29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4404 í B-deild Alþingistíðinda. (4113)

Almennar stjórnmálaumræður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er furðuleg óskammfeilni af síðasta ræðumanni, Skúla Alexanderssyni, að halda því fram, að staða Byggingarsjóðs verkamanna sé góð. Staðreyndin er sú, að það liggur við að takmarkaðar verði eða jafnvel stöðvaðar byggingar verkamannabústaða á þessu ári. Sömu sögu má segja raunar um þær fullyrðingar félmrh. áðan að staða Byggingarsjóðs ríkisins hafi aldrei verið betri. Líklega hafa hlustendur tekið eftir því, sem ekki hefur gerst áður, að félmrh. nefndi engar tölur í þessu sambandi. Það segir sína sögu um áreiðanleika fullyrðinga þessara hv. þm.

Nú eru tvö ár liðin frá því að sá einstæði atburður gerðist á Íslandi, að íhaldið leiddi kommúnista til mestu valda og metorða hér á landi frá upphafi vega með myndun núv. hæstv. ríkisstj. Þó ekki séu tvö ár langur tími er eigi að síður komin reynsla á störf hennar og stefnu, og allt of víða má sjá illkynja æxli grafa um sig í þjóðarlíkamanum vegna stefnu hennar og starfa. Eitt aðalmarkmið ríkisstj. var lækkun verðbólgu, þ.e. hin margumtalaða niðurtalning Framsfl. sem lofað var fyrir síðustu kosningar. Og hvernig finnst ykkur, góðir hlustendur, hafa til tekist með þetta markmið ríkisstj.? Njótið þið ekki ríkulega ávaxtanna af árangri niðurtalningarinnar? Hafið þið ekki, góðir launþegar, sem mál mitt heyrið, tifað betri tíð með blóm í haga undir forsjá ríkisstj.?

Og hvað með atvinnureksturinn í landinu? Ríkir þar ekki bjartsýni og vaxandi trú á farsælt og þróttmikið atvinnulíf undir niðurtalningarstefnu Steingríms Hermannssonar? Nei, auðvitað er engu slíku til að dreifa. Hvar sem litið er má sjá blikur á lofti. Það, sem ríkisstj. hefur afrekað í niðurtalningu með þá Steingrím og Svavar í broddi fylkingar, er að telja niður lífskjör launafólks og rekstrargrundvöll atvinnulífsins þannig að þær atvinnugreinar, sem Steingrímur vildi hafa fyrir ofan núllið, eru nú komnar vel niður fyrir það, og enn syrtir í álinn. Hvað þýðir t.d. sú stefna Steingríms og ríkisstj. sem fylgt er í fiskveiðum og fiskvinnslu? Hvað þýðir sá gegndarlausi innflutningur og stækkun fiskiskipaflotans á sama tíma og stórkostlegar veiðitakmarkanir eru í gildi og sumum fiskstofnum liggur við hruni? Þessi stefna þýðir ekki bara versnandi afkomu sjómanna, verkafólks og útgerðar, heldur þýðir þetta stórlega versnandi afkomu þjóðarbúsins, minnkandi þjóðartekjur og versnandi lífskjör almennings. Það er t.d. talið að tekjur skuttogarasjómanna á árinu í ár mundu verða álíka að krónutölu og þær voru á s.l. ári haldi fram sem horfir og stefna Steingríms fái að ráða. Taki menn eftir: í krónutölu, álíka tekjur þrátt fyrir 40–50% verðbólgu.

Skipakaupstefna Steingríms Hermannssonar þýðir kauplækkun hjá öllu launafólki í landinu um 8–10% á þessu ári. Það liggur nú fyrir að litlar sem engar loðnuveiðar verði á árinu. Það var ljóst á s.l. hausti að loðnustofninn var nánast uppurinn. Þrátt fyrir þá staðreynd og enda þótt þess væri krafist hér á Alþingi, að veiðar væru stöðvaðar, lét sjútvrh. halda áfram loðnuveiðum með afleiðingum sem enginn sér enn fyrir hverjar verða. Slík er stefna stjórnvalda í þessari grundvallaratvinnugrein okkar Íslendinga. Og raunar má sömu sögu segja um fleiri greinar okkar atvinnulífs. En við hverju öðru er að búast þegar einstaklingar eins og núv. sjútvrh., sem aldrei hefur komið nálægt sjávarútvegi eða fiskvinnslu og þekkir varla haus frá sporði á fiski, eiga að fara að ráða ferðinni og stjórna þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar? Það kann ekki góðri lukku að stýra, enda sýna verkin merkin.

En það er ekki bara fiskveiðistefnan og afleiðingar hennar sem ríkisstj. — og þá sér í lagi Framsfl. — ber ábyrgð á. Hvert hneykslismálið rekur nú annað og ekki verður betur séð en flest þeirra beinist að innviðum Framsfl. Nægir þar að nefna kaupin á fiskiskipinu Einar Benediktssyni, sem Steingrímur kallar platmálið og viðskrh. Tómas Árnason, flokksbróðir Steingríms, hefur nú óskað opinberrar rannsóknar á. Þá má benda á lántökuheimildir erlendar til skipakaupa milli staða hér innanlands, sem viðskrh. Framsóknar, Tómas Árnason, virðist iðka, en aldrei hefur gerst fyrr í sögunni. Og svo merkilegt sem það nú er, þá virðast þessi hneykslismál og raunar fleiri tengjast Framsfl. með beinum eða óbeinum hætti. Menn spyrja: Er það hrein tilvitjun eða eitthvað annað sem þessu ræður? Eitt er víst, að hvergi annars staðar en á Íslandi mundu ráðherrar, sem við slíkt væru bendlaðir, sitja áfram í ráðherrastólum, — ráðherrar, sem hvað eftir annað segjast plataðir, hafa enga tiltrú og ættu að segja af sér.

Hvað sagði Steingrímur Hermannsson áðan þegar hann talaði um þessi mál? Hann kaus það hlutskipti að gera ekki minnstu tilraun til þess að bera slíkt af sér. Það segir miklu meira en margt annað.

Góðir hlustendur. 1. maí, baráttu- og frídagur launafólks, er fram undan. Það er ekki úr vegi, ekki síst í ljósi þess, að gefa gaum að launa- og kjaramálum og hver þróun þeirra hefur verið.

Vonandi munið þið, hlustendur góðir, hrópin og slagorðin frá forustumönnum kommúnista í verkalýðshreyfingunni og víðar veturinn 1978, þegar íhaldsstjórn Geirs Hallgrímssonar sat að völdum og boðaði og framkvæmdi stórfellda kjararýrnun. Þá var hrópað: Samningana í gildi, kjörseðillinn er vopn í kjarabaráttunni, og svo mætti áfram telja. Og raunar sjáum við nú á síðum Þjóðviljans álíka fyrirsagnir þessa dagana. Foringjaefni Alþingis götunnar, núv. félmrh. Svavar Gestsson, sem hér talaði áðan, sagði 21 júní 1978: „Kaupránslögin verða því aðeins afnumin að Alþb. komi sterkt út úr kosningunum.“ Svo mörg voru þau orð. Síðan 1978 hefur Alþb. verið í ríkisstj. og Svavar Gestsson í ráðherrastól. Og hvað hefur gerst? Hafa ekki kjörin batnað? Staðreyndirnar eru þær, að þrátt fyrir aðild Alþb. eða kannske frekar vegna aðildar Alþb. að ríkisstj. hafa launakjör versnað. Og ég veit að ykkur, góðir hlustendur, klígjar við að heyra fullyrðingar Svavars Gestssonar hér áðan, þegar hann talaði fjálglega um að Alþb.ráðherrarnir hefðu ekki tungur tvær. Staðreyndin er sú, að þeir herrar hafa vissulega tungur tvær — og raunar fleiri þegar þeim þykir það henta. Þeir herrar skipta raunar oftar um skoðun, þyki þeim það henta, heldur en þeir hafa buxnaskipti.

Nú fara mjög saman skoðanir Vinnuveitendasambands Íslands og skoðanir t.d. varaformanns Alþb., Kjartans ólafssonar, varðandi kjaramálin. Nægir þar að benda á leiðara í Þjóðviljanum á s.l. hausti þar sem ritstjórinn Kjartan álafsson komst að þeirri niðurstöðu, að hæfileg kauphækkun, sem þjóðarbúið þyldi, væri 2%.

Ég held að það sé orðið tímabært fyrir launafólk að átta sig á því, að Alþb. í ríkisstj. er ávísun á versnandi lífskjör hjá launafólki, enda mátti heyra hræðslutóninn í ræðu Svavars Gestssonar áðan þegar hann sagði: Það er ekki auðvelt að verða við kröfum verkalýðssamtakanna. — Skyldi sá hæstv. ráðh. hafa talað álíka í stjórnarandstöðu?

En það verður því miður að segja, að verkalýðshreyfingunni hefur ekki tekist að afstýra þessum áhrifum Alþb. Samninga eftir samninga hefur löggjafinn með tilstyrk Svavars og Alþb. rofið gerða samninga og skert kaup. Það eina, sem hefur breyst frá 1978, er að Alþb. hefur formlega bæst í hóp kaupránsflokka íhalds og Framsóknar og ekki stendur á íhaldinu nú að taka undir kauplækkunarsöng forsvarsmanna Vinnuveitendasambandsins. Í ljósi þessarar reynstu væri það nauðsynlegasta og skynsamlegasta verkefni verkalýðshreyfingarinnar á baráttu- og hátíðisdegi verkamanna að endurskoða baráttuaðferðir, kröfugerð og vinnubrögð við samningsgerð frá því sem verið hefur. Reynsla undangenginna ára ætti að hafa sannfært forustumenn hreyfingarinnar og allt launafólk um að við svo búið má ekki standa. Það er því miður staðreynd, að á undanförnum árum hefur stór hópur launafólks innan ASÍ verið skilið eftir á botni launastigans. Þetta fólk verður að framfleyta sér á sínum nöktu láglaunatöxtum, sem eru langt fyrir neðan það sem bjóðandi er.

Í ljósi þessa hlýtur verkalýðshreyfingin að endurskoða og endurmeta þau vinnubrögð, þær baráttuaðferðir og kröfugerð sem fylgt hefur verið. Eigi baráttan fyrir raunverulega bættum kjörum þessa fólks að ná tilgangi þarf að breyta til, beina málum inn á farsælli brautir en verið hefur. Leiðrétting þessu fólki til handa verður ekki fengin eftir þeim leiðum sem hingað til hafa verið farnar. Og það er ástæða til að spyrja: Hvað ætlar ríkisstj. að gera til að rétta hlut þessa fólks sem hefur orðið undir í baráttunni? Troðnar slóðir undangenginna samninga leysa ekki vanda þessa fólks. Og raunar heyrðuð þið svar hæstv. félmrh. við þessu áðan þegar hann sagði: Það er ekki auðvelt að verða við kröfum verkafólks.

Ekki verður svo skilið við umræður héðan frá Alþingi að ekki sé vikið að því máli sem hvað mest hefur verið í umræðum undanfarna mánuði og misseri. Það er hið hróplega misrétti sem látið er viðgangast í mismunandi orkuverði til landsmanna. Það er eitt brýnasta hagsmunamál þess fólks, sem víðs vegar um landið býr við okur í orkusölu, að lausn verði fengin á þessu misrétti. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. er fyrirheit um jöfnun orkuverðs. Lítið sést enn af framkvæmd þess loforðs. Þrjú lagafrv. liggja nú fyrir Alþingi sem öll gera ráð fyrir jöfnun orkuverðs. Allt bendir til að stjórnarliðið hér á Alþingi ætli að koma í veg fyrir að þau frv. nái fram að ganga. Þinglausnir eru fram undan nú upp úr helgi. Ætla ríkisstj. og stjórnarsinnar að senda þingið heim án þess að gera minnstu tilraun til þess að leiðrétta þetta gífurlega misrétti? Fari svo er ábyrgð ríkisstj. og stjórnarliða mikil. Það er algert ábyrgðarleysi og forkastanleg framkoma stjórnvalda við þetta fólk að ætla því áfram að vinna í 31/2 mánuð — auk skatta af þeim tekjum — bara til að vinna upp þann mismun sem er á kyndingu íbúðarhúsnæðis eftir því hvar er á landinu. Þá kröfu verður að gera til stjórnvalda, að þetta misrétti verði tafarlaust leiðrétt. Verði það ekki gert ber ríkisstj. ábyrgð á mesta fólksflótta sem um getur frá þessum landshlutum vegna orkuokursins.

Herra forseti. Varla hefur það farið fram hjá neinum, sem fylgst hefur með störfum þess þings sem nú er að ljúka, að Alþfl. hefur tekið frumkvæði bæði í stjórnarandstöðu og einnig og ekki síður í málatilbúnaði hér á þingi. Fjölda stórra og merkra mála hafa þm. flokksins flutt og komið á framfæri, þó ekki hafi tekist sem skyldi að fá afgreiðslu þeirra mála, fyrst og fremst vegna þröngsýni þess meiri hluta sem hér ræður ríkjum. Alþfl. mun áfram berjast fyrir framgangi þessara mála. og fleiri sem til heilla horfa fyrir okkar þjóð. Hér eftir sem hingað til mun Alþfl. verða í fylkingarbrjósti í baráttunni fyrir þá þjóðfélagsþegna sem minnst mega sín og verst eru settir. Minnugur þess, að Alþfl. er sprottinn úr jarðvegi íslenskrar alþýðu, mun hann yrkja vel og hlúa að þeim grundvelli sínum.

Að lokum þetta: Stefna núv. ríkisstj. hefur beðið skipbrot. Efnahagsmálin eru í öngþveiti. Undirstöðuatvinnugreinum eins og fiskveiðum og fiskvinnslu er fleytt áfram frá degi til dags með kreppulánum úr Byggðasjóði. Hvert hneykslismálið rekur annað og ekki er annað að sjá en viðkomandi ráðherrar telji að svo eigi að vera. Lífskjör fara versnandi. Misréttið í þjóðfélaginu eykst án þess að nokkuð sé að gert af hálfu stjórnvalda til að leiðrétta það, nema síður sé. Það er í þessu ástandi, í þessu andrúmslofti sem verkalýðshreyfingin sest nú að samningaborði til að endurheimta það sem af henni hefur verið tekið. Vonandi tekst betur til en áður að tryggja launafólki og þá fyrst og fremst þeim launþegum, sem verst eru settir, raunhæfar kjarabætur. En til að svo megi verða þarf breytt viðhorf, breytt vinnubrögð og breytt hugarfar þeirra sem á halda. Megi komandi 1. maí verða upphafið að þeirri endurvakningu innan verkalýðshreyfingarinnar sem verður að koma eigi raunhæfur árangur að nást. Það er mín ósk hreyfingunni til handa, að henni megi auðnast að finna aðrar og farsælli leiðir til baráttu og sóknar — leiðir sem færa launafólki raunverulegar kjarabætur. — Lifið heil.