09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths., einkum vegna orða síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Reykv. Fyrir hönd kollega míns í Danmörku, sem ég man ekki einu sinni hvað heitir og veit ekkert um, sem nú hefur verið handtekinn og bornar á brýn njósnir og annað það sem hv. þm. sagði, t. d. að hafa þegið fé til danskrar friðarhreyfingar, vil ég benda lögfræðingnum á, af því að við erum stödd hér á Alþingi Íslendinga, að þetta mál er ekki sannað. Enginn er sekur fyrr en hann hefur verið sekur fundinn. Við skulum bíða eftir því, hvort þetta reynist rétt vera. Þá mun ég að sjálfsögðu fordæma það en fyrr ekki.