30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4435 í B-deild Alþingistíðinda. (4155)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Frsm. 2. minni hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Þessi síðari ræða hæstv. landbrh. gaf ekki tilefni til mikilla athugasemda af minni hálfu. Það, sem hefði reyndar verið mikilvægast ef af hefði getað orðið, hefði verið að hæstv. ráðh. hefði svarað einhverju af spurningum mínum. Og reyndar, þótt ekki kæmu efnisleg svör við þeim, fólust ýmsar skýringar í máli hans, m.a. sú, að væntanleg stjórn grasköggla- eða fóðurverksmiðjanna ætti að meta hagkvæmni þeirra og taka ákvarðanir um hvort í þessar framkvæmdir yrði ráðist. Er ekki best að hafa þetta eins við kísilmálminn í Reyðarfirði t.d., að kjósa bara stjórn og láta hana svo um framhaldið? Er ekki óþarft að vera að athuga um hagkvæmni? Er ekki óþarft að vera að athuga um markað, svo að dæmi séu nefnd, orkuflutning og þar fram eftir götunum?

Það er svar út af fyrir sig hjá hæstv. landbrh., að þessar verksmiðjur eigi að vera lausar við að þurfa að ganga undir nokkurt slíkt mat og að Alþingi eigi að vera alveg laust við að meta hvernig þessi rekstur hugsanlega gæti gengið. Nú er ég búinn tvívegis að koma með tilvitnanir úr umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar þar sem sagt er berum orðum að þetta sé ekki hægt að meta eins og mál standi. En það er eins og menn varði ekkert um það á þessum bæ, svo einkennilegt sem það kann að virðast. Ég hélt reyndar að hæstv, landbrh. hefði það stolt til að bera að temja sér í málflutningi nokkra fyrirhyggju, af því að hann er úr hópi íslenskra bænda og þar gætir meiri forsjálni en almennt gerist í þessu þjóðfélagi. En menn varðar ekkert um þetta, þetta skiptir menn engu máli. Það er bara sett á stofn hlutafélag, það dugir, þessi rúmlega eina lína dugir, ef hægt er að koma henni í lagaform, þótt allt annað sé ónothæft í þessum málflutningi.

Það er eðlilegt að leiðrétta misskilning. Ég ætta ekki að vera með útúrsnúninga gagnvart hæstv. landbrh. En textinn, sem ég sagðist hafa afhent eftir páska, var einmitt álit 2. minni hl. Ég gerði það til þess að nm. almennt séð gætu metið þær hugmyndir sem ég hefði um afgreiðslu málsins. En að sjálfsögðu afhenti ég líka frv. eins og það var afhent mér af hendi landbrn.

Ráðh. talaði um afgreiðslu Búnaðarþings og nefndi mig í því sambandi. Sú afgreiðsla gengur ekki gegn afgreiðslu Búnaðarþings. Búnaðarþing gat ekki fallist á afgreiðslu frv. eins og það lá fyrir. Það féllst hins vegar á að ríkisstj. fengi þessa heimild. Búnaðarþing hafði ekki aðstöðu til þess að fara ofan í þetta mál, endurskoða þetta mál. g vitna til þess, sem ég hef áður sagt frá störfum þess þings, að málið er í endurskoðun, búið að vera í umfjöllun á annað ár hjá mjög hæfum og færum mönnum sem hafa góða þekkingu á þessu máli.

Hæstv. landbrh. sagðist taka það trúanlegt, að landbn. Ed. hefði unnið vel að þessu máli, eins og ég held að hann hafi orðað það. Bréf mitt, sem ég hef áður getið um og ég ritaði fjárlaga- og hagsýslustofnun, var skrifað 15. mars. Svarið, sem okkur barst, var dagsett 23. apríl. Það er kannske hægt að hafa misjafnan skilning á því, hvernig vel sé unnið í nefndum. Það þarf ekki allt að byggjast á því að menn afgreiði nál. á færibandi. Og ég verð að segja það, að auðvitað hefði verið eðlilegra að átt hefði sér stað nákvæmari umfjöllun um málið eftir að það barst í okkar hendur 23. apríl. Ef eitthvað væri sérstaklega ámælisvert við okkar störf, þá er það vitanlega að nefndin hefði átt að fjalla meira um málið eftir að það barst henni. Út af fyrir sig stóð ekki á því. En ástæðan fyrir því, að það var ekki gert, ástæðan fyrir því, að málið var unnið með þessum hætti, var sú afgreiðsla sem 2. minni hl. viðhafði. Það lá alveg ljóst fyrir, eftir að umsagnir höfðu borist, að það var og er óforsvaranlegt að afgreiða þetta mál öðruvísi en að fram fari nákvæmari athugun. Til þeirra þenkinga þurfti 2. minni hl. ekki lengri tíma. Málið var nógu glöggt til þess. Ef menn hefðu haft einhverja tilhneigingu í þá veru að tefja þetta mál, þá hefði náttúrlega verið sjálfsagt að meðhöndla það með sama hætti og önnur mál sem mönnum er ekki alveg nákvæmlega sama um hvernig eru afgreidd. Það verður þá frekar að finna sök hjá einhverjum öðrum og þá væntanlega þeim sem bera meiri ábyrgð á þessari afgreiðslu en 2. minni hl., hvað þetta mál er ákaflega ófullkomlega lagt hér fram.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta frekar. En vænt þætti mér um ef hv. þm. Garðar Sigurðsson truflaði ekki hæstv. landbrh., meðan ég mæli þessi allra síðustu orð, svo að ráðh. geti tekið eftir því sem ég segi.

Hæstv. landbrh. byrjaði á því að furða sig á afstöðu flokksbræðra sinna, eins og hann orðaði það, í þessu máli, að flokksbræður hans skyldu ekki greiða fyrir þessu máli. Það hefur ekki verið gerð nein sérstök flokkssamþykkt um þetta mál. Það, sem skiptir þá helstu máli, væri vitanlega hvort við gengjum þar eitthvað á stefnu okkar flokks eða ákvarðanir okkar þingflokks. Ég kannast ekki við að ég hafi neinum sérstökum skyldum að gegna við einhverja þingbræður mína, ekki einu sinni úr Sjálfstfl., ekki einu sinni hinn virðulega forseta Ed. Alþingis, þó að mikil vinátta sé okkar á milli. Það er ekkert sjálfgefið að menn geti alltaf kallað eftir afstöðu flokksbræðra sinna. Ég verð að segja það alveg eins og er, að mér virðist þetta vera hálfgerð kokhreysti hjá hæstv. landbrh. — Það er allaf verið að trufla ráðh. þegar ég er að tala við hann með svona alvarlegum hætti-því að ég held að það hafi enginn maður á Alþingi staðið sig betur í því að greiða atkv. á móti málefnum Sjálfstfl. á þessu kjörtímabili heldur en einmitt hæstv. landbrh. En það er ekkert slíkt uppgjör sem hefur verið að fara fram hér, síður en svo. Hér hafa málefnin verið látin ráða, og þau geta náttúrlega hitt menn með misjöfnum hætti.