03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4527 í B-deild Alþingistíðinda. (4282)

265. mál, Norðurlandasamningar um vinnumarkaðsmál

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Utanrmn. hefur fjallað um till. um staðfestingu fjögurra Norðurlandasamninga um vinnumarkaðsmál og viðurkenningu starfsréttinda, en þessir samningar eru: 1. Samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 6. mars 1982. 2. Samningur um samstarf stjórnvalda og stofnana á sviði starfsendurhæfingar og starfsmenntunar sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 6. mars 1982. 3. Samningur um viðurkenningu á starfsréttindum innan heilbrigðisþjónustunnar og dýratæknaþjónustunnar sem gerður var í Svendborg 21. ágúst 1981. 4. Samkomulag um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir almenna kennara í grunnskólum sem undirritað var í Helsingfors 3. mars 1982.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands. Allir þessir aðilar komu á fund nefndarinnar fyrst og fremst vegna samnings um sameiginlegan norrænan vinnumarkað sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 6. mars 1982.

Þessi samningur er í fyrstu gerð frá 22. maí 1954. Við Íslendingar höfum notið þessara réttinda á öðrum Norðurlöndum um langt skeið, en hins vegar hafa aðrar Norðurlandaþjóðir ekki notið sambærilegra réttinda á Íslandi. Það er ljóst að við Íslendingar höfum vegna smæðar okkar og sérstöðu algera sérstöðu að því er þetta mál varðar, og þess vegna þótti nauðsynlegt að afgreiða það með sérstakri bókun sem kemur fram á þskj. 265, bókun sem hæstv. félmrh. lagði fram við það tækifæri og aðilum er kunnugt um og hafa í heild viðurkennt. Utanrmn. vill leggja sérstaka áherslu á þessa bókun og ítrekar hana í nál. Ég vil einnig vísa til umsagna, sem utanrmn. hafa borist frá Vinnuveitendasambandi Íslands, frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og frá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja sameiginlega.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera þetta mál að sérstöku umræðuefni hér. Ég er þeirrar skoðunar, að það hafi verið rétt af okkur Íslendingum að staðfesta þessa samninga og ganga inn í samninginn um sameiginlegan norrænan vinnumarkað. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að fram fari umræða um það, bæði hér á Alþingi og annars staðar, með hvaða hætti menn vitji að samstarf Norðurlandanna þróist. Það er fyrir því mikill vilji á Norðurlöndunum og Norðurlandaráðsþingum að þróa þetta samstarf þannig að það geti náð með ákveðnari hætti til sem flestra þátta þjóðlífsins.

Norðurlandaráð hefur lagt áherslu á tvö mál nú að undanförnu. Í fyrsta lagi leggur það áherslu á tæknina og framtíðina og vill með því undirstrika að tæknivæðing hlýtur að hafa afgerandi áhrif varðandi framtíðarþróun landanna. Í öðru lagi hefur Norðurlandaráð viljað leggja áherslu á Norðurlöndin sem heimamarkað og þróa þannig heimamarkað og viðskiptasambönd milli landanna með ákveðnari hætti en verið hefur. Ef það verður niðurstaðan að samstarf Norðurlandanna verði mun víðtækara en nú er, bæði á sviði viðskipta og tæknimála, hlýtur það að hafa veruleg áhrif á ýmsa aðra þætti samstarfsins. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar og sem flestir geri sér grein fyrir því og setji fram stefnumið um það, með hvaða hætti þeir vilja að samstarf Norðurlandanna þróist.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera þetta mál að frekara umræðuefni hér, en vit aðeins endurtaka að utanrmn. leggur til að þáltill. þessi verði samþykkt, en vill af því tilefni ítreka bókun sem liggur fyrir varðandi sameiginlegan norrænan vinnumarkað.