03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4516 í B-deild Alþingistíðinda. (4276)

246. mál, viðauki við vegáætlun 1981--1984

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umr., en ég verð að leiðrétta örfá atriði sem komu fram hjá hv. 4. þm. Austurl. og hv. 1. þm. Vestf.

Í fyrsta lagi tók ég skýrt fram í því sem ég sagði áðan, að framlag Byggðasjóðs, 20 millj. sem Byggðasjóður tekur að láni og greiðir sjálfur, er mjög þakkarvert. Ég skal endurtaka að ég tel að það sé gott framlag. Hv. 1. þm. Vestf. getur flett upp í ræðu minni áðan og séð að þannig tók ég einnig til orða þá. Hann hefur ekki hlustað vel ef hann hefur skilið orð mín svo sem á honum mátti heyra í ræðustól. Ég sagði hins vegar að það, sem veitt er ríkissjóði að láni og ríkissjóður þarf að greiða, getur ríkissjóður að sjálfsögðu tekið sjálfur að láni.

Í öðru lagi þykir mér það undarlegur boðskapur hjá hv. 1. þm. Vestf., ef hann vill segja mönnum að ég hafi engin afskipti haft af því, að samkomulag varð í fyrra um eina till. frá fjvn. Ég átti fjölmarga fundi með fulltrúum stjórnarliðsins í fjvn. um það mál og hvatti eindregið til þess, að leitað yrði eftir samstöðu um þennan mikilvæga málaflokk, og hef fyrr lýst ánægju minni með að slík samstaða náðist. Ég kann því ekki að hér sé verið að gefa alranga mynd af því sem þar fór fram. Um þetta geta menn eins og formaður fjvn., fulltrúar Framsfl. í fjvn. og fleiri barið. Við ræddum þetta að sjálfsögðu vandlega og ég hef ekki lagt í vana minn að vera að bera saman þær tillögur sem þarna voru sameinaðar.

Í þriðja lagi vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan, að ég met mikils það starf sem fjórir fulltrúar þingflokkanna unnu að lokafrágangi langtímaáætlunar. En dettur einhverjum í hug að ég hafi aldrei fjallað um þau mál? Í þau ár, sem ég hef setið sem samgrh., rúmlega tvö, hef ég átt fjöldann allan af fundum með Vegagerðinni til undirbúnings þessari langtímaáætlun, og reyndar á þetta miklu lengri aðdraganda. Málið má rekja til fyrirrennara minna á samgrh.-stóli sem létu hefja úttekt á stofnbrautakerfi landsins og gera það tölvutækt, eins og stundum er talað um, þ.e. gefa því einkunnir og reyna að meta það. Þannig á undirbúningur að gerð þessarar langtímaáætlunar langan aðdraganda. En ég fylgdist vel með, átti marga fundi með Vegagerðinni og fór yfir þau gögn sem lögð voru fram í þm: nefndinni. Ég endurtek að ég tel að nefndin hafi unnið þar ágætt starf og sé enga ástæðu til að núa einum eða öðrum því um nasir, að hann hafi unnið betur eða verr en annar, eins og næstum því mátti skilja. Að sjálfsögðu hef ég unnið miklu meira að þessum málum sem samgrh. en hv. 1. þm. Vestf.

Ég vil svo segja það, að það hefur verið venja að samgrh. legði fram vegáætlun. Ég þekki ekki til annars. Langtímaáætlun er náttúrlega ekkert annað en liður í vegáætlun, verður lögð fram í haust með vegáætlun og tekin til meðferðar með vegáætluninni, svo að ég teldi eðlilegast að samgrh. legði þetta hvort tveggja fram, en ekki til að gera á nokkurn máta lítið úr því starfi sem hv. 1. þm. Vestf. vann í þessari nefnd. Ég veit að hann vann þar mjög vel og af miklum áhuga og á hrós skilið fyrir, ekki skal ég draga úr því. Þó að hann kjósi að gera minn hlut sem allra minnstan í þessum málum, þá hann um það, en ég geri hans hlut ekkert minni en hann er. Hann er góður.