03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4528 í B-deild Alþingistíðinda. (4284)

200. mál, listiðnaður

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft til meðferðar till. til þál. um eflingu listiðnaðar og iðnhönnunar, en aðalatriði þeirrar till. er að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig best verði staðið að eflingu listiðnaðar og listrænnar iðnhönnunar á Íslandi. Er síðan tilgreint í fjórum töluliðum hvaða atriði nefndin skuli sérstaklega fjalla um. Þau eru:

1. Hvernig opinberir aðilar í samvinnu við einstaklinga, félög og fyrirtæki geti best örvað listiðnað og listhönnun á íslenskum iðnaðatvörum.

2. Hvernig staðið verði að því að safna heimildum um þróun listiðnaðar og listhönnunar á Íslandi þannig að hér geti myndast vísir að listiðnaðarsafni, svo og hvernig staðið verði að vernd á hönnun og mynstrum, eins og fram kemur í brtt. frá nefndinni.

3. Hvernig unnt sé að fjölga sýningartækifærum fyrir íslenskan listiðnað erlendis.

4. Hvernig haga beri samstarfi við aðila sem vinna að sömu markmiðum hjá nágrannaþjóðum okkar, einkum á Norðurlöndum. — Aftan við þá grein leggur nefndin til að komi, að við tillögugerð um þessi efni verði tekið mið af reynslu annarra þjóða á þessu sviði og haft sem víðtækast samstarf við þá aðila sem hagsmuna eigi að gæta í þessum efnum.

Nefndin leitaði umsagnar allmargra aðila og voru umsagnir yfirleitt jákvæðar.

Leirlistarfélagið styður fram komna þáltill. og skorar á hv. alþm. að þeir veiti henni brautargengi, eins og segir í þeirri umsögn.

Félag ísl. iðnrekenda telur að gagnlegt gæti verið að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig standa megi að eflingu listiðnaðar og listrænnar iðnhönnunar. Félagið telur að auka mætti árangur af starfi nefndarinnar ef hún fjallaði almennt um eflingu vöruþróunar fremur en einungis eflingu listiðnaðar og listrænnar iðnhönnunar.

Jafnframt leggur félagið til að nefndinni verði falið að skila áliti innan tillekins tíma.

Textílfélagið fagnar fram kominni till. til þál. um eflingu listiðnaðar og iðnhönnunar.

Félag ísl. gullsmiða telur till. þessa tímabæra og athyglisverða.

Arkitektafélag Íslands telur eflingu listiðnaðar og iðnhönnunar mjög aðkallandi verkefni og löngu tímabært að myndarlegt átak verði gert á þessu sviði.

Landssamband iðnaðarmanna telur fagnaðarefni að fram skuli komin tillaga á hinu háa Alþingi um eflingu listiðnaðar. Samtökin benda á að till. taki ekki mið af tæknilegri hönnun og raunar ekki heldur af iðnhönnun almennt. Þrátt fyrir að till. nái ekki yfir víðara svið hönnunar styður Landssamband iðnaðarmanna efni hennar.

Iðntæknistofnun telur tímabært að gert verði átak til eflingar list- og iðnhönnunar.

Þetta eru helstu niðurstöður umsagna um þessa till. Eftir að hafa kynnt sér þessar umsagnir og rætt till. á nokkrum fundum leggur allshn. til að till. verði samþykkt með nokkrum breytingum sem ég gerði grein fyrir þegar ég rakti aðalefni þessa máls, og eru þær brtt. fluttar á sérstöku þskj., þ.e. þskj. 731.