29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4396 í B-deild Alþingistíðinda. (4110)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fjögur ár eru ekki langur tími en þó vill fyrnast yfir margt á styttri tíma. Ljóst er að Alþb.-menn treysta á gleymsku fólksins. Þeir vildu gjarnan láta fenna í eigin fótspor en svo óhöndulega tekst til að þeir velja sér sama slagorð nú og fyrir borgarstjórnarkosningar fyrir fjórum árum.

Hver man nú ekki: „kosningar eru kjarabarátta“, og „samningana í gildi“? Þessi slagorð dugðu til þess að vinstri meiri hluti komst á í borgarstjórn Reykjavíkur og vinstri ríkisstj. sumarið 1978 sem síðan hafa setið að völdum nú í nær fjögur ár. Alþb.-menn hafa allan þennan tíma ráðið ferðinni í lands- og borgarmálum.

Hverjar hafa efndir kommúnista verið á kosningaloforðunum alkunnu? Samningarnir gengu aldrei í gildi. Launþegar telja sig skorta 25–30% í launum til að ná þeim kaupmætti sem að var stefnt. Margoft á s.l. tæpum fjórum árum hafa vinstri stjórnir Alþb. beinlínis skert kaupið, síðast á s.l. ári um 7% auk skollaleiks vísitölufölsunar, niðurgreiðslna og félagsmálapakka.

Á bls. 22 í nýútkominni skýrslu Þjóðhagsstofnunar er sagt að einungis á næstliðnu þriggja ára tímabili hafi framfærsluvísitalan hækkað um 28% meira en verðbótavísitalan. Langt er frá að 18% grunnkaupshækkanir á sama tímabili vegi upp þennan mun. Það er einnig staðreynd, að kaupmáttur kauptaxta launþega í landinu er lægri á s.l. ári, 1981, en árið 1978 og enn er spáð minnkandi kaupmætti á yfirstandandi ári. Þjóðartekjur á mann eru svipaðar bæði árin, en meiri kaupmáttur kauptaxta 1978 en nú er gaf Alþb. tilefni til að hvetja til ólögmætra verkfalla. Nú er hljóðið annað í Svavari Gestssyni. Ríkisstjórnin undir forustu Alþb. og Vinnuveitendasambandið eru alveg á sama máli í kjaramálum. Hvað er ekki gert fyrir ráðherrastóla? Þegar Alþb. tengir nú enn saman kosningar og kjarabaráttu, þá er það að nefna snöru í hengds manns húsi og minna kjósendur á ekkert annað en „svikin í gildi“. Sagt hefur verið: Þú getur blekkt marga um stund en ekki alla ávallt.

Afleiðing þess, að Alþb. hefur ráðið ferðinni, hefur einnig orðið sú, að úr þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum hefur dregið. Þjóðhagsstofnun spáir minnkandi þjóðarframleiðslu og tekjum á þessu ári. Þrátt fyrir hagstæð ytri skilyrði syrtir nú í álinn vegna óstjórnar og fyrirhyggjuleysis fyrst og fremst. Eftir að samið var til sigurs um útfærslu í 200 mílna efnahagslögsögu 1978, sem nú hefur verið endanlega staðfestur með hafréttarsáttmálanum, hefur afla- og verðmætisaukning sjávarafurða aukist um 60% aðeins á örfáum árum. Þessi auknu aflaverðmæti hafa hvorki verið nýtt til að bæta kjör launþega né afkomu atvinnuvega og ekki heldur til að vinna bug á óðaverðbólgu né að skapa skilyrði fyrir auknum hagvexti og hærri launatekjum í framtíðinni. Við erum ekki einu sinni í stakk búin til að mæta áföllum á borð við stöðvun loðnuveiða og sölutregðu skreiðar. Fyrirhyggjuleysi stjórnvalda hefur verið slíkt, að nefna má vinstristjórnarárin frá 1978 fjögur glötuð ár.

Það þarf ekki að orðlengja stefnuleysið og framkvæmdaleysið í orkumálum og iðnvæðingu sem tengist þeim. Þessa dagana er fumið og fátið í afgreiðslu virkjunartillögu slíkt, að það fellur ekki síst í hlut stjórnarandstöðu Sjálfstfl. að bæta eins og kostur er úr undangenginni klaufalegri meðferð iðnrh. og ríkisstj. og ósamkomulagi stjórnarliða og leysa þann hnút sem þessi mál voru komin í, svo að orkuframkvæmdir geti hafist á ný. En á meðan við höfum glatað tíma hafa önnur lönd, sem eru í svipaðri aðstöðu og við í þessum efnum, ekki síst Ástralía og Brasilía, fylgt eindreginni uppbyggingarstefnu og stóraukið orku- og iðnaðarafköst sín.

Hér á landi hefur einnig verið búið svo að almennum iðnaði, bæði útflutningsiðnaði og þeim iðnaði sem keppir við innflutning, að tekið hefur fyrir framþróun hans að miklu leyti.

Ríkjandi stefna sívaxandi skattheimtu og vaxandi krafna til atvinnurekstrar af margvíslegu tagi og ráðleysi í gengis- og verðlagsmálum hafa dregið úr framkvæmdavilja og framkvæmdagetu. Stjórnvöld hafa á hinn bóginn dundað við nokkur skrifborðs- og gæluverkefni um stofnun ríkisfyrirtækja sem mörg hver hafa engin starfsskilyrði nema með ríkisstyrkjum og einokun. Við þetta bætist svo að á sama tíma hefur fiskveiðiflotinn verið aukinn fyrir atbeina ríkisvaldsins svo að framleiðni flotans hefur farið minnkandi og afkoman versnandi þrátt fyrir aflaaukningu og hagstætt verðlag. Framsóknarráðherrarnir Steingrímur Hermannsson og Tómas Árnason hafa gengið fram fyrir skjöldu að leyfa innflutning fiskiskipa og sölu innanlands með nær 100% erlendum lánum og skapað fordæmi um framsóknarlag togara sem opnir eru í báða enda eins og stefna Framsfl. sjálfs. Í árslok 1980 og á árinu 1981 voru átta togarar teknir í notkun án þess að skip færu úr landi í staðinn. Á árinu 1982 koma fimm nýir togarar og fimm notaðir togarar í rekstur án þess að skip fari úr landi í staðinn. Á þessu ári fjölgar þannig togurum um 10 og þyrfti aðeins þess vegna að lengja þorskveiðibannið úr 150 dögum í 170 daga eða fella niður tvær þorskveiðiferðir á hvern togara sem fyrir er. Heildarafli eða tekjur landsmanna aukast ekkert, en kostnaður af þessum togarakaupum á þessu og síðasta ári er 720–850 millj. nýkr. Slík fjárfesting á engan rétt á sér.

Vinstri stefna undanfarinna ára mun óhjákvæmilega valda lakari lífskjörum í landinu. Vinstri stefna undanfarinna ára hefur eftir eitthvert mesta góðæri leitt til þess, að við eyddum 5% um efni fram, meira en við framleiddum á s.l. ári. Í frekar bjartsýnni spá Þjóðhagsstofnunar er einnig spáð svipuðum viðskiptahalla á þessu ári. Nýbirtar tölur um tvöfalt meiri halla á vöruskiptajöfnuði fyrsta fjórðung þessa árs benda líka því miður á enn aukinn viðskiptahalla á þessu ári. Stórauknar erlendar lántökur á síðasta ári ollu aukinni eftirspurn innanlands sem kallaði þannig á aukinn innflutning sem aftur skapar viðskiptahalla. Stjórnvöld hafa komið okkur inn í vítahring aukinna erlendra lána og viðskiptahalla sem erfitt kann að komast út úr eins og búið er að atvinnuvegunum.

Þegar svona stendur á státar ríkisstj. af því að atvinna sé næg, ríkissjóður sé rekinn hallataus og verðbólga sé lækkandi. En atvinnu er haldið uppi með erlendu lánsfé. Ríkissjóður er rekinn í orði kveðnu hallalaus, en öllu meiri blekkingu og sýndarmennsku getur ekki. Skattheimta hefur verið aukin um 1000 millj. nýkr. miðað við skattheimtu 1977. Stórauknar erlendar lántökur auka innflutninginn og tekjur af honum sem fara í ríkissjóð. Ríkissjóður lifir þannig á viðskiptahalla. Framkvæmdaútgjöld ríkissjóðs eru í vaxandi mæli fjármögnuð með lántökum utanlands og innanlands í stað skattheimtu áður. Markaðir tekjustofnar, sem fóru áður til sérstakra útgjalda, eru teknir í almenn rekstrargjöld ríkissjóðs. Ef þessum blekkingum og spilltu aðferðum væri ekki beitt væri ríkissjóður rekinn með dúndrandi halla. Og hver eru afrekin í baráttunni gegn verðbólgunni? Samkvæmt stjórnarsáttmála átti verðbólgan að vera komin niður í 10% á þessu ári, 1982, en situr í 40–50% og fer vaxandi. Með alls kyns tilfæringum segir ríkisstj. að verðbólgan sé minni en áður. Afkoma heimilanna og fyrirtækjanna í landinu segir annað, enda hefur ekkert verið gert er lækkað geti verðbólguna nema um skamma hríð. Svokölluð harkaleg framkvæmd verðlagsmála hefur aðeins tímabundin áhrif og meira að segja öfug áhrif þegar til lengdar lætur auk alvarlegra afleiðinga fyrir fjárhag og rekstur fyrirtækja og stofnana. Sama máli gegnir um auknar niðurgreiðslur. Það er sýndarmennska.

Landsvirkjun, rafmagnsveitum og hitaveitum er vísað á erlendar lántökur, m.a. til að greiða rekstrartap, í stað þess að viðurkenna þörf gjaldskrárhækkana. Endurgreiða þarf þessi erlendu lán með vöxtum og bæði afborgunum og vöxtum verður að bæta ofan á gjaldskrána þótt síðar verði. Með þessum hætti er orkuverð til atmennings hærra í dag og verður enn þá hærra í framtíðinni en vera þyrfti ef ríkisstj. væri ekki að skjóta vandanum á undan sér, dylja raunverulegt verðbólgustig og hikar um leið ekki við að greiða verðbólguna niður með erlendum eyðslulánum. En það er auðvitað skammgóður vermir þar sem erlendar lántökur auka eftirspurnarþensluna og þar með verðlag innanlands.

Vandi atvinnuvega eða ríkissjóðs verður ekki heldur leystur eða atvinnuöryggi og kaupmætti launþega haldið uppi til lengdar með erlendum lánum. Í stjórnarsáttmála er því heitið, að greiðslubyrði afborgana og vaxta erlendra lána fari ekki fram úr 15% þjóðarframleiðslu, en á yfirstandandi ári er spáð að greiðslubyrði verði 20%. Þessi greiðslubyrði ásamt áframhaldandi viðskiptahalla dregur úr lánstrausti landsins auk þess sem skuldaaukningin verður sífellt áhættumeiri frá sjónarmiði Íslendinga sjálfra og skerðir möguleika til að afla og nota erlend lán til atvinnuuppbyggingar í framtíðinni.

Auðvitað eru allir aðilar stjórnarsamstarfsins samsekir um þá óheillaþróun sem núverandi stjórnarsamstarf hefur leitt yfir þjóðina þótt Alþb. hafi ráðið ferðinni. Á öðru en óheillaþróun var ekki von eins og til þessa samstarfs var stofnað. Alþb. hélt því löngum fram, að unnt væri að leysa efnahags- og verðbólguvandamál án þess að skerða kaup, án þess að lækka gengi eða hækka vexti. Eftir nær fjögurra ára stjórnaraðild kommúnista hefur komið í ljós í fyrsta lagi, að oftar eða meir hefur kaup ekki verið skert á jafnskömmum tíma en í valdatíð þeirra, í öðru lagi, að dollar hefur hækkað í verði frá 1. sept. 1978 úr 2,60 kr. í 10,40 kr. eða um 300%, úr 4 kr. í tíð núv. stjórnar eða um 150%, í þriðja lagi að vegið meðaltal útlánsvaxta án endurkaupa hefur hækkað frá árslokum 1978 úr 28% í 44% 31. mars s.l. Útlánsvextir hafa sem sagt hækkað um 54% í valdatíð kommúnista frá árslokum 1978. Alþb. slær þannig öll Íslandsmet sem kaupskerðingarflokkur, gengislækkunarflokkur og vaxtahækkunarflokkur. Ljóst er að núv. ríkisstj. hefur aldrei tekist á við aðsteðjandi vandamál, skotið þeim ávallt á undan sér eða sópað þeim undir rúm og sofið á þeim.

Á liðnum vetri hafa komið fram slíkir þverbrestir í ríkisstjórnarsamstarfinu og samvinnu milli einstakra ráðherra að einskis er að vænta hér eftir frá ríkisstj. nema þess sem miður fer. Svavar Gestsson sakar Ólaf Jóhannesson um valdarán, Ólafur sakar Svavar um lögbrot og Hjörleif um valdníðslu. Hjörleifur telur aftur Steingrím tala tungum tveim um virkjun Blöndu. Og síðast nú áðan notaði Svavar Gestsson fjarveru Ólafs Jóhannessonar til árása á hann. Alþb. mótmælir eðlilegum öryggisframkvæmdum með tilvísun til leynisamnings og byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli með tilvísun til neitunarvalds í stjórnarsáttmála.

Mælirinn er fullur. Alþb. hefur nógu lengi ráðið ferðinni og valdið nógu miklu tjóni á örlagaríkum tímum. Samstarfsaðilar Alþb. í ríkisstj. og borgarstjórn Reykjavíkur virðast svo lítilþægir að láta sér forræði Alþb. lynda. En landsmenn láta sér ekkí lynda forræði Alþb., og kjósendur geta gripið í taumana bæði í sveitarstjórnarkosningunum og næstu alþingiskosningum. Stefnubreytingar er þörf. Formælendur Alþb. hafa talið stjórnmálabaráttuna og sérstaklega væntanlega kosningabaráttu einvígi milli Alþb. og Sjálfstfl. Það heyrðum við á ræðu Svavars Gestssonar áðan. Sjálfstæðismenn taka þeirri einvígisáskorun og berjast fyrir heilbrigðri, mannúðlegri, framfarasinnaðri og lýðræðislegri stjórn í öllum sveitarfélögum og í landinu sem heild. Sósíalismi Alþb. leiðir hins vegar til stjórnarfars austantjaldsríkja, einræðis, skerðingar mannréttinda og efnalegs skorts.

Það fór ekki á milli mála hvert hugur Svavars Gestssonar stefndi, stefndi í austurátt. En til þess eru vítin að varast þau, og Íslendingar munu aldrei láta leiða sig lengra á þeirri leið.

Sjálfstæðismenn ganga sameinaðir til sveitarstjórnarkosninga og heita sérstaklega á alla Reykvíkinga að gera sér grein fyrir að borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík eru einkar örlagaríkar, bæði fyrir framtíð höfuðborgarinnar og allra borgarbúa, framtíð landsins og allra Íslendinga. — Ég þakka áheyrnina.