30.04.1982
Neðri deild: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4471 í B-deild Alþingistíðinda. (4224)

30. mál, lyfjadreifing

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til I. um lyfjadreifingu, en þetta frv. er nú í fjórða sinn til meðferðar á hv. Alþingi. Það var í upphafi flutt í heilbrmrh.-tíð hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar og hefur síðan verið endurflutt, af honum reyndar einu sinni, og síðan tvisvar sinnum af mér.

Frv. hefur nú fengið meðferð í hv. Ed., hefur verið þar til meðferðar síðan í okt. í haust og hefur verið farið rækilega yfir frv., hverja einustu grein þess. Margir menn hafa verið kallaðir til yfirheyrslu og umræðna um málið, og í gær afgreiddi hv. Ed. shlj. 21 brtt. við frv. þetta og var alger samstaða um málið í Ed. með fulltrúum allra flokka. Þar kom ekki fram neitt mótatkv. um málið eins og það liggur hér fyrir, fyrir utan það, að nokkur ágreiningur varð um 58 gr. Brtt. nefndarinnar, eins og hún var flutt, var felld í Ed. þannig að frv. er nú óbreytt frá því sem það var í upphafi að því er þessa grein varðar, en hún orðast nú svo:

„Lyfjabúðir og lyfjaútibú skulu hafa á boðstólum algengustu dýralyf miðað við þarfir í hverju lyfsöluumdæmi. Héraðsdýralæknum er einnig heimilt að annast sölu dýralyfja og skulu þeir fá lyfin keypt hjá lyfjaheildsölum eða hjá Tilraunastöðinni að Keldum.

Þar sem héraðsdýralæknir situr, en ekki er lyfjabúð eða lyfjaútibú á staðnum, skal hann hafa í umdæmi sínu á hendi sölu lyfja, sem hann kaupir frá lyfjaheildsölu, lyfjabúð eða hjá Tilraunastöðinni að Keldum.“

Hv. heilbr.- og trn. Ed. flutti við þetta brtt. og var hún felld, eins og ég sagði áðan, í atkvgr. við nafnakall í Ed. í gærkvöld. Þess vegna er þessi grein frv. óbreytt frá því sem frv. var í upphafi þegar ég lagði það fram.

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, á þessu stigi málsins að fara mjög ítarlega yfir einstakar greinar frv. þess. Ég vænti þess, að það sé hv. þm. mjög vel kunnugt. Mér þætti mjög vænt um ef þingið treysti sér til að afgreiða þetta mál á því þingi sem nú lýkur senn. Það hefur fengið rækilega meðferð og með því að í hv. heilbr.- og trn. deildarinnar eru tveir fyrrv. heilbr.- og trmrh. leyfi ég mér að gera mér vonir um að nefndin taki þessu vel og að málið verði að lögum á þessu þingi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari stuttu framsöguræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.