30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4430 í B-deild Alþingistíðinda. (4151)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mjög, en ég vil alfarið vísa því á bug, að nokkuð hafi verið óeðlilegt við vinnubrögð landbn. Ed. í þessu máli. Ég tel að þau hafi verið með ágætum. Þetta mál var rætt ítarlega og kannað. Hins vegar er ekki því að leyna, að það kom fljótlega í ljós, a.m.k. að mati okkar sumra, að það frv., sem hæstv. landbrh. hafði lagt fram, var að ýmsu leyti gallað. Skoðun mín er sú, að þær brtt., sem fluttar hafa verið við frv. á þskj. 783, séu sömuleiðis nokkrum göllum búnar. Það, sem ég hef einkanlega á móti þessu, er í fyrsta lagi að ríkinu skuli heimilað að taka þátt í stofnun hlutafélaga, sem eigi og reki fóðurverksmiðjur, án nokkurra skilyrða eða takmarkana. Þess vegna gæti ríkið átt 99% í þessum verksmiðjum. Ég tel eðlilegt að þarna væru takmarkanir á. Ég minnist þess úr hádegisútvarpi í dag, að þar var sagt frá nýrri flytjanlegri verksmiðju af þessu tagi sem væri að koma til landsins. Það kom ekki fram í þeirri frétt sem ég heyrði, hver væri hlutur ríkisins að því máli. Ég held að það sé nóg að ríkið greiði niður afurðirnar, en nú er í stórum stíl verið að fara inn á það líka að ríkið greiði niður fóðrið til þess að skapa þessar afurðir. Ef svo heldur fram sem horfir, þá sé ég ekki betur en hér sé verið að stíga hvert skrefið á fætur öðru til að gera landbúnað á Íslandi algerlega ríkisrekinn. Ég er ekki viss um að það sé vilji íslenskra bænda, síður en svo. Allt þarf þetta mál langtum meiri athugunar við.

Það kom fram í athugun nefndarinnar á þessu máli, að rekstrargrundvöllur þessara fyrirtækja er mjög ótryggur, mjög vafasamur. Þarna er eitt og annað sem þarf að athuga betur. Þess vegna skrifaði ég ásamt hv. þm. Agli Jónssyni og Sigurlaugu Bjarnadóttur undir álit þess efnis, að málinu verði vísað til ríkisstj, til frekari athugunar. Í þeirri mynd, sem málið hefur verið lagt fram, er ekki hægt að fallast á það né heldur þær brtt. sem hv. 1. minni hl. landbn. hefur flutt.