30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4432 í B-deild Alþingistíðinda. (4153)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil lýsa stuðningi mínum við nál. 2. minni hl., sem formaður landbn., hv. 11. landsk. þm., hefur gert ítarlega grein fyrir í ræðu sinni áðan.

Ég vil aðeins vekja athygli á hvernig háttað er þeim mismun sem er á samkeppnisaðstöðu þeirra, sem reka sjálfir þessar verksmiðjur, eins og Brautarholtsbræðra, og hins vegar ríkisins sem er í samkeppni við þessa framtakssömu bændur sem hafa staðið að slíkum rekstri. Ég tel þetta vera ranga stefnu, það eigi frekar að gera bændum kleift, eins og kemur reyndar fram í þessu nál., að setja á stofn sjálfir og reka slíkar verksmiðjur.

Það væri fróðlegt að heyra hver það er sem ber tapreksturinn af verksmiðjunum, sem ríkið á, og svo hins vegar hjá Brautarholtsbræðrum, svo að eitthvað sé nefnt, hver þarf að standa undir og bera þann taprekstur og hver munurinn er á fyrirgreiðslu þessara tveggja aðila, annars vegar þeirra, sem reka þær einkareknu í einkaeign, og svo hinna, sem eru ríkisreknar.

Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram, að það er bókstaflega ekki gert ráð fyrir öðru en það sé ótakmarkað umboð sem ríkið hafi til að vera hluthafi eða rekstraraðili í slíkum verksmiðjum samkv. þessu frv. Það hefur komið fram hér áður, að yfirbragð umræðna hér í þinginu er ríkisrekstur og ríkisumsvif. Hvar á þetta að enda? Eigum við næst að fá frv. um landsverslun e.t.v., að það megi leggja niður einkareksturinn á sviði verslunar? Það er auðséð hvert stefnir í atvinnumálum hjá hæstv. ríkisstj. Það skal vera ríkisrekstur umfram allt annað.