09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu óframkvæmanlegt fyrir Íslendinga eins og aðra að haga utanríkisviðskiptum sínum eftir því, hvernig stjórnarfar er í þeim löndum sem skipt er við. Ef taka ætti upp slíka stefnu er hætt við að við mundum þurfa að strika út af lista hugsanlegra viðskiptavina okkar meiri hlutann af þeim 160 þjóðum sem eru frjálsar í heiminum. Þó kemur það öðru hverju fyrir, að þjóðir komast vegna opinberrar stefnu, sem framkvæmd er, í þá stöðu að þær hljóta mjög almenna fordæmingu og jafnvel að gerðar eru samþykktir hjá Sameinuðu þjóðunum um viðskiptabann.

Þetta kom fyrir í Suður-Afríku. Hér á Íslandi hefur verið uppi öðru hverju allmikil gagnrýni á það, að þrátt fyrir Apartheid-stefnuna og þrátt fyrir samþykktir Sameinuðu þjóðanna hafa Íslendingar haldið uppi æðimiklum viðskiptum á okkar mælikvarða við það land.

Annað land, sem hefur komið sér út úr húsi vegna stjórnarhátta, vegna árása á nágrannaþjóðir, vegna þess að þar hafa verið þjálfaðir hermdarverkamenn ag síðan sendir til illvirkja víða um heim, er Líbýa. Það hefur að vísu ekki verið gerð nein samþykkt, sem mér er kunnugt um, hjá Sameinuðu þjóðunum um viðskipti við Líbýu. En ég geri ráð fyrir að ég þurfi ekki að lýsa því fyrir hv. þingheimi, hvaða orð Líbýumenn hafa á sér í þessu efni.

Mér þykir það hvimleitt, að á sama tíma sem Líbýa hefur komist í þessa stöðu og er að mörgu leyti óalandi og óferjandi í félagsskap siðaðra og friðelskandi þjóða, bæði meðal Múhameðstrúarmanna og annarra, skuli fregnir bera með sér að viðskipti Íslendinga við þessa þjóð virðast sífellt vera að aukast. Þar á ég við bæði viðskipti á sviði flugsins og á sviði siglinga því að sagt er frá skipaferðum frá höfnum á Ítalíu til Líbýu.

Það getur verið stundargróði af því að grípa upp viðskipti sem augljóst er að aðrir eru tregir til að taka. Það er ekki tilviljun að einmitt viðskipti við Líbýumenn á þessum sviðum eru tiltölulega auðfengin og það er borgað vel fyrir þau. Ég vil beina því til hæstv. ráðh. hvort hann hafi ekki aðstöðu til þess, af því að þessi mál eru á sviði samgangna, að kynna sér hvort ekki er hægt að beita áhrifum í þá átt, að Íslendingar dragi úr eða hætti með öllu þessum viðskiptum við Líbýu. Það er alvarleg hætta á því, að við förum svo með mannorð okkar, ef við gínum við hverju tækifæri sem gefst af þessu tagi, að það geri okkur meira tjón á öðrum sviðum en stundargróðanum nemur. Ég skora eindregið á hæstv. ráðh. að kanna hvort ekki er unnt að beita þunga ríkisvaldsins og áhrifum þess á viðkomandi samgöngufyrirtæki til að hindra, að viðskipti Íslendinga við Líbýu verði á næstunni jafnmikil og þau hafa verið, og reyna helst að afnema þau með öllu.