03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (4255)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Landbrh. (Pálmi lónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um fóðurverksmiðjur hefur hlotið afgreiðslu hv. Ed. Frv. var upphaflega nokkru viðameira en hv. Ed. hefur gengið frá því. Voru í frv. ákvæði um grænfóðurverksmiðjur þær sem nú eru í eigu ríkisins. M.a. voru þau þess efnis, að heimilt væri að selja þessar verksmiðjur einstaklingum eða félagasamtökum. Einnig voru þar ákvæði um stjórn á málefnum ríkisverksmiðjanna og fleira um þau mál. Það komu fljótlega fram efasemdir um þau atriði frv. sem lúta að fóðurverksmiðjum ríkisins, bæði á Búnaðarþingi og á Alþingi, og ég lét þess getíð, að ekkert ræki sérstaklega á eftir því að afgreiða þau ákvæði frv. sem um þær fjalla. Ég mun endurtaka yfirlýsingar mínar þess efnis, að þau atriði í þessu máli hef ég í hyggju að láta athuga betur og leggja e.t.v. fyrir næsta Alþingi.

Frv., eins og hv. Ed. hefur gengið frá því, fjallar í rauninni aðeins um þá þætti málsins að heimila ríkisstj. að taka þátt í stofnun hlutafélaga, sem eigi og reki fóðurverksmiðjur, og enn fremur, svo sem segir í 2. gr. frv., að fjmrh. sé heimilt að fella niður aðflutnings- og sölugjöld af vélum, tækjum og varahlutum til slíkra verksmiðja. Þessi efnisatriði, sem frv. nú felur í sér, er mikilvægt að fá afgreidd á yfirstandandi Alþingi, m.a. vegna þess að í undirbúningi hefur verið stofnun hlutafélaga um byggingu og rekstur tveggja fóðurverksmiðja á Norðurlandi sem ákveðið var í raun af stjórnvöldum að skyldu byggðar fyrir 10 árum, en auk þess er nefnd að starfi sem er að kanna hagkvæmni þess að setja upp fóðurverksmiðju á Vesturlandi.

Ég tel það stefnubreytingu í þessu frv., sem þar segir, að hér eftir er gert ráð fyrir að ríkið taki ekki á sig að reisa og reka fóðurverksmiðjur af þessu tagi, heldur sé því heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélaga í þessu skyni. Ég tel það hyggilega og heppilega stefnu, að heimaaðilar, félagasamtök og einstaklingar, taki þátt í að reisa þessi fyrirtæki og leggi fram fjármagn í þessu skyni og taki á sig ábyrgð á rekstri á móti ríkinu.

Ég vænti þess, að hv. deild sjái sér fært að afgreiða þetta frv. á þeim skamma tíma sem eftir er af núverandi Alþingi því það er mikilvægt að unnt sé að ljúka stofnun þeirra hlutafélaga sem undirbúin hafa verið, bæði að því er snertir uppbyggingu fóðurverksmiðja í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.