03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4507 í B-deild Alþingistíðinda. (4270)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá fjvn. á þskj. 723 um till. til þál. um viðauka við vegáætlun fyrir árin 1981–1984, en till. er frá ríkisstj., 246. mál Sþ. á þskj. 490, og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að á árinu skuli aflað 10 millj. kr. viðbótarfjár til vegáætlunar á árinu 1982. Fé þessu skal varið til framkvæmda á eftirtöldum vegum í því skyni að auka öryggi vegfarenda:

Útnesvegur um Ólafsvíkurenni 6.9 millj. kr.

Djúpvegur um Óshlíð 3 millj. kr.

Ólafsfjarðarvegur um Ólafsfjarðarmúla 0.1 millj. kr.

Framkvæmdir þessar skulu vera sérstakur verkefnaflokkur innan stofnbrauta. Frekari fjárveitingar skulu ákveðnar við næstu endurskoðun vegáætlunar.“

Eins og hv. alþm. sjálfsagt vita ritaði samgrh. fjvn. Alþingis bréf við afgreiðslu vegáætlunar s.l. vor þar sem kemur m.a. fram að óskað er eftir því samkv. tillögu Vegagerðarinnar, að sérstakar framkvæmdir verði hafnar sem eiga að draga sem mest úr hættu fyrir vegfarendur á snjóflóðum, skriðuföllum og grjóthruni á vegum um Ólafsfjarðarmúla, Ólafsvíkurenni og Óshlíð, þar sem hætta fyrir umferð er talin mest á þjóðvegum landsins. Í bréfi samgrh. segir m.a.: „Samgrh. mun leggja til við ríkisstj. að lögð verði fram á næsta Alþingi viðaukatillaga við vegáætlun, þannig að þessum framkvæmdum verði sinnt samkv. áætlun Vegagerðar ríkisins og sem sérstöku verkefni innan stofnbrauta, og verði fjármagns til þeirra aflað sérstaklega. Hefur um það verið rætt við fjmrh. Er þess vænst, að framkvæmdir geti hafist sumarið 1982.“

Það var í samræmi við þetta bréf sem þessi þáltill. var flutt.

Allir þeir vegir, sem hér um ræðir, eru sannarlega lífshættulegir vegir með hæstu slysatíðni samkv. mati Vegagerðarinnar vegna snjó- og aurskriðufalla og mikils grjóthruns. Allir þessir vegir eru aðalsamgöngutenging viðkomandi byggðarlaga. Íbúar þessara svæða eru svo til algerlega háðir þessum vegum um sínar aðallífsþarfir, bæði hvað varðar heilbrigðismál, viðskipta- og atvinnumál. Þess vegna er mikið í húfi að framkvæmd geti hafist við þessa vegi nú þegar. Hönnun er lokið við veginn um Ólafsvíkurenni og um Óshlíð, en mikla rannsókna- og hönnunarvinnu þarf að inna af hendi við Ólafsfjarðarmúla áður en framkvæmdir geta hafist.

Eins og fram kemur í tillgr. er framkvæmdaféð á þessu ári áætlað aðeins 10 millj. kr., sem er hluti af fjárhæð sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur ákveðið að lána til vegaframkvæmda á þessu ári. Skipting fjárins til framkvæmda er tillaga Vegagerðarinnar óbreytt.

Fjvn. hefur fjallað um till. og er sammála um að mæla með samþykkt hennar. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar skrifa þó undir með fyrirvara.

Herra forseti. Ég legg til að till. verði samþykkt.