30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4433 í B-deild Alþingistíðinda. (4154)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta þann misskilning, sem hefur komið fram hjá tveimur hv. ræðumönnum, að ég hafi í ræðu minni áðan talað um óeðlileg vinnubrögð af hálfu hv. nefndar. Það held ég að hafi ekki fundist í mínu máli, að ég hafi talað um að nefndin hafi staðið óeðlilega að þessu máli, heldur leyfði ég mér að undrast að hv. flokksbræður mínir skyldu ekki vilja greiða fyrir málinu og þoka því áfram á hv. Alþingi. Enn fremur lét ég þess getið, að þær brtt., sem 1. minni hl. n. flytur, eru til orðnar að meginefni í landbrn. að ósk hv. formanns nefndarinnar, enda sagði hann sjálfur í sinni ræðu áðan: Ég afhenti texta strax eftir páska sem ég lagði til að yrði á hafður. — Síðar mun hann hafa horfið frá þeirri fyrirætlun sinni. (EgJ: Það er misskilningur.)

Því er ekki að leyna, að frv. eins og það var lagt fram hafði að geyma fleiri atriði en eru í þeim tillögum sem hér liggja fyrir frá 1. minni hl. n. Ég kom t.a.m. á fund nefndar í Búnaðarþingi sem hafði þetta mál til meðferðar. Þar var meðal nefndarmanna hv. formaður landbn. Ed. Með því að þar voru menn ekki á eitt sáttir um nokkur atriði frv. tjáði ég þegar vilja minn fyrir því, ef það yrði til að greiða fyrir að samkomulag gæti tekist um málið, að einungis I. kafli frv., eða ákvæði sem svaraði til þess er greinir í I. kafla frv., yrði afgreiddur á þessu Alþingi, en öðrum köflum frv. yrði frestað og þeir teknir sérstaklega til athugunar fyrir næsta Alþingi. Þær tillögur, sem hér liggja fyrir frá 1. minni hl. hv. landbn. og ég hygg að hv. formaður nefndarinnar hafi átt mikið frumkvæði að því að þær voru samdar, eru til að mæta þessum óskum.

Búnaðarþing afgreiddi málið frá sér m.a. á þennan hátt, að mæla með samþykkt á I. kafla frv., og ég hygg að hv. formaður landbn. þessarar deildar hafi tekið þátt í þeirri afgreiðslu.

Látum þetta allt vera. Ég get skilið að einstakir menn séu á móti tilteknu máli. Ég hef þó leyft mér að undrast að hv. flokksbræður mínir í landbn. þessarar hv. deildar skuli ekki vilja greiða fyrir að þessi hluti frv. a.m.k. verði afgreiddur, þó að hann sé í breyttu formi, og málið síðan tekið til frekari athugunar til næsta Alþingis.

Ég skal ekki gera neinar athugasemdir við það, þó að hér hafi verið sagt að það hafi aldrei verið ætlun hv. formanns nefndarinnar að tefja frv. einn einasta dag, eins og hann orðaði það. Frv. er lagt fram í febrúarmánuði. Það er hér til 2. umr. þegar komið er undir apríllok. Ég skal ekki deila á nefndina fyrir þetta og ekkert láta felast í mínum orðum um að það hafi verið vilji nefndarinnar að tefja málið einn einasta dag. Hún hefur sjálfsagt unnið ákaflega vel að því allan tímann.

Annað, sem hér hefur komið fram, er ekki mikil ástæða til að fjalla um í sjálfu sér. Það hefur verið spurt um fjármagnskostnað og samkeppnishæfni og forsendur um stærð og orkugjafa, sem hlytu að verða meðal forsendna þess, hversu þessi fyrirtæki yrðu hagkvæm. Þessi atriði eru meðal þeirra sem verða á valdi stjórna þessara fyrirtækja, en verður ekki endilega fyrirskipað af hálfu Alþingis. Það starfa undirbúningsfélög og undirbúningsstjórnir að þessum tveimur verksmiðjum sem ákveðið var fyrir 10 árum að reisa á Norðurlandi, og það starfar nefnd til að athuga hagkvæmni graskögglaverksmiðju í Borgarfirði. Ég tel eðlilegt að ákvarðanir um stærð og orkugjafa séu teknar af stjórnum viðkomandi hlutafélaga, ef Alþingi gefur heimild til að slík hlutafélög verði stofnuð. Það er hins vegar ekkert launungarmál, að stefnt hefur verið að því, að t.a.m. graskögglaverksmiðja eða grænfóðurverksmiðja í Hólminum í Skagafirði hafi svokallaða 5 tonna eimingargetu, þ.e. að hún geti haft framleiðslugetu sem sé um 2500–3000 tonn á ári. Það eru möguleikar fyrir stærri verksmiðju í Suður-Þingeyjarsýslu, í Reykjahverfi, og má vænta þess, að ef sú rekstrareining verði stærri en þetta geti það fyrirtæki orðið hagstæðara. Það þýðir auðvitað þeim mun meiri stofnkostnað.

Varðandi markað liggur fyrir að framleiðsla þeirra verksmiðja, sem til eru í landinu, hefur verið í kringum 10–11 þús. tonn. Við fluttum inn á síðasta ári um 60 þús. tonn af fóðri. Ég tel að við höfum möguleika til að framleiða verulegan hluta af þessu fóðri í landinu sjálfu og það geti komið í stað innflutnings. Það er rétt, að það hafa ekki verið settar skorður við innflutningi á fóðri. En aðrar þjóðir gera það að því leyti, að flestar eða nær allar aðrar en Íslendingar reisa skorður við innflutningi á tilbúnum fóðurblöndum. Það er yfirleitt ekki leyft í flestum nálægum löndum okkar að flytja inn tilbúnar fóðurblöndur, heldur er stefnt að því að framleiða fóðrið sem mest og að blanda það a.m.k. eða tilreiða það í hverju landi um sig fyrir heimamarkað.

Ég tel að það sé ekki á þessu stigi komið að því, að við þurfum að grípa til einhverra sérstakra aðgerða til þess að koma í veg fyrir eða takmarka innflutning á fóðurblöndum. En yrði framleiðsla graskögglaverksmiðja eða fóðurverksmiðja af þessu tagi t.d. þrefölduð eða fjórfölduð, hún yrði 30–40 þús. tonn, þá gæti til slíks komið. Þær verksmiðjur, sem hér er um að ræða, þessar tvær verksmiðjur á Norðurlandi og e.t.v. verksmiðja sem er í hagkvæmniathugun í Borgarfirði, mundu væntanlega ekki ná því að tvöfalda þá framleiðslu sem er í landinu í dag þó að þær yrðu allar reistar.

Ég tel að það hafi verið eðlileg og nauðsynleg ráðstöfun að verðjafna flutningskostnað á graskögglum, miðað við það að graskögglaverksmiðjur eru enn sem komið er aðeins á Suður- og Vesturlandi og Suðausturlandi, í Hornafirði er ein, og aukinn flutningskostnaður vegna fjarlægða hefur haft mjög mikil áhrif á að unnt væri að flytja þessa vöru til bænda í þeim landshlutum sem fjær liggja. Það kemur auðvitað til greina að athuga og hefur verið í athugun frekari verðjöfnun á flutningum á fóðri.

Ég held að það sé ekki ástæða til að fjalla um þetta í löngu máli. Meginatriðið er það, að ef Alþingi fellst á að samþykkja þetta mál eins og það nú liggur fyrir, þá er mögulegt að stofna um þessi fyrirtæki hlutafélög, en ella yrði fylgt fyrri stefnu að reisa þessar verksmiðjur af hálfu ríkisins, eins og gert hefur verið m.a. í Flatey í Austur-Skaftafellssýslu. Og þó að sumar verksmiðjur hafi ekki verið í upphafi byggðar af ríkinu hefur ríkið yfirtekið þær.

Varðandi Brautarholtsverksmiðjuna er mjög ánægjulegt og gott að hún skutu rekin í því formi sem er, sem einkafyrirtæki þeirra bræðra, bænda þar. Það er spurt um samkeppnisaðstöðu þeirrar verksmiðju við ríkisreknu verksmiðjurnar. Ég hygg að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir viti að Brautarholtsverksmiðjan hefur fengið verulega fyrirgreiðslu, hún hefur fengið framlög frá ríkinu. Fyrir um það bil einum áratug fékk hún veruleg framlög til að endurnýja vélakost sinn, og hún fékk verulega fyrirgreiðstu á síðasta ári til að greiða fyrir því, að hún gæti staðist samkeppni. Ef taprekstur verður þarf að vinna hann upp með sölu á afurðum verksmiðjanna. En takist það ekki segir sig sjálft að taprekstur ríkisverksmiðja lendir á ríkinu. Það er segin saga. En til þessa hefur tekist að reka verksmiðjurnar þannig að þó að halli hafi orðið sum árin, þá hefur það unnist upp önnur ár, þannig að framleiðslan hefur staðið undir rekstri. Þannig þarf það að vera.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þessi atriði frekar. Ég tel að ég hafi ekki sagt neitt um óeðlileg vinnubrögð hv. nefndar. Ég vil aðeins segja það, að mér þykir miður og kannske undrast ég nokkuð að hv. þm. skuli ekki vilja greiða fyrir þessu máli, þó úr stjórnarandstöðu séu. Ég tel mjög mikilsvert að það takist að afgreiða frv. svo að unnt sé að stofna hlutafélög um sérstaklega þær tvær verksmiðjur, sem ákvarðanir liggja fyrir um að reistar verði, og gefa síðan möguleika til þess að reisa t.a.m. þá verksmiðju sem verið er að athuga um hagkvæmni á í Borgarfirði, ef sú athugun leiðir jákvæða niðurstöðu í ljós. Þess vegna vænti ég að hv. deild sjái sér fært að afgreiða frv. eins og það liggur fyrir eftir meðferð nefndarinnar, og þá á ég við brtt. frá hv. 1. minni hl. landbn.