03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4514 í B-deild Alþingistíðinda. (4275)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér finnst vera nokkuð þreytandi að heyra þegar bæði hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. kvarta undan því að það sé verið að bjóða fram fjármagn, þó að láni sé, til að standa við gerðar áætlanir í vegamálum. Ég hélt að það bæri miklu frekar að fagna því að það væri gert. Ég sé enga ástæðu til þess eftir þessi orð hæstv. ráðh., að það sé endilega verið að troða upp á Framkvæmdasjóð þessum 10 millj. til Ó-veganna. Samgrh. leggur hér fram þessa þáltill. um að aflað skuli 10 millj. kr. viðbótarfjár til vegáætlunar á þessu ári. Ef hann á ekki við það að taka við því fjármagni, sem Byggðasjóður hefur lofað að leggja fram, er ég reiðubúinn að endurskoða afstöðu mína í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og skal láta honum eftir að útvega þetta fjármagn, eins og hann lofaði að gera fyrir tæpu ári. Og þá er þar um meira að ræða. Hann ætti þá að koma með allt fjármagnið til þessara þriggja Ó-vega, eins og hann lofaði.

Ég tel undarlegt hvernig við er brugðist. Ég hélt að það væri fagnaðarefni, og þá ekki síst samgrh. landsins, þegar sjóður eins og Byggðasjóður markar þá stefnu að leggja meira af mörkum til vegagerðar í landinu af eigin ráðstöfunarfé og líka að taka lán, sem er ætlað að standa undir á komandi árum eða létta undir þeirri uppbyggingu framkvæmda sem hefur verið ætlað að fara í.

Ég tek alveg undir orð hv. þm. Lárusar Jónssonar áðan. Fjvn. Alþingis beitti sér fyrir því að reyna að ná sem víðtækustu samkomulagi. Ég tel að formaður fjvn. eigi þakkir skildar fyrir að afgreiða ekki till. stjórnarliðsins á einstrengingslegan hátt, heldur reyna að mynda samstöðu um báðar þær tillögur sem fyrir lágu: till. samgrh., sem flutt var sem stjórnartillaga, og till. okkar sjálfstæðismanna. Ég átti hlut að máli þar að reyna að ná því víðtæka samkomulagi sem gert var, þó að ég ætti ekki sæti í fjvn. Þetta samkomulag var gert. Alþingi samþykkti þessa till. samhljóða. Það hefði ekki verið gert ef vinnubrögð hæstv. samgrh. hefðu ráðið ein. Það var talinn hygginna manna háttur og það er virðingarvert þegar nefnd eins og fjvn. og þá sérstaklega formaður hennar gengur fram fyrir skjöldu til að reyna að ná veigamiklu samkomulagi, sem tókst.

Í framhaldi af samþykkt till. hefur svo í vetur verið unnið að þessari langtímaáætlun af fulltrúum þingflokkanna ásamt vegamálastjóra og tveimur verkfræðingum Vegagerðar ríkisins. Ég átti sæti í þessari nefnd fyrir Sjálfstfl., Guðmundur Bjarnason fyrir Framsfl., Magnús H. Magnússon fyrir Alþfl. og Skúli Alexandersson fyrir Alþb. Mér er ljúft að segja það hér, að samvinna og samstarf innan þessarar nefndar hefur verið með miklum heilindum og þar höfum við reynt að vinna saman í sátt og samlyndi og í mjög góðu samstarfi við vegamálastjóra og verkfræðinga Vegagerðarinnar sem hafa unnið þarna mjög mikið starf í allan vetur. Nú er komið að því, að þessi langtímaáætlun sé tilbúin frá hendi þessarar nefndar. Allir nefndarmenn kynntu vinnubrögð nefndarinnar hver innan síns þingflokks og Vegagerðin hefur gert grundvöll að lagabreytingum sem fyrirhugað er að leggja fram á þinginu í haust. Fyrirhugað er að þessi langtímaáætlun verði aðeins lögð fram, en ekki rædd á þessu þingi, ekki einu sinni fylgt úr hlaði. Þar með er þó staðið við það fyrirheit að leggja hana fram. Það knýr ekkert á um að hún sé rædd endilega á þessu vori, en aftur knýr á að hún verði rædd og afgreidd þegar á næsta hausti. Þegar þetta liggur fyrir hefði verið eðlilegt, eins og Lárus Jónsson sagði í sinni ræðu, að þingflokkarnir eða fulltrúar þeirra eða fjvn., ef menn hefðu viljað það heldur, hefðu lagt þessa langtímaáætlun fram. En þá tekur ráðh. við sér, þá fyrst þegar allt er tilbúið í hendurnar á honum. Hann breytir að vísu hálfri annarri blaðsíðu í grg. til þess að fá meira auglýsingabragð á málsmeðferðina. Ég held að það sé ekki til þess fallið að auka samstöðu, hvernig ráðh. tekur á málinu, því að það hefði verið nauðsynlegast af öllu að reyna að halda þeirri góðu samstöðu sem sköpuð var fyrir forgöngu fjvn. á s.l. vori. Hefði verið langeðlilegast að hafa málsmeðferðina með þeim hætti.

Ég get borið það í öðru máli, sem er enn þá stærra mál en vegamálin, þó að þau séu stór, að þegar var unnið að undirbúningi nýrrar fiskveiðilöggjafar var fyrst leitað til hagsmunaaðila sem áttu undirbúningsfundi og viðræður og lögðu fram sínar tillögur og reyndu að samræma þær. Síðan tóku við fulltrúar þingflokkanna sem unnu frv. endanlega, og þá hefði sem sagt sjútvrh., sem þá var, átt að segja: Nei, nú skal ég, fyrst þið eruð búnir að vinna málið í hendurnar á mér, flytja það. — En sá háttur var ekki hafður á. Það var talið hyggilegra upp á samstöðu, upp á það að þingflokkarnir næðu betur saman, að þetta mál væri flutt sem þingmál. Sama ætti að vera uppi á teningnum í sambandi við þessa langtímaáætlun í vegamálum. Hæstv. ráðh. hefði samt alveg getað komið sjálfum sér að. Það var engin hætta á því, að hann hefði ekki komist að til að láta koma fram hvað hann hefði lagt fram og lagt til mála.

Þegar menn tala um þá miklu aukningu sem hafi orðið í vegagerð, spyr ég: Hvar er sú mikla magnaukning? Hún hefur engin orðið. Það er alveg rétt, að það hefur orðið stórfelld framför í lagningu bundins slitlags á vegi, en það hefur dregið úr uppbyggingu vega að sama skapi. Áður var verið að byggja vegina upp úr snjó, það var verið að fara í ný verkefni. Magnframkvæmdir í vegamálum hafa því ekki aukist til þessa. Þessi langtímaáætlun gerir svo ráð fyrir verulegri aukningu. En við urðum í þessari nefnd fyrir sárum vonbrigðum. Þegar við töluðum um og samkomulag náðist um að leggja 2.1–2.4% fram til vegamála af vergri þjóðarframleiðslu, sem mundi fara frá 1983–1985 úr 2.1 í 2.4%, reiknuðum við auðvitað með verulegri aukningu þjóðarframleiðslu. En á daginn hefur svo komið að við endurskoðun á útreikningum Þjóðhagsstofnunar er ekki reiknað með aukningu, því miður, vegna þess að það hefur orðið samdráttur í þjóðarframleiðslunni í öllum atvinnugreinum, nema í sjávarútvegi sem hefur verið byggt á frá því að útfærslan var gerð, frá því að þjóðin losnaði við útlendinga af Íslandsmiðum. Þrátt fyrir þá miklu framleiðsluaukningu sem hefur orðið í sjávarútvegi, sem hefur verið sú eina aukning sem hefur átt sér stað, hefur orðið samdráttur almennt. Á vexti sjávarútvegs hefur verið lifað frá árinu 1978 og til þessa dags. Nú er aukning þjóðarframleiðslu ekki fyrir hendi og þá verða spár strax mun verri þannig að framlögin til vegamála koma alts ekki til með að aukast miðað við þá stefnumörkun sem við gerðum okkur vonir um fyrir ári að staðið yrði við. Þetta þýðir ekki að við getum verið mjög bjartsýnir. Þó að reynt sé að draga upp glansmynd með þeim breytingum sem ráðh. gerði á þessari greinargerð, þá er sú glansmynd engin í reynd.

Ég tel að sumu leyti að þessa þáltill. hafi verið óþarfi að flytja, nema ráðh. ætli að afla þessa fjár, eins og hann lofaði fyrir ári. Ég er alveg reiðubúinn að endurskoða afstöðu mína í stjórn Framkvæmdastofnunar og láta þetta fjármagn þá fara til einhverra annarra framkvæmda í vegamálum fyrst hæstv. ráðh. setur upp hundshaus, þegar verið er að bjóða framlag sem þetta, og fúlsar við slíkum boðum, sem fram eru komin, alveg eins og hann og hæstv. fjmrh. gerðu fyrir tveimur árum þegar Framkvæmdastofnun gerði samþykktina um að leggja fram verulegt fjármagn til að flýta fyrir framkvæmdum við að leggja slitlag á vegi víðs vegar um landið.