30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (4181)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þegar hæstv. fjmrh. fer að hlaupa í sína gamalkunnu vörn fyrir þær gerðir sem þarna hafa átt sér stað, þá gerir hann það auðvitað ekki sem fjmrh. og ekki sem yfirmaður þeirra stofnana sem undir fjmrn. heyra. Nei, hann gerir það sem gamall Kröflunefndarmaður.

Hann kallar þetta gamalkunnan söng og spyr hvers vegna menn séu að staldra við þetta núna. Í fyrsta lagi er það gert til undirstrikunar því, að það, sem á sínum tíma var sagt um þetta fyrirtæki, hefur reynst vera rétt í smáu og stóru. Í annan stað er vakin athygli á þessu vegna þess að það ætti að vera til viðvörunar eftirleiðis, eins og er sagt hvað eftir annað af yfirskoðunarmönnum þegar þeir eru að gera aths. við einstakar fjármálafærslur í þessum efnum. En í þriðja lagi mætti sennilega draga af því víðtækari pólitískar ályktanir. Á sínum tíma fór þetta valda- og Kröflukerfi allt í samansúrraða vörn fyrir þetta ævintýri, en örlögin hafa engu að síður orðið þau, að Kröflunefnd var skotið upp á við og upp í ríkisstjórn. Það skyldi þó ekki vera samhengi á milli t.d. skipakaupamála allra saman, Iscargomála, mála sem hafa verið að koma upp, og að samfélagið dró ekki réttar ályktanir á sínum tíma af því sem átti sér stað í sambandi við Kröfluvirkjun.

Ég veit ekki hvernig átti að skilja aths. hæstv. fjmrh. áðan. Hann er varla að gera aths. við niðurstöður yfirskoðunarmanna ríkisreikninga sem eru birtar og teknar saman að fengnum svörum ráðuneytanna og m.a. því svari sem hann las upp áðan. Hann vísaði á bls. 366 í reikningum. Að fengnum þessum upplýsingum og lesnu þessu bréfi birta yfirskoðunarmenn sínar niðurstöður á bls. 398 í ríkisreikningnum og áfram. Ég vil hvorki hrella sjálfan mig né aðra hv. þm. með því að vera að lesa þetta upp, en ég vil ekki heldur að ríkisreikningurinn fari fram hjá hv. Nd. öðruvísi en að menn kynni sér það sem þar stendur. Og þessi lesning er reyfari þegar upp er lesið.

Ráðh. spurði, til hvers væri verið að vekja athygli á þessu, og hann sagðist ekki skilja hvað þar byggi að baki. En ég spyr á móti: Hvað á þingið að gera? Og ég spyr líka: Hvað getur þingið gert í þessum efnum? Það getur undirstrikað og tekið rækilega undir með yfirskoðunarmönnum að þetta sé til viðvörunar eftirleiðis. En ég undirstrika það enn og aftur, að í hv. fjh.- og viðskn. verða menn að skoða mjög vel hvernig á þessu máli skuli haldið og hvort þetta verður afgreitt með einhverjum aths. frá Nd. Ég hygg að það hafi ekki verið gert í Ed., heldur létu menn nægja aths. eins og þær sem ég er að flytja úr ræðustól.

Ráðh. spyr: Til hvers er verið að gera þessar aths.? Ég spyr: Til hvers er þetta kerfi yfirleitt? Til hvers erum við að leggja ríkisreikning hér fyrir? Af hverju erum við að því? Og til hvers er þetta eftirlitskerfi yfirleitt allt saman? Væntanlega á það, eins og sagt er í heilbrigðismálum, að vera fyrirbyggjandi aðgerðir svo að slík saga endurtaki sig ekki. Og það er einmitt tilgangur minn með því að vera að vekja athygli deildarinnar á þessu.

Samandregið er Kröfluævintýrið allt saman einhver ægilegasta fjármálasaga þessa ríkis. Það þarf ekki annað en leiða hugann norður í land og leiða hugann að því, hvaða mannvirki þar standa og hvað þau eru að framleiða af orku. En að því öllu slepptu eru yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hér að segja þá sögu, af hverju þetta gerðist, af hverju þetta ævintýri gekk svona lið fyrir lið, allt frá því að nefndin var sett á laggirnar á sínum tíma.

Hér erum við væntanlega á allra næstu dögum að samþykkja nýtt virkjunarævintýri. Eitt af því, sem Kröflusagan á að kenna okkur, er að búa þannig um hnútana að svona ævintýri endurtaki sig ekki. Og þá er verið að tala um smátt og stórt í þessum efnum, eins og yfirskoðunarmennirnir gera aths. við í lið eftir lið á fjölmörgum bls. í lok þessa ríkisreiknings.

Ég vil, herra forseti, að lokum undirstrika það, að ég lít svo á að hér hafi í raun réttri ekki hæstv. fjmrh. verið að tala, heldur hafi það verið gamall Kröflunefndarmaður með þann syndabagga á bakinu sem þátttöku í þeirri nefnd fylgir. Ég vil út af fyrir sig ekki gera neinar aths. við það. Það eru ofureðlileg og mannleg viðbrögð. En ég vil enn beina því til nefndarinnar, að hún athugi sinn gang vel. Umfjöllun um ríkisreikning er til þess að vera til eftirbreytni. Við skulum segja að annar eigi tilgangurinn ekki að vera en að koma í veg fyrir að þessi saga geti endurtekið sig. Hæstv. fjmrh. getur varla verið mér ósammála um þau efnisatriði. Nefndin ætti að búa svo um hnútana, ganga svo frá þeim málum, að hún leggi stein í þá vörðu, að þessi saga endurtaki sig ekki. Og af hverju skiptir það máli? Vegna þess að það er ekki svo að þessar upplýsingar um Kröflunefndina séu að koma fyrst fram núna. Þetta var öllum ljóst fljótlega eftir að Kröflunefndin tók til starfa á sínum tíma. Við þetta voru gerðar aths. í fjölmiðlum. Um þetta var spurt hér á Alþingi. En sannleikurinn var auðvitað sá, að á þeim tíma báru þrír stærstu stjórnmálaflokkarnir með samanlagt 53 af 60 alþm. sameiginlega ábyrgð á þessu ævintýri, og þeir, sem fyrir utan slíka valdablokk standa, eru auðvitað í ákaflega erfiðri stöðu. Aftur og aftur stóð þetta yfirþyrmandi valdakerfi upp og sagði: Þetta er rógur og níð og þarna er ekkert að. En hver er niðurstaðan? Annars vegar ónýtt fyrirtæki fyrir norðan, milljarðafjárfesting sem engu skilar, og hins vegar fjármálasaga sú sem gerð er grein fyrir í þessari bók.

Annað, herra forseti, þarf í raun og veru ekki að segja um þetta. En ég treysti því, að nefndin muni ganga svo frá að það verði lýðum ljóst að Alþingi hefur heldur á móti fjármálaævintýrum af þessu tagi.