03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4505 í B-deild Alþingistíðinda. (4263)

228. mál, barnalög

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þessum umr. láta koma fram afstöðu mína til þessa máls.

Ég er hlynntur þeirri afstöðu, sem gerð er till. um af hv. þm. Vilmundi Gylfasyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni, að frv. verði afgreitt með þeim hætti sem þeir gera ráð fyrir. Ég tel að hér sé um að ræða einn af mikilsverðari málaflokkum í okkar félagslegu þjónustu. Ég geri ráð fyrir að á næstu árum verði í vaxandi mæli lögð áhersla á félagslegar fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir ýmis þau vandamál, félagsleg og heilsufarsleg, sem fólk á því miður við að stríða í því samfélagi sem við búum í.

Í umsögn meiri hl. hv. allshn. segir að í félmrn. hafi verið samíð frv. eða hafi verið samin „drög að lögum um heildarskipulag félagslegrar þjónustu á vegum sveitarfélaga.“ Af því tilefni vil ég láta það koma fram, að þetta hefur verið í undirbúningi í félmrn., en hér er um að ræða geysilega viðamikið mál. Ég sé satt að segja ekki fyrir endann á því núna alveg á næstu mánuðum eða misserum. Ég veit ekki hvað það tekur langan tíma, vegna þess að hér er um að ræða löggjöf sem snertir marga aðra þætti íslenskrar félagsmálalöggjafar. Það er ekki að vita hvenær niðurstöður í því endurskoðunarstarfi geta legið fyrir. Þess vegna tel ég, að hér sé um að ræða eðlilega afgreiðslu, og get tekið undir flest af því sem hv. frsm. minni hl. allshn., Vilmundur Gylfason, gerði grein fyrir áðan.