03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4526 í B-deild Alþingistíðinda. (4280)

308. mál, iðnaðarstefna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. þm., sem eiga sæti í atvmn. Sþ., fyrir það starf sem er að baki í sambandi við umr. og meðferð þáltill. og raunar tillagna um iðnaðarstefnu. Þetta er annað þingið sem þáltill. um iðnaðarstefnu hafa fengið efnislega meðferð í hv. atvmn. sem skipuð hefur verið sömu þm. í bæði skiptin þannig að þeir hafa komið aftur að málinu.

Þáltill. af hálfu ríkisstj. um iðnaðarstefnu hafði tvívegis áður verið flutt hér á hv. Alþingi, en enn ekki komist til meðferðar í þingnefnd af sérstökum ástæðum sem ég ætla ekki að fara að rekja hér. Það hefur verið haft á orði, að meðferð þessarar till. hafi tekið langan tíma hér í þinginu. Hann er nokkuð langur mældur í mánuðum og árum, þar eð till. var fyrst flutt vorið 1979. En ég tel að á þessum tíma og í þeirri meðferð, sem till. hefur fengið við ítrekaða athugun hér í þinginu, hafi mikið áunnist og við höfum hér handa á milli uppskeru sem ég get verið mjög sáttur við sem stefnumörkun í iðnaðarmálum í landinu.

Vissulega ber þessi þáltill. um iðnaðarstefnu þess merki, að þar er byggt á málamiðlun milli allólíkra sjónarmiða í ýmsum greinum. En þess var ekki að vænta, að slík heilsteypt tillaga lægi fyrir án ágreinings, nema aðilar hefðu lagt sig fram um að ná saman og setja það fram, sem sameinar, frekar en ydda það sem menn greinir á um. Ég tel líka, og held að undir það sé almennt tekið, að sú vinna, sem lögð var í undirbúning þessarar stefnumörkunar á sínum tíma, og sú umræða, sem farið hefur fram um þær tillögur sem fyrir þinginu hafa legið, hafi þegar haft talsverð áhrif í þjóðfélaginu á meðferð iðnaðarmála og jafnvel hugsunarhátt í landinu að því er snertir viðhorf til þessarar atvinnugreinar.

Hv. frsm. mælti hér m.a. í sínu skýra máli fyrir þessari till. eitthvað á þá leið, að iðnaðurinn væri vaxtarbroddur í þjóðfélaginu. Það held ég sem betur fer að hann sé í hugum vaxandi fjölda landsmanna. En einnig má segja að iðnaðurinn sem atvinnugrein hafi um langt skeið verið olnbogabarn í þjóðfélaginu, þetta sé vaxtarbroddur sem ekki hafi notið þeirrar aðhlynningar sem þarf til þess að af honum spretti það sem vonir manna standa til. Ég el þá von í brjósti, að þessi stefnumörkun, hin fyrsta sinnar tegundar um einn af meginatvinnuvegum þjóðarinnar, verði til þess að hlúa að þessum vaxtarbroddi þannig að hann megi dafna eins og efni standa til og eins og vonir þjóðarinnar standa til.

Ég vænti þess, að sú stefnumörkun, sem felst í till. um að setja á fót sérstaka samstarfsnefnd um framkvæmd iðnaðarstefnu, reynist farsæl, en sú nefnd mun væntanlega taka við af samstarfsnefnd um iðnþróun sem starfað hefur frá haustinu 1978 á vegum iðnrn. og unnið gagnmerkt starf.

Herra forseti. Ég vil tímans vegna ekki orðtengja þetta. Ég vil ítreka þakkir mínar til þeirra manna, sem lagt hafa hér hönd að verki, bæði við undirbúning þessarar stefnumótunar og við málsmeðferð hér á hv. Alþingi, og treysti því, að þessi tillaga verði samþykkt og hún verði aflgjafi fyrir iðnaðinn í landinu hið fyrsta og reyndar einnig til lengri tíma litið.