30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4411 í B-deild Alþingistíðinda. (4117)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls var þess farið á leit, að hv. menntmn. fjallaði um frv. um námslán og námsstyrki. Svo var gert. Til fundar voru kallaðir hæstv. menntmrh. og Sigurjón Valdimarsson framkvæmdastjóri. Niðurstaða í nefndinni varð sú að leggja ekki til neinar breytingar. Af ýmsum ástæðum var það ekki talið fært. Ég hygg að ég túlki þá niðurstöðu rétt og samdóma álit í nefndinni, að ekki væri ástæða til þess.

Eins og hv. dm. er kunnugt komu fram skoðanir þess efnis, að ástæða væri til að hafa endurgreiðslukerfið með öðrum hætti en lagt er til í frv. Ég hygg að þeim aðilum, sem þær skoðanir settu fram, hafi verið orðið ljóst að ekki væri hljómgrunnur til breytinga á frv. frá því sem það var afgreitt til 2. umr. fyrst frá Nd. og til 2. umr. af hv. menntmn. þessarar deildar.

Niðurstaðan er sem sagt sú, að menntmn. gerir ekki tillögur um neinar breytingar.