30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4444 í B-deild Alþingistíðinda. (4183)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna síðustu orða hæstv. fjmrh. tel ég að það sé alveg nauðsynlegt að það komi hér skýrt fram, að grundvöllur þess, að Kröfluvirkjun tókst ekki betur en raun ber vitni, var sá, að verkfræðilegar athuganir og tæknilegar athuganir, sem nauðsynlegt var að gera, voru aldrei framkvæmdar. Það var hvorki út af landsumbrotum né skrifum hv. þm. Vilmundar Gylfasonar að svo illa tókst til með Kröfluvirkjun sem allir verða að herfa á núna. Það, sem er mála sannast í þeim efnum, er að það var farið út í borun á vinnsluholum og þær virkjaðar löngu áður en eðlilegt gat talist, miðað við þá reynslu sem menn hafa fengið af slíkum virkjunum í öðrum löndum. Það er t.d. yfirlýst af Orkustofnun, að það hefði þurft að láta tilraunaholur blása í a.m.k. eitt ár áður en byrjað var á virkjun. En flýtirinn var svo mikill og asinn svo mikill á mönnum að það var ekki gert.

En það var ekki tilgangur minn með hingaðkomunni að ræða um Kröfluvirkjun sem slíka, heldur vildi ég segja það, að hv. þm. Vilmundur Gylfason er ekki einn um að hafa orðið undrandi ef þessi ríkisreikningur fyrir árið 1978 hefði farið þegjandi og hljóðalaust í gegnum Alþingi. Ég tel nefnilega að í þessum ríkisreikningi komi fram svo alvarlegar aths. frá endurskoðunarmönnum að þingið sóma síns vegna geti ekki látið þennan ríkisreikning fara í gegn athugasemdalaust. Það er nánast algerlega útilokað og væri ekki bara siðleysi af þinginu, heldur þvílík samábyrgð þeirra flokka, sem hér standa að, að það væri nánast dæmalaust.

Ég vil t.d. biðja menn um að fletta upp á bls. 398 í ríkisreikningnum og lesa aths. um fjármál Kröfluvirkjunar sem þar koma fram, aths. og niðurstöður skoðunarmanna ríkisreiknings. Ég held að í þessu máli hafi reynst satt það sem sagt hefur verið, að það er ekki sama Jón og séra Jón. Hér eru á ferðinni alvarleg mál, þó ekki væri annað en það sem snýr að hæstv. forsrh. þegar hann er iðnrh. og veitir leyfi til yfirvinnugreiðslna sem eiga líklega engan sinn líka. Ég vil bara nefna það sem hér stendur svart á hvítu, og ég verð að segja það alveg eins og er, að það undrar mig mjög að fjölmiðlar t.d. skuli ekki hafa tekið eftir aths. í ríkisreikningi sem eru auðvitað stórkostlega fréttnæmar.

Ég vil minna á það sem segir á bls. 398, með leyfi forseta: „Óeðlilegt verður að telja að nefndir skipaðar af ráðh., eins og Kröflunefnd, skuli hafa vald til þess að ákveða laun og önnur kjör starfsmanna sinna í trássi við fjmrn.“

Aths. yfirskoðunarmanna er: Til viðvörunar eftirleiðis.

Síðan kemur fram á bls. 399, með leyfi forseta: „Á hinn bóginn liggur bréflega fyrir að leyfi iðnrh. var fyrir greiðslu yfirvinnu framkvæmdastjóra Kröflunefndar. Verður því við svo búið að standa.“

Það er ekkert hægt að hreyfa. Við getum lesið áfram. Við getum litið á það sem stendur enn fremur um þennan launalið, og ég les, með leyfi forseta:

„Svarið sannar að laun og starfskjör á ekki að ákveða munnlega milli ráðh. og starfsmanns. Aths. er til viðvörunar.“

Síðan segir hér, með leyfi forseta: „Fjmrn. ítrekar fyrri úrskurð sinn, „að tiltekinn forstöðumaður ríkisstofnunar, sem jafnframt var þm., ætti ekki rétt á greiðslu fyrir yfirvinnu hjá stofnun sinni“, en svarar aths. ekki að öðru leyti. Eins og málið er vaxið verður við svo búið að standa.“

Það má lesa í þessum aths. aths. um allt mögulegt í fjármálum Kröfluvirkjunar. Það bílaleigukostnaður, það eru flugferðir, það er símakostnaður, það er húsaleigusamningur og það er fleira og fleira.

Ég verð að segja það um hæstv. fjmrh., að hann hefur þó manndóm í sér til þess að kannast við að hafa verið í Kröflunefnd, og sé hann meiri maður fyrir. En aðrir þegja þunnu hljóði. Aðrir þegja nefnilega þunnu hljóði, og kannske er það það alvarlegasta í þessu máli, að þegar fram koma svona alvarlegar aths. við ríkisreikning frá yfirskoðunarmönnum á að renna honum í gegnum þingið þegjandi og hljóðalaust. Það á enginn að veita þessu eftirtekt, hinar gömlu syndir séu fyrirgefnar með því að yfirskoðunarmenn segi að málið sé til viðvörunar eða við svo búið verði að standa. Það gengur auðvitað ekki að hið háa Alþingi, Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkundan, láti svona lagað gerast. Það gengur ekki.

Það má kannske segja það með nokkurri kaldhæðni, að það vildi Alþfl. til láns, varð honum til happs, að hann átti ekki aðild að þeirri nefnd sem hér átti hlut að máli. Ég get spurt sjálfan mig og aðra að því: Hefði þetta mál nokkru sinni komið til umr. á hinu háa Alþingi ef þannig skyldi hafa viljað til að Alþfl. hefði átt fulltrúa í þessari nefnd? Er þetta svokallað samtryggingarkerfi okkar svo samannjörvað að við séum tilbúnir og fúsir til að þegja þunnu hljóði yfir hverju sem er bara vegna þess að við áttum þátt í því?

Ég tek undir það, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði áðan, að ég vænti þess, að hv. fjh.- og viðskn. athugi þetta mál mjög gaumgæfilega.