03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4493 í B-deild Alþingistíðinda. (4242)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hv. þm. Lárusar Jónssonar vil ég vísa til þess, að það liggur að baki gríðarmikið starf í þessu máli varðandi undirbúning málsins. Fyrst og fremst ber að nefna olíuviðskiptanefndina sem var á sínum tíma skipuð. Dr. Jóhannes Nordal var formaður þeirrar nefndar, og ég hygg að allir þingflokkar, eða a.m.k. stjórnmálaflokkar, hafi átt fulltrúa í þeirri nefnd. Síðan var skipuð önnur nefnd af hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, þáv. viðskrh., sem efndi til viðræðna við Alþjóðaorkustofnunina um þessi mál. Þessu starfi var síðan haldið áfram eftir að ég tók við starfi viðskrh. Það má því segja að í raun og veru hafi allir flokkar komið að þessu máli og undirbúningi þess. Þess vegna held ég að ekki sé ástæða til að skipa nýja nefnd sem slíka í málið fram til haustsins. Hins vegar er ég mjög opinn fyrir því að hlusta á og ræða sjónarmið sem kunna að koma fram af hálfu stjórnarandstöðunnar í málinu, því að ég tel það mikils virði og fagna því, að það er nokkuð almenn samstaða þm. um málið.