30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4455 í B-deild Alþingistíðinda. (4198)

44. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í Ed. og hlaut þar afgreiðslu og var fjh.- og viðskn. Ed. sammála um að mæla með samþykkt frv., en frv. er þess efnis að afnema heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum. Þessi sjálfskuldarábyrgð um heimild fyrir ríkisstj. til kaupa á skuttogurum er frá 12. maí 1972.

Þegar þessi lög voru samþykkt var mikil þörf á að byggja upp fiskiskipaflotann, og því voru ábyrgðir sem þessar mjög eðlilegar og skiljanlegt að Alþingi setti þessi lög á þeim tíma til að auðvelda og örva kaup á skuttogurum, og sömuleiðis var þá endurnýjun loðnuflotans talin brýnt verkefni. Nú hafa þessi lög verið í gildi um það bil einn áratug og allar aðstæður hafa gerbreyst. Fiskveiðiflotinn hefur verið byggður upp. Það hafa orðið stórfelldar breytingar þannig að við höfum tekið upp í vaxandi mæli stjórnun við fiskveiðar og orðið að beita ýmsum takmörkunum við veiðarnar. Nú er svo komið að fiskiskipastóllinn er of stór miðað við afkastagetu og hvað skynsamlegt er að ganga nærri hinum einstöku fiskstofnum. Þar við bætist að á síðasta ári má segja að loðnuveiðarnar hafi beðið mjög alvarlega hnekki — ég segi ekki hrun — sem hefur gert að verkum að 50 skip hafa bæst við á bolfiskveiðar. Jafnhliða hafa verið byggð skip innanlands og að mínum dómi allt of mörg skip flutt til landsins á þessum tíma og þó sérstaklega með tilliti til þeirra gífurlegu breytinga sem hafa átt sér stað á veiðunum.

Fjh.- og viðskn. Nd. er sammála um að mæla með því, að þessi lög verði afnumin, lög um heimild fyrir ríkisstj. til að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum. Það mun því þurfa að leita til Alþingis um hverja slíka heimild er farið verður fram á. Ég tel að þetta frv. hafi verið þarft og nauðsynlegt að flytja við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi og hafa verið ríkjandi, einkum síðustu tvö árin.