03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4488 í B-deild Alþingistíðinda. (4237)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að hæstv. viðskrh. hafi lagt þetta mál fyrir með lofsverðum hyggindum, þ.e. leggja fram frv. núna, gefa hv. alþm. kost á að hugleiða þetta mál og skoða hug sinn í því, afla sér gagna. Hann út af fyrir sig þrýstir ekkert á um afgreiðslu þessa máls, ætlar okkur nægan tíma, og málið mun ekki koma til umfjöllunar í iðnn. Ed. fyrr en þá á haustmánuðum. Sjálfur er ég uggandi um það að bindast svo í lög með ríkum þjóðum, iðnveldunum, gegn þróunarlöndunum, gegn hinum fátækari ríkjum sem gefið er undir fótinn með í samþykktum Alþjóðaorkustofnunarinnar. Það breytir ekki því, að við hljótum að huga að því, hvort við getum tryggt hag okkar, víðskiptalega hagsmuni okkar með því að ganga í þessi samtök.

Eftir því sem ég kemst næst og ég hef lesið mér til um var meginástæðan fyrir því, að Frakkar gengu ekki í þessi samtök, sú, að þeir töldu að samningurinn hefði lagagildi, byndi hendur þeirra, mundi torvelda þeim að kaupa inn olíu á sem hagkvæmastan hátt. Ég má ekki til þess hugsa, að þannig væri um hnútana búið að við gætum ekki neytt þess afls, sem þrátt fyrir allt liggur í smæðinni og sérstakri viðskiptastöðu okkar, til þess að kaupa þar olíu sem okkur hentar best og m.a. í tengslum við sölu á okkar meginafurðum.

Eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði áðan er ástæðan fyrir því, að aðildin að Alþjóðaorkustofnuninni hefur ekki reynst hemill á olíuviðskipti annarra þjóða á þessu sviði, sú, að Alþjóðaorkustofnunin er ekki orðin virk stofnun, hún hefur ekki gegnt því hlutverki sem henni var ætlað: að búa til sterkt innkaupasamband til þess að hafa áhrif á olíuverð. Þetta hefur ekki tekist enn þá, og kemur þá til íhugunar hvort stofnunin er þess virði að við göngum í hana. Aðildinni fylgja útgjöld á ýmissa handa mála, og þarna opnast fyrir enn einn möguleikann fyrir íslenska embættismenn og stjórnmálamenn að fá ferðir til útlanda. Því aðeins að stofnunin hafi eitthvert raunverulegt gildi fyrir okkur munum við ganga í hana að því tilskildu að aðildin hefti okkur ekki í því að reyna að ná hagstæðum viðskiptum við aðrar þjóðir.

Ég fagna því sem sagt að frv. kom fram núna. Það gleður mig, að við skulum fá þennan tíma til að hugleiða málið og sannprófa ýmislegt sem það snertir. Að sjálfsögðu verður þetta mál tekið til athugunar á haustþingi.