefur verið gagnrýnt í þessu sambandi. Vafalaust þarf að bæta það, en slíkt gæðaeftirlit er af ýmsum ástæðum erfitt og oft vanþakkað. Til þess að vinna að endurbótum hef ég nýlega skipað fimm manna framleiðslueftirlitsráð sem á að vera til ráðuneytis og gera tillögur til úrbóta. Gagnrýnt hefur verið að ýmsir hagsmunaaðilar eigi ekki fulltrúa í ráðinu. Sú gagnrýni er á misskilningi byggð. Í ráðinu eru ekki fulltrúar neinna hagsmunaaðila, heldur valdir einstaklingar með þekkingu á hinum ýmsu sviðum framleiðslunnar.

Eflaust er hrun loðnustofnsins stærsta vandamál sem að sjávarútveginum steðjar nú. Um ástand og horfur þar er hins vegar lítið hægt að segja fyrr en mælingar hafa farið fram n.k. haust. Á það vil ég þó leggja áherslu, að í þær veiðar verður að fara með mikilli varúð. Þó þetta sé gífurlegt vandamál fyrir loðnuflotann og þá sem við loðnuveiðar og vinnslu starfa er málið stórum víðtækara. Áhrifin geta orðið ófyrirsjáanleg á vöxt og viðgang þorskstofnsins. Það verður að hafa í huga.

Ég furða mig hins vegar á ummælum þeirra Alþfl.- manna hér áðan. Staðreyndin er sú, að allir hagsmunaaðilar, sem til voru kvaddir — og þeir eru margir, voru sammála um að eftir mælingarnar í október skyldu veiðarnar ekki stöðvaðar, heldur beðið eftir öðrum mælingum sem fóru fram í nóvember. Þær mælingar fóru fram og sýndu þrefalt meiri loðnu í sjónum en áður hafði verið mælt, og þá voru þó loðnuveiðarnar stöðvaðar.

Af markaðsástæðum er nokkur vandi á höndum í sambandi við síldveiðarnar. Eins og lofað var í viðræðum við sjómenn og útgerðarmenn s.l. haust skipaði ég skömmu eftir áramótin nefnd til að gera tillögur um aukna hagkvæmni við síldveiðar. Hugmyndir nefndarinnar eru nú til meðferðar hjá hagsmunaaðilum.

Um endurnýjun fiskiskipaflotans, sem mikið er á dagskrá, sýnist sitt hverjum. Það er furðulegt, eins og kom fram hér áðan og má skilja á Karli Steinari, ef menn telja að fiskveiðiflotanum þurfi ekki að halda vel við, þessu mikilvægasta atvinnutæki þjóðarinnar sem skapaði á s.l. ári 78% útflutningsteknanna. Ég er sem fyrr þeirrar skoðunar, að forðast verði þær miklu kollsteypur sem orðið hafa hjá okkur Íslendingum í þessum málum. Okkur er nauðsynlegt að hafa ætíð góð og fullkomin skip sem eru örugg og með góða aðstöðu fyrir sjómenn. Hinu verður ekki neitað, að sóknarþunginn er of mikill og fjárfesting í sjávarútvegi meiri en þjóðarbúið ber með góðu móti. Því verður ekki heldur neitað, að mistök hafa orðið í þeirri viðleitni að endurnýja flotann. Því mun sjútvrn. næstu daga gefa út stórum hert skilyrði fyrir því, að það mæli með heimild til að láta smíða eða kaupa skip í stað annars sem tekið er úr notkun. Sömuleiðis hefur skipaverkfræðingur verið fenginn til að áætla eðlilega endurnýjunarþörf fiskiskipaflotans. Er það von mín, að það geti orðið til leiðbeiningar, en ég vara eindregið við þeirri hugsun sem kemur fram í þeim orðum sem oft heyrast, að tæpast megi fjárfesta í skipaflotanum.

Á þeim sex árum, sem liðin eru síðan fiskveiðilögin voru sett, hefur mjög margt breyst og mikil reynsla fengist. Því er ég að láta hefja endurskoðun á fiskveiðilögunum. Það er mikið og nauðsynlegt verk. Þegar á heildina er litið tel ég að rekstrargrundvöllur fiskvinnslunnar sé viðunandi nú, m.a. frystingarinnar. Þó veldur það áhyggjum að of mikið af afla hefur verið ráðstafað til söltunar og skreiðarverkunar, en frystingin setið á hakanum. Sölutregða á skreið á Nígeríumarkaði hefur nú jafnframt orðið til þess, að bankar treysta sér ekki til að afgreiða afurðalán fyrst um sinn út á frekari skreiðarverkun. Staðreyndin er sú, að stjórnvöld hafa ekki annað stjórntæki í þessu skyni. Reyndar tel ég vafasamt að stjórnvöld ákveði hve mikið verka má á einn máta eða annan. Æskilegt er að samtök framleiðenda hafi ákveðnari stjórn á þeim málum en þau hafa nú. Þau hafa gleggst yfirlit yfir söluhorfur og þurfa að geta nokkurn veginn samræmt framleiðsluna þeim áætlunum.

Fram undan er ákvörðun um fiskverð. Um það er út af fyrir sig ekki rétt að fara mörgum orðum. Málið er í höndum seljenda og kaupenda. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að sjómenn eigi að fá svipaða tekjuhækkun og menn í landi. Ríkisstj. hefur samþykkt að lög og reglur um verðlagsráð verði endurskoðuð. Ég hef talið rétt að láta það bíða aðeins á meðan málin skýrðust hjá nefnd þeirri sem fjallar um hið almenna verðbóta- og vísitölukerfi, en mun nú á næstunni skipa nefnd í þessu skyni.

Á síðasta þingi var samþykkt þál. um langtímaáætlun í vegamálum. Samkv. henni er gert ráð fyrir að koma a.m.k. stofnbrautakerfi landsins í viðunandi ástand á næstu 12 árum, bæði með tilliti til burðarþols, snjóþunga og slitlags. Að þessari áætlun hefur verið ötullega unnið, m.a. af nefnd þingmanna frá öllum stjórnmálaflokkum. Ég mun leggja till. þessa fram á Alþingi fyrir þingslit. Hún verður síðan til meðferðar á næsta þingi ásamt endurskoðun á vegáætlun. Áætlun þessi er að ýmsu leyti stórhuga og mun valda byltingu í vegamálum. Gert er ráð fyrir að ljúka framkvæmdum við hina svonefndu lífshættulegu vegi, þ.e. um Ólafsvíkurenni, Óshlíð og Ólafsfjarðarmúla, á fyrri hluta áætlunartímabilsins. Lagt er til að brú verði byggð yfir Ölfusárósa og margt fleira mætti nefna. Ég hygg að það muni þó verða talin mesta breytingin almennt séð, að gert er ráð fyrir að leggja um 2500–3000 km með bundnu slitlagi á áætlunartímanum. Segja má að það átak hafi hafist sumarið 1980 þegar 90 km voru lagðir með bundnu slitlagi. Lagðir voru síðan 142 km á s.l. sumri. Á næstu árum er gert ráð fyrir að leggja allt að 200 km á ári. Ég vil alveg sérstaklega fagna þeirri samstöðu sem náðst hefur á Alþingi um þetta mikla átak í vegamálum. Það ætti að tryggja að staðið verði við þessa áætlun.

Á s.l. ári fékk ég einnig samþykkt frv. um sjálfvirkan síma á þá um það bil 3000 bæi sem ekki hafa slíkan síma. Gerð hefur verið fimm ára áætlun og mun nú í ár verða fullkomlega við það staðið sem sú áætlun gerir ráð fyrir. Ég leyfi mér að vona og treysti að svo verði einnig um hin árin.

Flugmálin hafa enn verið mikið til umr. Þingið samþykkti enn á ný verulega aðstoð við Flugleiðir vegna fjárhagserfiðleika sem rekja má fyrst og fremst til Norður-Atlantshafsflugsins. Nú virðist hagur Flugleiða fara batnandi. Það er von mín að svo verði áfram, Atlantshafsflugið eflist að nýju og félagið geti áfram sem hingað til sinnt af myndarskap því mikilvæga verkefni sem það hefur í samgöngumálum landsins. Með þeirri aðstoð, sem veitt hefur verið, tókst að afstýra uppsögn mikils fjölda af ágætu starfsliði.

Á það hefur verið deilt, að öðru langtum minna flugfélagi, Arnarflugi, verður skapaður grundvöllur til að sinna millilandaflugi við hlið Flugleiða. Það flugfélag verður fyrst og fremst í leiguflugi, en telur sig þó þurfa að hafa eitthvað, en mjög takmarkað, áætlunarflug. Ég tel þessa gagnrýni mjög á misskilningi byggða. Ég er sannfærður um að nokkur samanburður í þjónustu og verði er flugfélögunum til góðs og muni bæta þjónustu þeirra við almenning. Á það ber einnig að líta. Viðunandi skipan er að mínu mati að komast á þessi mál, og það er von mín, að í framhaldi af því geti þessi tvö félög átt gott samstarf og samvinnu.

Fyrir þremur árum voru samþykktar á Alþingi breytingar við lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem gera bændum kleift að laga framleiðsluna að þeim markaði sem fyrirsjáanlegur er. Það hefur að verulegu leyti tekist nú þegar með mjólkurframleiðsluna. Á sviði sauðfjárræktar hafa menn hins vegar verið nokkuð hikandi. Í markaðsmálum hafa aftur á móti orðið alvarlegar breytingar. Okkar besti markaður, Noregur, er að tapast vegna aukinnar framleiðslu þar í landi. Að sjálfsögðu ber að leita að nýjum mörkuðum og það er gert. En sannfæring mín er þó sú, að erfitt muni reynast að keppa við hið ódýra lambakjöt frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Ef halda á kjötframleiðslunni um það bil óbreyttri mun þurfa stórauknar útflutningsbætur sem er ekki raunhæft.

Það er þáttur í þeirri stefnumörkun, sem grundvöllur var lagður að fyrir þremur árum, að koma á fót nýjum búgreinum í stað hinna hefðbundnu og sporna þannig gegn byggðaröskun. Tilraun hófst með loðdýrarækt, sem virðist ætla að gefa góða raun. Jafnframt var þá um það samið, að fjármagn, sem sparaðist frá jarðrækt, verði notað til að koma nýjum búgreinum á fót. Því miður hefur ekki tekist að standa við það.

Hið alvarlega ástand með sauðfjárræktina, sem nú blasir við, krefst þess, að fjármagn til að koma á fót nýjum búgreinum verði stóraukið. Loðdýrarækt er hrein útflutningsgrein sem sjálfsagt er að njóti jafnframt sömu aðstöðu í tollum og gjöldum og annar samkeppnisiðnaður. Að þessari viðkvæmu breytingu í landbúnaði þarf að standa á grundvelli nokkurra ára áætlunar þar sem samræmdur er samdráttur í hinum hefðbundnu greinum og efling nýrra. Á þetta legg ég ríka áherslu. Ef ekki verður þannig að málum staðið er ég sannfærður um að ekki verði komist hjá margföldum útgjöldum ríkissjóðs vegna offramleiðslu í landbúnaði eða stórfelldri byggðaröskun ella, sem að sjálfsögðu hefur einnig ómæld útgjöld í för með sér.

Samdráttur í þjóðarframleiðslu er áhyggjuefni. Hann á m.a. rætur að rekja til þess, að ekki er lengur sami vöxtur í sjávarútvegi og fiskvinnslu sem verið hefur undanfarin ár og borið hefur að verulegum hluta uppi aukna þjóðarframleiðslu. Að vísu er margs konar verðmætaaukning möguleg, en þó hygg ég að við þurfum fyrst og fremst að leita á ný mið.

Miklar orkulindir geta orðið undirstaða vaxandi þjóðarframleiðslu og velmegunar. Orkuna þarf að virkja og orkunýtingarstefnu að móta, eins og að er unnið. Um slíkt þarf að nást breið samstaða.

Nú liggur fyrir Alþingi till. til þál. um virkjunarröð. Gert er ráð fyrir að Blanda verði virkjuð fyrst. Um Blöndu hefur hins vegar staðið mikil deila. Að mínu mati er slíkt ekki vænlegt til góðs árangurs. Deilur geta og hafa reyndar valdið miklum töfum og auknum kostnaði. Nægir í því sambandi að benda á Laxárdeiluna. Þingflokkur Framsfl. hefur því lagt sig fram við að leita sátta í þessu erfiða máli. Við teljum að þær séu nú í sjónmáli. Ýmsir fást þó við að reikna kostnað við minni miðlun sem um gæti orðið samkomulag. Allir eru þeir útreikningar á einn veg. Allir virðast þeir gerðir til að auka á þann kostnað. Annars vegar er reiknað með fullri nýtingu á fullri miðlun strax, en samningurinn gerir ekki ráð fyrir því, og hins vegar reiknað með orkuþörf sem er töluvert umfram það sem fyrir liggur nú, og margt fleira mætti nefna. Staðreyndin er sú, að í dag liggja alls ekki fyrir nægilegar upplýsingar til að ákveða hagkvæmustu miðlun, m.a. með tilliti til hinna mörgu vilyrða um mjög skerta notkun á fullu miðlunarrými. Vonandi skýrist það á næstu tveimur árum, áður en vinna við stíflugerðina hefst af fullum krafti.

Í þessu sambandi mættu menn einnig hafa í huga þá gífurlegu gróðureyðingu sem á sér stað um heim allan. Skógarnir hverfa óðum, eru annaðhvort höggnir eða eyðilagðir með eitruðu andrúmslofti, sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir alla íbúa jarðarinnar. Landverndarviljinn er af heilbrigðum og góðum rótum sprottinn. Hins vegar er að sjálfsögðu nauðsynlegt að meta hverju sinni kostnaðinn við landvernd, en einhver verður hann ætíð.

Um ýmiss konar iðnað, sem mikla orku notar, er rætt, en flest er það á undirbúningsstigi. Ég bind þó miklar vonir við kísilmálmverksmiðju og steinullarverksmiðju sem nú liggja fyrir frv. um hér á Alþingi, en legg áherslu á að þróaðri iðnaður, sem byggist á hugviti, er ekki síður mikilvægur. Að slíku er kominn góður vísir, t.d. í tengslum við sjávarútveginn, sem þarf að hlúa að með öllum ráðum.

Á sviði byggðamála er tvímælalaust jöfnun upphitunarkostnaðar stærsta vandamálið. Gífurlegur munur á upphitunarkostnaði verður ekki lengi borinn af þeim sem við slíkt búa. Gegn þessu þarf að ráðast með ýmsu móti, m.a. með hagkvæmum lánum til þess að einangra hús betur og nýta orkugjafa á svæðinu, e.t.v. afgangshita frá fiskvinnslu. Þetta ætti að vera sjálfsagt verkefni fyrir Byggðasjóð. Fátt er meira byggðamál. Nefnd, sem Tómas Árnason viðskrh. skipaði, hefur nú skilað áliti. Nefndin leggur til að hitunarkostnaður verði greiddur niður þannig að hann verði hvergi hærri en er hjá góðum nýjum hitaveitum, eins og Hitaveita Borgarfjarðar og Akraness, Akureyrar o.fl. Framsfl. er samþykkur þessu markmiði. Ég tel jafnframt að viðunandi jöfnuði verði ekki náð nema í gegnum rafhitun. Raforku til upphitunar, þar sem hennar er þörf, á að selja á það lágu verði að hún verði samkeppnisfær við góðar hitaveitur. Til þess að það fari sem best úr hendi er nauðsynlegt að dreifing raforku á landi verði hjá einum aðila. Landsvirkjun þarf því að taka við byggðalínum sem fyrst og selja raforku í öllum landshlutum á sama verði. Tekjur til jöfnunar mætti t.d. fá með a.m.k. tvöföldun á raforkuverði til stóriðju sem býr við óeðlilega lágt verð í dag. Því þarf hið fyrsta að ná samningum við álbræðsluna í Straumsvík um hækkun á raforkuverði.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Margt hefur verið gert og margt hefur áunnist, en vandamálin og verkefnin fram undan eru mörg. Undir bölsýnisraus stjórnarandstöðunnar tek ég hins vegar ekki. Innan ríkisstj. og stjórnarflokkanna er fullur vilji til að takast á við verkefnin. Það er yfirlýstur vilji aðpoka verðbólgunni áfram niður á við án atvinnuleysis. Ég leyfi mér jafnframt að vona að til slíkra verka njóti ríkisstj. stuðnings þjóðarinnar. — Góða nótt.