30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4447 í B-deild Alþingistíðinda. (4185)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í þessu efni verða menn auðvitað að gera skýran greinarmun annars vegar í fjármálasögu þessa fyrirtækis, sem í þessari bók er rakin að hluta, og hins vegar virkjunarsögunni sjálfri og vísindalegum þáttum hennar. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. menntmrh., að þessu tvennu má ekki rugla saman.

Hæstv. forseti spurði hvort ég vildi bera af mér sakir. Hæstv. fjmrh., sem hér í ræðustól umhverfðist úr embætti fjmrh. og yfir í það að vera gamall Kröflunefndarmaður, það er hrikaleg ummyndun sem þar á sér stað, hann segir, að hneykslið í Kröflumálunum hafi verið æsingaskrif tiltekinna manna, og nafngreinir þar einn sérstaklega, og það er hv. 9. þm. Reykv. sem þar er nafngreindur. Nú er það svo, að fjölmargir, og þá einnig vísindamenn, vöruðu á þeim tíma við því, sem þarna var að gerast. Það voru þá væntanlega æsingamenn líka. Það má þylja upp nafnarunu, nöfn manna ofan úr háskóla og víðar að, en afar minnisstæðar eru mér greinar skrifaðar af þekkingu og nákvæmni, efniviður sóttur víða að, þar sem varað var við því, sem þarna var að eiga sér stað, sem birtust í opnu Þjóðviljans á árinu 1977. Höfundur var þá náttúrufræðingur í Neskaupstað, Hjörleifur Guttormsson, núv. hæstv. iðnrh. Og hafi menn valdið hneyksli með æsingum, eins og svo smekklega var hér orðað af hæstv. fjmrh., af fyrrv. Kröflunefndarmanni, svo að ég sleppi titlatogi, var einn af æsingamönnunum og einn af skemmdarverkamönnunum og einn af þeim sem þyrluðu upp ryki, einn af þeim, sem reyndu að espa fólk upp í þessu máli, Hjörleifur Guttormsson, þá náttúrufræðingur í Neskaupstað. Þetta vil ég að hæstv. fjmrh. taki til athugunar. Það er hins vegar óviðkomandi þeirri fjármálasögu sem rakin er í þessari bók.