30.04.1982
Neðri deild: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4470 í B-deild Alþingistíðinda. (4220)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ólafur Þ. Þórðarson. Herra forseti.:

Það er hægt að reikna út réttmæti aðgerða út frá ýmsum forsendum, og ef staða þessa máls er fyrst og fremst reiknuð út frá hagsmunum Járnblendifélagsins má vel vera að sú niðurstaða sé rétt sem iðnrh minntist á áðan. Hins vegar er hægt að skoða þetta mál út frá fleiri forsendum m.a. út frá stöðu raforkusölunnar.

Samkv. nýlegri skýrslu, sem Landsvirkjun gaf út, er skráð að 60% af þeirri umframorku, sem seld verður á næstu árum, eru raunverulega forgangsorka á umframorkuverði. Og hvað þýðir þetta í reynd? Þetta þýðir að íslenskur almenningur í þessu landi er að greiða niður raforkuna í stórum stíl m.a. fyrir Járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Og þá hlýtur sú spurning að vakna Þegar útreikningur eins og þessi er gerður er þá tekið á þessu heildardæmi út frá því sjónarmiði, hver er þjóðarhagur í stöðunni? Er hagkvæmt fyrir þjóðarheildina að selja áfram forgangsorku á afgangsorkuverði? Ég óska eindregið eftir að iðnrh. gefi skýr svör við þessu. Ein af ástæðunum fyrir að það er sótt eftir svari, er að hann hefur tregðast við í allan vetur að svara því, hvaða stefna sé í upphitunarmálum varðandi verðlag á raforku. Það kemur aldrei fram á hvaða verði ætlunin er að selja raforkuna í framtíðinni, en það er hægt að reikna út 10 eða 20 ár fram í tímann hver verði hagur hinna ýmsu verksmiðja. Það kemur aldrei fram á hvaða verði ætlunin er að selja raforkuna í framtíðinni, en það er hægt að reikna út 10 eða 20 ár fram í tímann hver yrði hagur hinna ýmsu verksmiðja. Það er tímabært að stöðvuð verði sú stefna, að neytendur í þessu landi, almennir raforkuneytendur, séu látnir greiða með stóriðjunni eins og verið hefur.