03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (4259)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð sem ég óska eftir að segja við 1. umr. þessa máls. Ég tel mig ekki þurfa að hafa um það langt mál þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fá frv. til meðferðar.

Út af því, sem hæstv. landbrh. sagði síðast, að frv. væri búið að vera hér til umfjöllunar megnið af vetrinum, er það þó svo, að það frv., sem við eigum að fjalla um núna í landbn. Nd., er allt annars konar en það frv. sem hér hefur legið fyrir í allan vetur. Þótt ég geri ráð fyrir að þetta frv. valdi síður deilum en frv. eins og það var lagt fram, þá eru að sjálfsögðu þættir í eldra frv. sem ég hefði óskað eftir að ekki væru felldir niður. En það virðist ekki vera mikill tími eða tækifæri til stórvægilegra breytinga þegar öll mál eru hér til lokaafgreiðslu á tíma sem verður varla talinn vera tími til stórvinnubragða. Landbn. Nd. hefur á engan hátt kynnt sér þær umsagnir eða þær upplýsingar sem legið hafa fyrir landbn. Ed. Ég geri því ráð fyrir að við munum leitast við að gera okkur glögga grein fyrir málinu og stöðu þess, þó svo að fáir dagar séu eftir af þingi.

Ég álít að það sé mjög mikilvægt að efla innlendan fóðuriðnað og í því ljósi sé mjög mikil nauðsyn á að koma upp verksmiðjum fyrir graskögglavinnslu, — verksmiðjum sem væru hagkvæmar í rekstri. Ég tók eftir því, að hæstv. landbrh. sagði áðan, að það mundi ekki verða talinn ýkjahár orkukostnaður sem færi í að nota svartolíu, og nefndi hvað það væri stór hluti af verðmætinu í kögglunum. Ég veit að þetta er rétt. Þetta er margreynt. En það eru aðrir þættir sem mér finnst að hafi legið eftir og þurfi verulega að kanna áður en farið er út í stórkostlega uppbyggingu á fóðuriðnaðarverksmiðjum, sem ég tel út af fyrir sig að þurfi að gera, og það er að athuga þá innlendu orku sem við eigum. Ég álít að það að byggja upp graskögglaverksmiðjur og minnka með því innflutning okkar á fóðurvörum sé til þess fallið fyrst og fremst að spara okkur þann gjaldeyri sem við erum alltaf að berjast við að láta endast til þeirra hluta sem við þurfum að kaupa erlendis frá. Ég veit ekki til að það hafi verið gerð nein haldbær rannsókn á því, með hverjum hætti og með hvernig þurrkunarútbúnaði megi hagnýta jarðhita. Það hefur verið talað um færibandahitun, en hún er að því leyti til ákaflega óhentug, að það virðist vera að grasið, sem þurrka á, þorni ekki nægilega hratt vegna gerðar færibandanna, en margir, sem á þessu hafa gott vit, telja að það sé höfuðskilyrði að fóðrið þorni hratt, við það verði minna tap á næringargildi fóðursins. Ég veit ekki heldur til að það hafi verið gerð nein haldbær rannsókn á því, hvort ekki sé hægt að hagnýta raforkuna á miklu ódýrari hátt en gert er með beinni rafhitun. Ég veit ekki betur en víða erlendis séu notaðar svokallaðar varmadælur sem nýta raforkuna a.m.k. sex sinnum betur en bein hitun. Ég held að ég fari rétt með að Verkfræðingafélag Íslands hafi sett í það ákveðinn hóp manna að gera hagkvæmniathugun á notkun varmadælu í því skyni að nýta raforkuna sem best. Ég held að það þyrfti einmitt að snúa sér að því af verulegum krafti. Ég er ekki að andmæla því, að það sé full þörf á að koma áfram hér í Alþingi frv. um uppbyggingu fóðurverksmiðja. Það hlýtur þó að vera það, sem öllu máli skiptir, að við getum, fyrst við eigum mikla innlenda orku, hagnýtt hana til þeirra þarfa sem ég hef hér gert að umræðuefni.

Það er fleira sem ég hefði viljað líka að lægi fyrir þegar við erum að ræða um uppbyggingu verksmiðjanna, og það er að viss sjónarmið þarf að hafa í huga þegar þeim er ákveðinn staður. Hér var bent á það áðan að álitamál væri hvort ekki væri hagkvæmara að stækka eldri verksmiðjur. Um það skal ég ekki fullyrða neitt, ég ætla að láta það liggja á milli hluta. En það eru tveir þættir, sem snúa að þessu máli, sem mér finnst að þurfi að gera sér nokkuð glögga grein fyrir áður en staðsetning er ákveðin, þ.e. hvort á að staðsetja verksmiðjuna með hliðsjón af markaðsmöguleikunum, dreifingunni á framleiðslunni, eða með hliðsjón af hráefnisöfluninni, hvað hún er örugg, hvað hún er árviss. Það getur verið geysilega mikið atriði.

Mér er ljóst að eins og högum er háttað í þessu efni er eðlilegt að bændur vilji dreifa verksmiðjunum sem mest um landið. Það er af því að verðjöfnun á flutningi hefur verið ófullkomin fram undir þetta þótt nokkuð hafi verið gengið til móts við þá sem búa fjarri verksmiðjunum. En m.a. vegna þess koma fram hugmyndirnar um verksmiðju hér og verksmiðju þar. Það er mikil spurning hvort við eigum ekki einmitt að sannreyna hvort ekki verður hagkvæmara að byggja verksmiðjurnar upp í stærri einingum þar sem veðurskilyrði eru best, þar sem grasspretta er öruggust, en beita athyglinni að jafna flutningskostnaðinn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt, en ég vildi láta þessar hugleiðingar mínar koma hér fram. Þær sýna það og skýra það, að þegar fjallað er um mál eins og þetta geta menn ekki gert það án þess að ljá slíkum málum hugsun. Athugun af því tagi tekur einhvern tíma.