30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4441 í B-deild Alþingistíðinda. (4180)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Vilmundur Gylfason var við gamalt heygarðshorn hér áðan og hefur oft sungið og kveðið um Kröfluvirkjun. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga, þó hann rifji upp gamla uppáhaldssöngva sína. Þeir hverfa ekki svo auðveldlega úr minni. En mér var hins vegar ekki alveg fyllilega ljóst hverju hv. þm. vildi sérstaklega koma á framfæri við hv. deild, öðru en að einu sinni hefði verið til Kröflunefnd og þeir, sem hefðu verið í Kröflunefnd, sætu nú í ríkisstj. og um fjármál Kröflu væri getið í ríkisreikningi eins og um fjármál annarra stofnana.

Á bls. 366 í þessari ágætu bók er fjallað talsvert um þá hlið málsins sem hv. þm. var hér að ræða um, þ.e. launamál starfsmanna Kröflunefndar, vegna þess að óeðlilegt og óvenjulegt þótti að ráðherraskipuð nefnd hefði með laun starfsmanna fyrirtækis að gera. Það er sem sagt mjög óvenjulegt í okkar kerfi. En á þessu er auðvitað gefin ákveðin skýring í þessu plaggi, og það er þess vegna kannske rétt, með leyfi forseta, að ég lesi upp þau fáu orð sem um þetta eru. Á bls. 366 segir:

„Hinn 21. júní 1974 skipaði iðnrn. nefnd til að undirbúa jarðgufuvirkjun við Kröflu. Hvorki Kröflunefnd né iðnrn. hafði samvinnu við fjmrn. um laun og önnur kjör vegna starfa við Kröflu. Í fjmrn. var svo á litið að í uppsiglingu væri sams konar fyrirtæki og Landsvirkjun eða Laxárvirkjun, en bein afskipti af launamálum þessara fyrirtækja hefur rn. aldrei haft. Er hið sama að segja um launamál stofnana eins og banka ríkisins og Framkvæmdastofnunar.“

Þetta er skýringin á því, að fjmrn. og launadeild þess hafði ekki með þessi launamál að gera, og gat þá enginn annar aðili haft með þau að gera en Kröflunefnd. Eins og mönnum er kunnugt var gert ráð fyrir því í lögum um Kröfluvirkjun, að ríkisstj. fæli væntanlegri Norðurlandsvirkjun, sem yrði sameignarfélag ríkis og sveitarfélaga á Norðurlandi, að annast byggingu virkjunarinnar, og þá hefði þessi stofnun auðvitað annast launamál starfsmanna við Kröflu. En í lögunum var líka gert ráð fyrir því, að meðan slík stofnun hefði ekki verið sett á fót yrði öðrum aðila falið þetta verkefni, og þessi annar aðili reyndist verða Kröflunefnd. Segja má því að þessi meðferð málsins sé fullkomlega í samræmi við þau lög sem gilda um Kröfluvirkjun. Hitt er allt annað mál, að þetta er óvenjuleg málsmeðferð og má kannske taka undir með hv. þm. að þetta sé líka óeðlileg málsmeðferð til lengdar, gat kannske verið eðlilegt til frekar skamms tíma. En það teygðist úr þessu, eins og menn þekkja, og þá fer þetta að verða frekar óeðlilegt fyrirkomulag.

Á bls. 367 stendur, með leyfi forseta: „Hvernig stendur á því, að launagreiðslur starfsmanna Kröflunefndar fóru ekki gegnum launadeild fjmrn. og voru ekki samkv. kjarasamningum ríkisstarfsmanna?“ Og svarið er:

„Störf Kröflunefndar voru talin bráðabirgðaráðstöfun stjórnvalda uns Norðurlandsvirkjun yrði stofnsett. Taldi nefndin sér því eigi skylt að launamál starfsmanna hennar færu í gegnum launadeild fjmrn., enda enginn vilji fyrir því í rn.“ — Þetta mun vera svar frá iðnrn.

„Kjör framangreindra starfsmanna voru eðli mála samkvæmt ákveðin samkv. kjarasamningi Félags ráðgjafarverkfræðinga við Verkfræðingafélag Íslands. Kjör vélgæslumanna og þeirra annarra, er talið var að fylgja mundu virkjuninni við yfirtöku rekstraraðila (t.d. Norðurlandsvirkjunar) voru ákveðin samkv. kjarasamningum Landsvirkjunar.“

Þetta er orðrétt úr bréfi Rafmagnsveitna ríkisins um Kröfluvirkjun til rn.

„Til viðbótar þessu vill rn. taka fram að álitið var að þessi störf væru svo sérstaks eðlis, að laun fyrir þau féllu ekki undir kjarasamninga ríkisstarfsmanna. Þess vegna voru launin ekki borin undir launadeild.“

Ég vildi, herra forseti, að það kæmi skýrt fram, eftir aths. sem kom fram frá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að um þetta mál er fjallað ítarlega í þessari þykku bók, ríkisreikningi fyrir árið 1978, og meira sagt um það en það eitt sem hv. þm. nefndi. Það eru augljóslega fullar skýringar gefnar á því, hvernig á þessum málum var haldið.