09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Vegna þeirra umr., sem hér hafa farið fram um vopnasölu og flutninga íslensku flugfélaganna með vopn, þeirra umr. sem hafa beinst inn á nýjar brautir, inn á friðarhreyfingar á Vesturlöndum, og einkum og sér í lagi vegna þess að hér var vitnað til Þjóðviljans í þessu sambandi, þá held ég að rétt sé að fram komi hér á hv. Alþingi hvað það er sem stendur í þessum ágæta leiðara Þjóðviljans frá 7. nóv., á byltingarafmælinu síðasta. Ég vil — með leyfi forseta — fá að lesa smákafla úr þessum leiðara. (Forseti: Það verður örstutt.) Hann verður stuttur. Í fyrsta lagi er hér klausa svona orðuð:

„Sennilega á Sovétstjórnin aðeins heimsmet á einu sviði og það er í hræsni og yfirdrepsskap, og máske þó enn frekar í því að kunna lítt að færa hræsnina í trúverðugan búning. (Gripið fram í: Hvar stendur það?) Rússneskir valdhafar hafa lengi þóst vera meiri friðarvinir en flestir aðrir og jafnvel talið sig eiga einkarétt á friðnum. Þeir hafa boðað frið í Asíu á sama tíma og her þeirra hefur nú í nær tvö ár vaðið um fjöll og dali í smáríkinu Afganistan blóðugur upp að öxlum við að slátra því fólki sem landið byggir. Þeir hafa talað um Eystrasaltið sem friðarhaf og nauðsyn þess að Norðurlönd væru áfram án kjarnorkuvopna, en meðan þeir gala hæst um þetta sigla þessir strandkapteinar eigin kjarnorkukafbát upp í fjöru á Eystrasaltsströnd Svíþjóðar. Því miður höfum við dæmi um það úr eldri sögu og yngri, að valdhafar nái að koma sér upp svo háþróaðri tvöfeldni, að þeir glati öllu því sem heitir að kunna að skammast sín.“

Og síðar í leiðaranum segir: „Sú friðarhreyfing, sem telur sig eiga samstöðu með sovéska „heimsfriðnum“, er verri en engin friðarhreyfing.“

Leiðaranum lýkur á þessum orðum: „Baráttan fyrir friði verður ekki háð undir þeirra merkjum og ekki heldur undir þeim fána hræsninnar, sem nú blaktir yfir Kreml á 64. afmælisdegi rússnesku öreigabyltingarinnar.“

Þetta voru síðustu orð í leiðara Þjóðviljans sem skrifaður er af varaformanni Alþb., Kjartani Ólafssyni ritstjóra Þjóðviljans.

Hér kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ef sannaðist sekt kollega hennar í Danmörku um að hafa þegið rússneski fé til þess að standa undir kostnaði við rekstur á svokallaðri „friðarhreyfingu“ í Danmörku, þá líti hún öðrum augum á málið heldur en hún gerir í dag varðandi þá friðarhreyfingu. Þessi leiðari, sem hér um ræðir, fjallar um heimsfriðarráð, sem er stýrt frá Sovétríkjunum og ég býst við að ýmsir núv. Alþb.-menn kannist við, hafi heyrt talað um og kannske komist í nánari snertingu við á mörgum undanfarandi árum. Nú hefur Þjóðviljinn gefið línuna og sagt: Heimsfriðarráðið er hræsni og yfirdrepsskapur. — Ef það sannast, eins og síðasti ræðumaður benti á, að Rússar standi jafnframt að baki friðarhreyfingunni, munu þeir þá snúa baki við sínum fyrri yfirlýsingum og viðurkenna að það er út í bláinn, algerlega út í bláinn að Norðurlönd lýsi því einhliða yfir að vera kjarnorkulaust svæði, á meðan við hliðina á þessum löndum er stórveldi sem hikar ekki við að taka upp kartöflur innan landhelgi á rússneskum kafbátum?