30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4424 í B-deild Alþingistíðinda. (4148)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Í þessu máli hefur verið skilað tveim minnihlutaálitum frá hv. landbn. Ég á sæti í þeirri nefnd, en tók ekki þátt í afgreiðslu málsins, eins og hér hefur komið fram. Mér þykir þess vegna rétt að skýra afstöðu mína með örfáum orðum. Ég lýsti því reyndar í hv. landbn., að ég er andvígur þessu frv. og þeirri stefnu sem það markar. Ég tel að ríkið eigi ekki með skipulagsbundnum hætti að standa að fóðuröflun fyrir bændur landsins í einu eða öðru formi. Íslenskir bændur hafa verið einfærir um það í 1 100 ár, og ég held að hlutur þeirra sé ekki þannig nú að ástæða sé til að setja almenn lög, rammalög, um þátttöku ríkisins í þessari sérstöku fóðuröflun fyrir bændur.

Að vísu er það svo, að ég tel — og hef áður lýst því og oftar en einu sinni — að fóðuröflun íslenskra bænda sé almennt háð miklum annmörkum, og það er naumast hægt að skýra með eðlilegum hætti hvers vegna svo er. Það er ekki hægt að þegja yfir þeirri staðreynd, að íslenskir bændur verka núna um 5% af heyöflun sinni í vothey á meðan nágrannar okkar á Norðurlöndum, í Noregi t.d., verka 70% í vothey. Það er ekki hægt að þegja yfir þessu þegar raunin er sú, að það er sama hvað sagt er hér á Alþingi um þessi efni, það miðar ekkert fram á við — ekkert.

Ég flutti hér mál fyrir fimm árum og fékk samþykkta þáltill. sem fól í sér aðgerðir til að efla og auka votheysverkun. En að fimm árum liðnum stóðum við nánast í sömu sporunum. Það er engin tilvitjun að nágrannar okkar verka svona mikið af sínum heyafla í vothey, ef við höfum í huga reynsluna hér á landi, því að það eru til íslenskir bændur sem verka meira en 5% í vothey. Ég nefni t.d. bændur í Strandasýslu, á Ingjaldssandi í Vestur-Ísafjarðarsýslu, svo að eitthvað sé nefnt. Ég ætla ekki að tefja hér tímann með því að lýsa því, hver árangur þeirra er. Þessir bændur verka frá 70 upp í 100% af sínu heyi í vothey. Þeir eru með lítinn bústofn, en bú þeirra skilar betri arði en bú þeirra sem hafa mikinn bústofn og verka sitt hey í þurrhey. Ég skýt þessu aðeins hér inn, vík svo nokkrum orðum að frv. sjálfu.

Mér þótti besta greinin í þessu frv. 2. gr., þar sem ríkisstj. er heimilað að selja félagssamtökum eða einstaklingum fóðurverksmiðjur í eigu ríkissjóðs og lána söluverðið. Ég held að þetta sé rétt. Þetta á að gera. En ég verð að lýsa furðu minni á till. l. minni hl. landbn., þar sem lagt er til að þessi 2. gr. frv. sé felld niður, það eina sem var bitastætt og rétt í þessu frv. frá mínu sjónarmiði. Ég verð hins vegar að segja þessum sama 1. minni hl. landbn. til hróss, að ég tel að rétt sé stefnt í þeirri till. þessa minni hl. á þskj. 783, þar sem lagt er til að 3.– 7. gr. frv. verði felldar niður. Þá er lítið orðið eftir af þessu frv., ef það verður gert, sem ég tel rétt, og 2. gr. líka felld niður. Ég held að slík meðferð sem þessi, eiginlega af hálfu allra sem hafa komið nálægt þessu máli í hv. landbn., sé þess eðlis, að það hefði verið miklu hreinlegra að leggja til að frv. yrði fellt. Það er mín skoðun, að það eigi að fella frv.

Hins vegar hef ég ekki á móti því, sem hv. 2. minni hl. landbn. leggur til á þskj. 784, þ.e. að vísa málinu til ríkisstj. Þá hef ég að sjálfsögðu í huga að hæstv. ríkisstj. hefur oft sýnt það, að hún hefur verið einfær um að koma fyrir kattarnef hinum bestu málum sem til hennar hefur verið vísað. Hæstv. ríkisstj. ætti þá ekki heldur að verða skotaskuld úr því að láta þetta mál fá verðugan endi eins og efni standa til.