30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4431 í B-deild Alþingistíðinda. (4152)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. fór nokkrum orðum það sem ég hef áður sagt í þessum umr. Ég skal ekki vera langorður af því tilefni. Hann talaði um að hann væri furðu sleginn yfir því, hvað ég hefði sagt, talaði líka eitthvað um tvískinnung. En ég skildi hann þannig að við værum báðir góðir vinir landbúnaðarins, og það er nú það sem mestu varðar.

Ég vék að gefnu tilefni, þegar verið er að ræða um fóðuröflun bænda, að votheysverkun nokkrum orðum. Hæstv. ráðh. sagði í því sambandi að það væri ekki hægt að ætlast til þess, að bændur færu eftir því, sem Alþingi skipaði þeim fyrir í þeim efnum. Það var enginn að skipa bændum neitt fyrir í þeim efnum, það hefur aldrei hvarflað að mér. Till. sú, sem ég vitnaði í, og þál., sem samþykkt var fyrir fimm árum, og sú þál., sem samþykkt var nú fyrir nokkrum dögum á þessu þingi, fjalla ekki um nein fyrirmæli til bænda. Þál. fjallar einungis um það, að af opinberri hálfu verði gerðar ráðstafanir til þess að bændur fái meiri lánsmöguleika til að byggja votheyshlöður og koma upp votheysverkun en verið hefur. Það er ömurlegt til þess að vita, það verður að segja, að þó að Alþingi hafi samþykkt þetta fyrir fimm árum var í raun og veru ekkert gert í þessu efni. Nú vænti ég þess sannarlega, og skírskota til þess, að við erum báðir vinir bænda, að hæstv. núv. landbrh. muni láta hendur standa fram úr ermum svo að eitthvað verði raunverulega gert í þessum efnum og í samræmi við þá þáltill. sem samþykkt var nú fyrir nokkrum dögum.

Hæstv. ráðh. var í þeim orðum, sem hann vék að mér, að tala um hagsmuni landbúnaðarins og hagsmuni ríkissjóðs. Auðvitað er gott að hafa það í huga. En það eru einmitt hagsmunir landbúnaðarins sem liggja til grundvallar afstöðu minni til þessa máls. Ég vil að því fjármagni, sem til landbúnaðarins gengur, sé varið á sem skynsamlegastan og raunhæfastan hátt. Ég vil að það fjármagn, sem hæstv. ráðh. vill leggja af hálfu ríkisins í fóðurverksmiðjur, gangi til annarra þarfa, m.a. til hinnar almennu heyverkunar og þá sérstaklega til þess að efla votheysgerðina. Ég tel að með því sé best gætt hagsmuna ríkissjóðs einnig.

Það frv., sem við hér ræðum, er eins og stjórnarliðið, stuðningsmenn ríkisstj., leggur til og hæstv. ráðh. mælir með. Hvað er þetta stjfrv. orðið? 2. gr. á að falla niður, 3. gr. á að falla niður, 4. gr. á að falla niður, 5. gr. á að falla niður, 6. gr. á að falla niður og 7. gr. á að falla niður. 9. gr. á að falla niður. 8. gr., sem fjallar um að landbrh. hafi yfirstjórn þessara mála, á að umorðast. Það kemur ekkert í staðinn fyrir það sem á að falla niður, nema í staðinn fyrir 2. gr. ákvæði um að fjmrh. hafi heimild til að fella niður aðflutnings- og sölugjöld af vélum og tækjum og varahlutum til fóðurverksmiðja. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta nokkur tíðindi, að stjfrv., sem lagt er fram af hálfu ríkisstj. og viðkomandi ráðh. sé þannig meðhöndlað að eftir á ekki að standa nema 1. gr. (EgJ: Það er bara ein lína.) Og hún er ein lína, eins og hinn ágæti formaður landbn. þessarar deildar tekur fram. Mér finnst þessi meðferð á þessu frv., sem hæstv. ráðh. er fylgjandi, bera nokkurn vott þess, að hæstv. ráðh. sé ekki, þegar allt kemur til alls, eins ánægður með sköpunarverkið, frv. í heild, eins og hann var þegar hann lagði það fram. En þessi eina lína, sem eftir stendur, er samt þess eðlis, að hún væri betur þurrkuð út líka vegna þess að hún er stefnumarkandi. Hún markar þá stefnu að sett skuli almenn löggjöf um að ríkisstjórninni sé heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélaga um eignaraðild og rekstur fóðurverksmiðja. Ég er andvígur þessari stefnu. Þess vegna tel ég að þessi grein hefði einnig átt að falla út.

Hæstv. ráðh. sagði að fyrir 10 árum hefðu verið, skildist mér, teknar ákvarðanir um að byggja fóðurverksmiðjur á Norðurlandi. Hann vildi telja það sem rök fyrir þessu frv. Ég ætla ekki að fara að tala um þessar tvær fóðurverksmiðjur á Norðurlandi, ég læt þær liggja á milli hluta. En jafnvel þó að ákveðið sé að byggja tvær fóðurverksmiðjur og þó að þær ráðstafanir hefðu við rök að styðjast og væru réttmætar, þá er af þeim ástæðum ekki endilega sjálfsagt að setja almenna löggjöf um að það skuli vera í verkahring ríkisins almennt að standa að slíkum fyrirtækjum. Ég hygg að það sé alger misskilningur.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mái. Ég vænti þess, að ég hafi skýrt afstöðu mína þannig að mínar skoðanir á þessu máli liggi ljóst fyrir, og vísa að öðru leyti til þess sem ég hef áður sagt í þessum umr.