03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4490 í B-deild Alþingistíðinda. (4240)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af hugleiðingum hv. 11. þm. Reykv., Ólafs Ragnars Grímssonar. — Ég vil aðeins segja það, að það er að sjálfsögðu úr lausu lofti gripið ef hann hefur skilið orð mín þannig að ég vildi mæla með því, að Ísland gerðist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni alveg skilyrðislaust, án allra umræðna og skilyrða. Þetta mál er búið að vera lengi á döfinni, eins og ég tók fram í þeim fáu orðum sem ég sagði til að fagna því, að þetta frv. væri komið fram til athugunar. Ég vil í því sambandi benda á að það hefur mjög skort á að reynt væri að ná einhverri pólitískri samstöðu í þessu máli. Það er rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að þetta er ekki einfalt mál. Hann veit áreiðanlega að við hv, þm., sem höfum verið jákvæðir í þessum málum, gerum okkur mætavel grein fyrir því. Á hinn bóginn finnst mér hafa skort á að hægt væri að fá einhverja pólitíska samstöðu, vettvang til að ræða þessi mál á milli stjórnmálaflokkanna, allan þann tíma sem þetta mál hefur verið á döfinni. Ég er raunar viss um að það hefur strandað á því, að Alþb. hefur verið neikvætt í þessu máli, alveg án tillits til þess, hvaða skilyrði væri verið að ræða. Ég er þeirrar skoðunar — það leiðréttist þá ef sú skoðun mín er röng — að Alþb. hafi verið almennt á móti því jafnvel að ræða það mál, að Ísland gerðist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni.

En nú er þetta frv. komið fram og hæstv. ráðh. hefur lýst yfir að hann muni endurflytja það á næsta þingi. Þá er mín spurning þessi til hæstv. ráðh.: Hefði ekki verið æskilegt að hann íhugaði það að skipa milliþinganefnd allra stjórnmálaflokka til að kanna þetta mál áður en það kemur til umræðu hér á haustþinginu? Ég held að það væru æskileg vinnubrögð, vegna þess að ég held að það sé mikill pólitískur meiri hluti fyrir því að gerast aðili að þessari alþjóðastofnun, að sjálfsögðu þó á þeim grundvelli sem tryggir hagsmuni Íslands í alla staði. Það er vitanlega ekki hægt að gerast aðili að alþjóðasamstarfi einungis með því að fá að njóta þeirrar aðildar. Auðvitað þurfa menn líka einhverju til að kosta. Það er ævinlega svo í öllu samstarfi.

Að lokum vil ég svo aðeins fagna því, að hv. 11. þm. Reykv. ætlar að styðja okkur hina í því að verða ekki háðari Sovétríkjunum en nú er, hvorki á þessu sviði né öðrum.